Samkeppnislög

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 16:42:03 (5542)

2000-03-21 16:42:03# 125. lþ. 83.16 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því frv. sem hæstv. viðskrh. hefur hér mælt fyrir. Ég verð að segja eins og er að mér finnst nú meiri bragur að því frv. sem ráðherrann mælir nú fyrir um breytingu á samkeppnislögunum en því máli sem hún mælti fyrir fyrr í dag um verðbréfaviðskipti. Mér sýnist að hér sé á ferðinni mjög gott frv. og sýnist að að verulegu leyti sé tekið tillit til þess sem fram kom í frv. Samfylkingarinnar sem var lagt hér fram fyrr í vetur undir forustu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar.

Það hefur lengi legið fyrir að það hafi þurft að skerpa á ákvæðum samkeppnislaga og gera þau mun beittari til þess að Samkeppnisstofnun hafi nauðsynlega lagastoð til að sinna þeirri eftirlitsskyldu sinni að hindra eða koma í veg fyrir eins og kostur er fákeppni og einokun í atvinnulífinu. Þær öru breytingar sem orðið hafa á atvinnulífinu á umliðnum árum, sem ekki síst hafa einkennst af einkavæðingu ríkisfyrirtækja, mikilli sameiningu og samruna fyrirtækja, samþjöppun valds og fjármagns í þjóðfélaginu og miklum og örum breytingum á fjármálamarkaði og í viðskiptalífi, kalla á miklu beittari og markvissari samkeppnislöggjöf en við búum við í dag. Reyndar er það svo að við búum við miklu veikari samkeppnislöggjöf en þau lönd sem við helst viljum bera okkur saman við og ljóst að með sívaxandi alþjóðavæðingu er það líka veigamikill hluti að því að gera okkur samkeppnisfær við aðrar þjóðir að leikreglur séu skýrar í atvinnulífinu og á fjármálamarkaði og að samkeppnislöggjöfin sé virk og markviss til að fyrirbyggja samþjöppun og einokun í atvinnu- og viðskiptalífinu.

Gagnrýnin umræða um þá hættu sem fylgir valdasamþjöppun í atvinnulífinu og óæskileg völd og ítök fárra aðila og fyrirtækjasamsteypna er líka nauðsynleg. Til að frjáls samkeppni í atvinnu- og viðskiptalífi nái tilgangi sínum og neytendur njóti hennar í lægra vöruverði og betri þjónustu er það því grundvallaratriði að koma í veg fyrir fákeppni, óeðlilegar viðskiptahindranir og samþjöppun valds í atvinnulífi, en margt bendir til þess að á liðnum árum hafi tilhneigingar gætt til þess að þrengja að frjálsri samkeppni og ýta undir fákeppni og einokun á sama tíma og Samkeppnisstofnun og eftirlitsstofnanir með fjármálamarkaði, eins og Bankaeftirlitið og nú Fjármálaeftirlitið, hafa ekki haft nauðsynleg tæki og lagastoð til að bregðast við þessari þróun. Hringamyndun, valdasamþjöppun og óeðlileg hagsmunatengsl sem takmarkað geta samkeppni verða sífellt sýnilegri og meira áberandi í þjóðfélaginu. Slík þróun er andstæð hagsmunum neytenda. En stjórnvöldum ber skylda til að sjá til þess að leikreglur frjálsrar samkeppni séu þannig að neytendur fái notið hennar í lægra vöruverði og betri þjónustu.

[16:45]

Samþjöppun t.d. á flutningsmarkaði bæði í lofti, sjó- og landflutningum er farin að ógna alvarlega eðlilegri samkeppni og fyrirtæki á flutningsmarkaðnum tengjast líka með beinni eignaraðild trygginga- og olíufélögunum sem þau eiga mikil viðskipti við. Sömu tilhneigingar gætir líka í bankakerfinu þar sem t.d. Landsbankinn er orðinn stór eignaraðili í vátryggingastarfsemi en það virðist svo að olíufélögin séu að teygja anga sína og umsvif æ meira inn í óskylda starfsemi og liggja undir ámæli fyrir verðsamráð. Hagsmuna- og stjórnunartengsl milli samkeppnisaðila eru algeng og í atvinnulífinu hafa myndast markaðsráðandi fyrirtækjablokkir sem tengjast eigna- og stjórnunarlega.

Það eru ekki síst olíufélögin, trygginga- og flutningafyrirtæki, útflutningsfyrirtæki, sjávarafurða- og ferðaþjónustufyrirtæki sem tengjast með gagnkvæmu eignarhaldi. Stjórnunartengsl eru áberandi þar sem sömu aðilar sitja í stjórnum þessara fyrirtækja sem oft eru í samkeppni.

Fákeppni og samþjöppun valds er líka að verða meira áberandi í fjölmiðlastarfsemi sem er vissulega mjög varhugavert fyrir lýðræðið og eðlilega skoðanamyndun í landinu. Er reyndar orðin full ástæða til þess að fákeppni og valdasamþjöppun á fjölmiðlamarkaðnum sé gefinn meiri gaumur og áhrifin af þeirri þróun, og kannski full ástæða til þess að Samkeppnisstofnun skoði þá þróun sem orðið hefur í fjölmiðlastarfsemi hér á landi á undangengnum árum.

Að öllu samanlögðu má segja að sú samruna- og sameiningarþróun sem einkennt hefur viðskipta- og atvinnulífið á undanförnum árum hafi í allt of miklum mæli leitt til samþjöppunar valds og auðs á fárra manna hendur. Ljóst er líka að þessi þróun hefur skapað nokkurn trúnaðarbrest og tortryggni milli atvinnu- og viðskiptalífsins annars vegar og almennings hins vegar. Almenningur er nefnilega í sífellt meira mæli að gera sér grein fyrir að óheft frjálshyggja og söfnun valds og fjármagns á fárra manna hendur eykur ekki einasta misrétti í kjörum fólks, sem leitt hefur til þess að mikil gjá er í kjörum milli hópa og stétta í þjóðfélaginu, heldur er einnig um að ræða þróun sem ýtir undir fákeppni og einokun sem leiðir af sér hærra vöruverð og verri þjónustu við almenning.

Ég tel að það hljóti að vera forgangsverkefni að hraða þeirri úttekt sem þingmenn Samfylkingarinnar hafa óskað eftir um úttekt á stjórnunar- og eignatengslum í íslensku atvinnulífi. Raunar sætir það furðu að hæstv. viðskrh. skuli draga lappirnar í því máli en sá málflutningur er langt frá því að vera boðlegur að bera fyrir sig að 10 eða 15 millj. kr. kosti að gera slíka úttekt og því þurfi að seinka því brýna verkefni verulega og sú úttekt verði ekki tilbúin fyrr en, mig minnir að hæstv. ráðherra hafi talað um að tveim árum liðnum héðan í frá, eins og nefnt var í hér umræðunni um daginn.

Ég tel að það sé skylda Alþingis að fylgjast vel með þeirri þróun sem orðið hefur og snertir stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Til að svo megi verða þarf úttekt að liggja fyrir og ég skora á hæstv. ráðherra að hraða þeirri úttekt eins og kostur er og fráleitt að ráðherrann skuli bera fyrir sig svo einföldum rökum að hér sé um að ræða 10 eða 15 millj. kr. útgjöld sem hver einasti þingmaður í þessum sal er örugglega tilbúinn að standa að til (Gripið fram í.) að hægt verði að flýta slíkri úttekt.

Ég veit ekki hvað hæstv. ráðherra var að reyna að segja hér úr hliðarsal en væntanlega kemur hún því á framfæri úr ræðustól og ekki síst ef það hefur verið eitthvað jákvætt um það að hæstv. ráðherra ætli að hraða þeirri úttekt sem ég var að nefna í máli mínu.

Ég sé, herra forseti, út af fyrir sig ekki ástæðu til að hafa mjög mörg orð um þetta frv. Ég á sæti í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar, en frv. sem við ræðum er mjög mikilvægt og gerir Samkeppnisstofnun fært með mun markvissari og beittari hætti og aðgerðum að taka á málum, ekki síst varðandi samruna fyrirtækja en í frv. eru samrunaákvæði samkeppnislaga styrkt verulega sem og bann við samkeppnishamlandi samstarfi fyrirtækja og bann við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þessir þættir eru þeir mikilvægustu að taka á og þó fyrr hefði verið. Samkeppnisstofnun verður að hafa afar skýrar og víðtækar heimildir til að geta bannað samstarf og samráð fyrirtækja sem torvelda samkeppni og á það ekki síður við um misnotkun á markaðsráðandi stöðu fyrirtækja. Ég er sannfærð um að mörg þau mál sem verið hafa á borði Samkeppnisstofnunar hefðu farið á annan veg ef þessi lagaákvæði hefðu verið fyrir hendi sem frv. felur í sér og er þar af ýmsu að taka t.d. á matvörumarkaðnum sem mér fannst hæstv. ráðherra nefna hér áðan.

Í því sambandi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi svarað Neytendasamtökunum sem fyrir skömmu síðan beindu ósk til hæstv. ráðherra um rannsókn á orsökum verðhækkana og hvers vegna verðlag væri svona hátt hér á landi. Mig minnir að það hafi verið í byrjun febrúarmánaðar sem viðskrh. fékk þetta bréf frá Neytendasamtökunum en þar var þess farið á leit við viðskrh. að hún láti nú þegar fara fram ítarlega athugun á orsökum þess að verðhækkanir og verðlag hér á landi sé langt umfram það sem gerist í nálægum löndum eins og ítrekað hafi komið fram í könnunum. Neytendasamtökin studdu mál sitt gögnum um verðhækkanir hér á landi á undanförnum 12 mánuðum sem fram höfðu komið m.a. frá hagdeild ASÍ, og væri fróðlegt við þessa umræðu, ekki síst þar sem hæstv. ráðherra hafði sjálf orð á, þegar hún mælti fyrir frv., þeirri fákeppni sem orðin er á matvörumarkaðnum sem er auðvitað vísasti vegurinn til að hækka verðlag og draga úr þjónustunni, að hæstv. ráðherra upplýsi hvort hún ætli að verða við óskum Neytendasamtakanna um rannsókn á orsökum verðhækkana og hvers vegna verðlag er svona hátt hér á landi. Þeirri spurningu beini ég til hæstv. ráðherra.

Eins og ég sagði á ég sæti í efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til umfjöllunar. Ég vil ítreka þakklæti mitt til hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þetta frv. og spyr hæstv. ráðherra hvort hún leggi ekki mikla áherslu á að málið nái fram að ganga á þessu þingi. Ég tel afar brýnt að málið fái framgang á þessu þingi og vil segja í lokin að ég fagna því að sjá í frv. mörg þau ákvæði og áherslur sem Samfylkingin hefur lagt áherslu á í þeim málum og tengist leikreglum í atvinnulífinu og á fjármálamarkaði.