Samkeppnislög

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 17:02:58 (5544)

2000-03-21 17:02:58# 125. lþ. 83.16 fundur 488. mál: #A samkeppnislög# (samstarf fyrirtækja, markaðsráðandi staða, samruni o.fl.) frv. 107/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á samkeppnislögum, með síðari breytingum, er virkilega þarft. Það hefur sýnt sig að þau samkeppnislög sem við höfum búið við hafa verið fjarri því að tryggja virka samkeppni. Þaðan af síður hafa þau tryggt rétt neytandans, rétt hins almenna þjóðfélagsþegns gegn því að ákvæðum samkeppnislaganna væri ekki hreinlega beitt gegn þeim eða að þau veittu þeim falska vernd. Við vorum með verðlagseftirlit og margháttað eftirlit, bæði með verði og gæðum þjónustu, sem hefur nú verið aflagt á mörgum sviðum, en treyst á í staðinn að virk samkeppni og það að neytandinn, hinn almenni þjóðfélagsþegn, kvæði í rauninni á um bæði gæði, verð og þjónustu. Vissulega hefur þetta skilað árangri á ýmsum sviðum, a.m.k. tímabundið. Eins og ég hef vakið athygli á áður í fyrirspurnatíma á Alþingi hafa þó orðið mun meiri hækkanir á síðasta ári hér á landi á innfluttum matvörum en innflutningsverð hefði átt að gefa tilefni til. Jafnframt höfum við líka séð og reynt að mörg af þessum stóru fyrirtækjum, sem hafa verið að hasla sér völl á matvörumarkaðnum, hafa steypt sér saman og skapað sér þar fákeppnisaðstöðu og möguleika á að nýta aðstöðu sína á þeim grunni. Gagnvart slíku er neytandinn og hinn almenni þjóðfélagsþegn gjörsamlega varnarlaus. Við höfum fellt niður verðlagseftirlit og ákvæðum samkeppnislaga hefur a.m.k. ekki verið beitt hingað til eða verið gripið til þeirra til að vernda neytandann gegn meintri eða hugsanlegri fákeppni.

Ég vil í þessu sambandi ítreka fsp. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur til hæstv. viðskrh. um hvað líður beiðni Neytendasamtakanna um að kanna hvort í skjóli fákeppni hafi verð verið hækkað á vörum hér á landi, einkum á matvörum á síðasta ári.

Við upplifum það t.d. hjá olíufélögunum í þeim miklu hækkunum sem hafa komið fram upp á síðkastið á olíu og bensíni og annarri slíkri þjónustu að þar virðist ekki vera mikill munur á. Hafi menn einhvern tímann rætt um samkeppni í sölu og dreifingu á olíu minnist ég þess ekki um langa hríð að hafa heyrt eitt einasta orð í þá átt að það væri samkeppni á olíudreifingarmarkaðnum.

Herra forseti. Við höfum búið við það að samfélagið hefur lagað sig að ákveðnum verklagsreglum í skjóli þessara samkeppnislaga og að neytandinn verður oft aukaatriði. Það hefur verið mikilvægara atriði hvernig einstök fyrirtæki og samsteypur geta komið sér saman um þann markað sem er.

Herra forseti. Ég fagna þeirri ákveðnu viðleitni sem þessar lagabreytingar hafa að markmiði, að tryggja raunverulegan rétt neytandans, raunverulegan rétt hins almenna borgara í samkeppnisumhverfinu þannig að það sé hagur þeirra og hagsmunir sem séu hafðir að leiðarljósi en ekki hagsmunir einstakra fyrirtækja í skiptingu markaðarins.

Ég vil benda á atriði sem ég tel að hæstv. viðskrh. hefði einmitt átt að og eigi að huga að frekar í sambandi við lagasetningar og jöfnun á samkeppnisaðstöðu. Mér skilst að skv. 14. gr. hafi verið felld niður ákvæði um greiðslukort og greiðslukortaviðskipti. Nú skal ég játa að ég er ekki kunnugur þessum atriðum í smáatriðum en ég vil þó benda á eða spyrja hvort í þessum viðskiptum með notkun greiðslukorta til greiðslu fyrir vöru og þjónustu sé hvergi falin mismunun sem gæti t.d. tekið til ákvæða 3. gr. þar sem segir:

,,Bann þetta tekur m.a. til samninga, samþykkta og samstilltra aðgerða sem:

a. áhrif hafa á verð, afslætti, álagningu eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti, ...

d. mismuna viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja þannig samkeppnisstöðu þeirra.``

Eftir því sem ég veit best eru mismunandi samningar og mismunandi kjör í viðskiptum með greiðslukort hjá þeim aðilum sem innheimta þessa þjónustu í verslunum, stórmörkuðum og hjá öðrum slíkum aðilum sem innheimta eða taka við greiðslu fyrir vöru og þjónustu með greiðslukortum og standa svo skil á þjónustugjaldi til banka og greiðslukortafyrirtækja.

Eftir því sem ég veit best eru mismunandi kjör á eftir því hversu stórir eða litlir viðskiptaaðilarnir eru og jafnvel breytilegt á milli bankastofnana hvernig þeir innheimta og hvað þeir leggja á eða hvað þeir taka fyrir þjónustu sína. Fyrir mér ætti þetta að vera samræmd þjónusta, ég nefni þetta sem dæmi, og þessi innheimta þeirra á þjónustugjaldinu ætti ekki í sjálfu sér að hafa áhrif á samkeppnistöðu fyrirtækja eða verslana.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. viðskrh. hvernig sé háttað þeim kjörum sem eru á greiðslukortaviðskiptum í verslunum og hvort þar sé beitt mismunun sem hefur svo áhrif á vöruverð og verð á vöru og þjónustu?

Hvort sem eru viðskiptabankar, bankar í eigu ríkisins eða einkabankar, eða aðrir slíkir aðilar þá tel ég að aðeins það að greitt sé með greiðslukortum eigi ekki að vera mismunandi í verði á þjónustu.

Herra forseti. Ég vil líka draga fram samkeppni í þjónustu. Við sem búum úti á landi upplifum þessa samkeppnisumræðu sem talsvert framandi. Við upplifum hana með þeim hætti að það samkeppnissvæði eða sá samkeppnismarkaður sem verið er að búa löggjöfina um sé aðeins á Stór-Kópavogs- eða Stór-Reykjavíkursvæðinu. Síðan séu lög og reglur og sú umgjörð sem viðskiptalífinu er búin þar að sjálfsögðu látin ganga yfir alla landsmenn án þess að jafnræðisregla og kröfur um jafngildi verðs á vöru og þjónustu og gæði á henni sé fylgt um allt land. Einmitt þessi lög um samkeppni geta virkað hamlandi í uppbyggingu á þjónustu úti á landi, þar sem m.a. er oft reynt að nýta saman þjónustu og styrk hins opinbera, opinberra stofnana, bæði á vegum sveitarfélaga og ríkisins, og jafnvel í samvinnu við einkaaðila, tengja þetta saman og nýta styrk til allra. Mér hefur fundist að einmitt samkeppnislögin eða beiting þeirra, sú umgjörð sem þau búa við, virki hamlandi á starfsemi og þjónustu ríkisins, þjónustu sveitarfélaganna og þjónustu hins opinbera. Það leiðir líka hugann að því, herra forseti, hvort ekki verði að huga alveg sérstaklega að samkeppnisumgjörð ríkisstofnana og stofnana á vegum sveitarfélaganna og þjónustu á þeirra vegum, hvort staða þessara aðila, sé ekki beitt rangindum í gegnum samkeppnislögin. Það er hagur borgaranna og hagur einstaklinganna út um allt land sem á að vernda og standa vörð um. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að einmitt þetta sé haft rækilega með og í huga þegar við endurskoðum nú samkeppnislögin.

[17:15]

Herra forseti. Ég fagna því að frv. hefur verið lagt fram og tek undir þau orð hv. þm. sem hér hafa lýst þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að þetta frv. nái sem fyrst fram að ganga, fái vandlega skoðun í nefnd, hraða og góða þannig að það sem til bóta horfir geti sem fyrst komið til framkvæmda.

Við horfum upp á það nú að sé ekki hægt að beita viðurlögum eða bannákvæðum, t.d. gagnvart matvörumarkaðnum sem hefur tiltölulega frjálsar hendur með að hækka verð á vöru og þjónustu eins og við höfum nú upplifað, þá er mjög erfitt að stýra peningamálum í landinu. Ef hin virka samkeppni sem falið er það mikilvæga hlutverk að hafa eftirlit og gera kröfu til verðs og gæða á vörum og þjónustu verður ekki að fullu virk þá höfum við í raun ekkert kerfi til að vernda okkur gegn því. Þá verður hagstjórn og peningamálastjórn fálmkennd.

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. er komið fram og vona að það fá vandaða og góða meðferð.