Húsgöngu- og fjarsölusamningar

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 15:58:17 (5535)

2000-03-21 15:58:17# 125. lþ. 83.15 fundur 421. mál: #A húsgöngu- og fjarsölusamningar# (heildarlög) frv. 46/2000, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þær upplýsingar sem hún gefur um þetta mál. Vissulega er hægt að taka undir það með hæstv. ráðherra að 12. gr. er afar mikilvæg og mikilvægt að frá henni sé tryggilega gengið þannig að það sé tekið á þessu máli eins og hægt er til að koma í veg fyrir misnotkun á greiðslukortum. Ég hygg að efh.- og viðskn. muni skoða þessa grein mjög náið og eins það hvort stjórnvöld eigi ekki með einhverjum hætti að koma að þeim reglum sem á að setja til að tryggja vernd neytenda en að fyrirtækjunum sjálfum sé ekki bara eftirlátið það. En hæstv. ráðherra upplýsir að verið sé að skoða þessi mál í nefnd sem er að skoða greiðslukortastarfsemi. Mér finnst afar mikilvægt að efh.- og viðskn. geti fylgst með þessum þætti í starfi nefndarinnar þegar verið er að setja þetta ákvæði í lög varðandi þetta frv. Ég spyr: Hvað líður störfum þessarar nefndar? Hvar er málið á vegi statt? Má gera ráð fyrir að niðurstöðurnar liggi fyrir meðan efh.- og viðskn. er að fjalla um þetta frv. eða a.m.k. þann þáttinn sem snýr að meðferðinni á greiðslukortum sem er verið að taka fyrir í þessari nefnd? Ég held að það verði mikilvægt að fá upplýsingar um það nú við 1. umr. málsins.