Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 16:05:11 (5538)

2000-03-21 16:05:11# 125. lþ. 83.17 fundur 489. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (póstþjónusta) frv. 48/2000, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[16:05]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér um lítið frv. um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Lítið frv. segi ég en samt stórt mál, a.m.k. fyrir suma. Megininntak frv. er að bankar og sparisjóðir megi taka að sér að veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita slíka þjónustu. Hæstv. viðskrh. hefur farið yfir málið, gert grein fyrir innihaldi þess og hvernig standa skuli að þessu. Ég vil hins vegar, herra forseti, gjarnan fara nokkrum orðum um tilurð málsins og mikilvægi þess.

Það er svo að í tæplega tvö ár hafa sparisjóðir víða um landið efnt til samstarfs við Íslandspóst um afgreiðslu. Þetta samstarf hefur í einhverjum tilfellum orðið til þess að hægt hefur verið að halda úti eðlilegri póstþjónustu á viðkomandi stað. Bættar samgöngur og breytingar í þjónustuháttum gera það að verkum að ýmislegt í hinni daglegu þjónustu, ýmislegt af því sem við gerum kröfu um að sé hluti af okkar daglegu þjónustu, á erfiðara uppdráttar en áður. Við þekkjum líka að það verður erfiðara að veita þjónustuna þegar fækkar í byggðum. Við könnumst öll við hvatninguna til að versla í heimabyggð, sem minnir okkur á þá staðreynd að það eru ákveðin mörk á því hvenær talið er réttlætanlegt að bjóða upp á tiltekna þjónustu. Þegar fólki sem sótt hefur þjónustuna fækkar kemur að því að aðilar treysti sér ekki lengur til að halda uppi þjónustunni. Þess vegna er svo mikilvægt að þeir sem best til þekkja og fólk lítur á sem nauðsynlega þjónustuaðila hafi allar forsendur, þar á meðal lagaforsendur, til þess að taka höndum saman um að veita þjónustuna.

Ég gat þess að það væru um tvö ár síðan menn fóru í samstarf um þessa þjónustu. Skrefið sem hér á að stíga er í raun að viðskiptabankar og sparisjóðir geti tekið að sér sem verktakar að veita þá þjónustu sem pósturinn hefur veitt. Eins og hér stendur: ,,veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita slíka þjónustu``. Það er mjög mikilvægt að þjónustan verði treyst og þeir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir annars vegar og Íslandspóstur eða póstþjónustan hins vegar, sem eiga að því er virðist svo eðlilega saman um samstarf, geti unnið að með þeim hagkvæmasta hætti sem hægt er og hér er verið að opna fyrir með þessari lagabreytingu.

Ég tel, herra forseti, afar mikilvægt fyrir mannlíf um landið allt að lagaákvæði sem taka mið af eldri veruleika standi ekki í vegi fyrir að stofnanir og þjónustuaðilar geti nýtt sér þá möguleika sem fyrir hendi eru til samstarfs um þjónustuna eða að einn aðili sinni jafnframt þjónustu fyrir annan. Sparisjóðirnir áttu frumkvæðið að þessu samstarfi við Íslandspóst og ég veit að þar hafa menn bundið miklar vonir við það að þessi lagabreyting gæti orðið til þess að hægt yrði að þróa frekara samstarf. Við sem komum utan af landi, af sparisjóðasvæðunum, þekkjum að þeir hafa sinnt hinum fámennari og dreifðari byggðum. Þar á bæ þekkja menn vel hvar skórinn kreppir varðandi þjónustumöguleikana.

Ég sagði hér og hef reyndar tvisvar tekið fram, herra forseti, að það eru núna bráðum tvö ár síðan menn fóru að gera tilraunir með samstarf af þessum toga. Allt frá þeim tíma hafa menn beðið eftir því að frv. sem þetta birtist hér á Alþingi. Það er vel að nýr viðskrh. skuli beita sér strax í málinu. Ég veit að ég mæli fyrir munn margra þegar ég læt í ljósi þá ósk og von að þetta frv. hafi hér skjótan framgang, að nefndin skoði hvort hér er ekki rammlega um allt bundið þannig að í framhaldinu geti viðskiptabankar og sparisjóðir tekið að sér þessa mikilvægu þjónustu svo að landsbyggðin fái notið eins góðrar póst- og bankaþjónustu og mögulegt er við þær kringumstæður sem þar eru.