Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 17:34:46 (5548)

2000-03-21 17:34:46# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[17:34]

Frsm. 1. minni hluta (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Meiningin er að ég mæli fyrir nál. fyrri minni hluta utanrmn. En vegna tiltekinna aðstæðna í dag þá varð því ekki við komið að ég kæmi þar inn í umræðuna sem eðlilegt hefði verið með tilliti til venjulegrar uppröðunar hlutanna. En umræðuna þurfti að hefja í dag og henni þurfti fram að halda vegna aðstæðna, er mér tjáð, og ekki er við það að sakast.

Ég hef skilað nefndaráliti sem er á þskj. 791 og ætla að gera grein fyrir því og vitna lítillega í fylgiskjöl sem fylgja nefndarálitinu. Það er að vísu ekki nema hluti þeirra umsagna og gagna sem til utanrmn. komu af eðlilegum ástæðum. Það hefði verið þykkur bunki ef allt hefði verið tekið með. En ég hef valið nokkrar umsagnir sem ég ætla að vitna til sérstaklega í máli mínu og sú er ástæðan fyrir því að þær eru birtar hér sem fylgiskjöl. Vilji menn kynna sér frekari gögn í málinu þá er nóg til af þeim í utanrmn. og væntanlega ekki vandi að fá aðgang að þeim.

Herra forseti. Nefndarálit 1. minni hluta hefst á því að ræða svolítið um þá athyglisverðu og umhugsunarverðu staðreynd að í þessu stóra máli, sem legið hefur fyrir núna um nokkurt árabil að gæti komið hér til afgreiðslu og þá á þeim grundvelli að gerð væri tillaga um aðild Íslands að Schengen-samstarfinu, þ.e. að um þetta hefur sáralítil umræða orðið í íslenskum þjóðmálum og í íslenskum stjórnmálum. Það má vera okkur Íslendingum nokkurt umhugsunarefni þegar jafnvel stórpólitísk og afdrifarík utanríkismál af þessu tagi eru um árabil í farvatninu, koma síðan hér til afgreiðslu og endanlegrar ákvörðunar á Alþingi án þess að heitið geti að nokkur almenn umræða hafi farið fram um málið.

Herra forseti. Hér verður að segjast eins og er að stjórnvöld bera mikla sök. Ég segi það alveg hispurslaust og beint út að ég tel það mjög ámælisvert hversu íslensk stjórnvöld hafa staðið slælega að verki hvað það varðar að kynna þetta mikilsverða mál fyrir almenningi og miðla upplýsingum um það. Það hefur mestan part verið læst niðri í skúffum embættismanna þessi fimm ár eða svo frá því að ljóst mátti verða í kjölfar sameignlegrar yfirlýsingar forsætisráðherra Norðurlanda að að þeim tímamótum gæti komið að lagt yrði til að Ísland, lýðveldið Ísland, gerðist aðili að þessum Schengen-samningum án þess þó að vera meðlimur í Evrópusambandinu. Og þegar af þeim einu ástæðum hefði auðvitað verið ærin ástæða til að draga upp eins skýrt og kostur var þá mynd sem þarna var að teiknast og reyna að auðvelda almenningi að átta sig á því máli og mynda sér á því skoðun, jafnvel þó svo að þetta mál ætti ekki að fara sérstaklega til þjóðaratkvæðagreiðslu hér. Sá háttur hefur ekki verið hafður á þegar mikilsverð utanríkispólitísk mál hafa verið leidd hér til lykta, öfugt við t.d. nágrannaríkið Danmörku. Þar hafa menn kosið í almennum kosningum um öll meiri háttar mál sem tengjast þátttöku Dana, t.d. í Evrópusambandsstarfinu. Það hefur aftur leitt til mikillar umfjöllunar um málin, mikillar umræðu og upplýsinga sem leitt hafa til þess að Danir eru vel með á nótunum, fylgjast með og veita stjórnvöldum aðhald þegar að þessum hlutum kemur samanber auðvitað og frægast er þegar þeir felldu tilraun danskra stjórnvalda til að koma þeim inn í Maastricht-samninginn á sínum tíma.

Ég rek í nefndaráliti lítillega aðdraganda málsins en það er út af fyrir sig óþarfi að tyggja þá staðreyndaþulu upp aftur og aftur. Það var lítillega hlaupið á því í nefndaráliti meiri hluta og það kemur fram hér í fylgiskjölum með tillögunni og greinargerð hvernig þetta samstarf er til komið. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í það fyrir utan það sem er pólitískt í því sambandi og skiptir máli þegar málið er greint pólitískt.

En ég ætla aðeins að víkja að upphafinu eins og það snýr að Íslandi og sameiginlegri yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna sem var reyndar gefin í tengslum við fundi á Íslandi í febrúarmánuði 1995.

Það hefur áður komið til orðaskipta milli m.a. mín og hæstv. utanrrh. út af því hvernig sú yfirlýsing hefur síðar verið túlkuð. Ég vil enn fara lítillega yfir það mál og halda til haga skilningi mínum á því að þegar hin sameiginlega yfirlýsing forsætisráðherra Norðurlandanna var gefin þá hafi síður en svo verið sjálfgefið að niðurstaða þeirrar samstöðu sem Norðurlöndin, a.m.k. í orði kveðnu, boðuðu þá að þau vilju sýna í þessu máli leiddi til aðildar þeirra að Schengen-samningunum. Þá var ekkert ríkjanna orðið aðili. Danir voru að vísu í viðræðum um að koma þar. En það lá snemma fyrir að aðild Dana að þessum þáttum Evrópusamstarfsins, eða Schengen-samningsins sem síðar varð þar innlimaður, yrði með sérstökum hætti eins og í mörgum fleiri tilvikum. Ein af mörgum undanþágum sem Danir hafa frá ýmsum framkvæmdaþáttum innan Evrópusambandsins á grundvelli svonefnds Edinborgarsamkomulags tengist einmitt Schengen.

Það er nú svo kostulegt eins og það er, herra forseti, að í skjalasöfnum íslenskra ráðuneyta fannst ekki yfirlýsing forsætisráðherra Norðurlanda frá 27. febrúar 1995. Ég bað nefndadeild Alþingis að láta leita hennar bæði í utanrrn. og forsrn. Á hvorugum staðnum var hægt að útvega gagnið og ég leyfi mér að spyrja: Er ekki til opinber þýðing á þessari yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna? Hún virðist ekki finnast í skjalasöfnum ráðuneyta og það er umhugsunarverð staðreynd ef grundvallargögn af því tagi eru ekki til.

Ég er með hana hér upp úr þingtíðindum Norðurlandaráðs þar sem hún var birt sem fylgiskjal með greinargerð forsætisráðherra Dana fyrir hönd forsætisráðherranna á Norðurlandaráðsþingi það ár. En í íslenskri þýðingu á ég þessa yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna ekki, og þaðan af síður þá í löggiltri þýðingu.

Því er ég nú að tala um þetta, herra forseti, að stundum geta orð skipt máli, jafnvel eitt einasta orð, og hvaða merking er í það lögð. Ég hef haldið því fram oftar en einu sinni og hef ýmislegt fyrir mér í því, þar á meðal skoðanir manna sem voru samtíma á vettvangi eins og Hjörleifs Guttormssonar sem var mikill þátttakandi í þessu ferli á sínum tíma, að hann og mjög margir fleiri hafa viljað meina að í hinni sameiginlegu yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna hafi það legið ljóst fyrir sem og í umræðum í kringum það mál að málin gætu tekið stefnu í báðar áttir, þ.e. annars vegar að öll Norðurlöndin yrðu aðilar að Schengen-svæðinu. En hitt var heldur ekki, nema síður sé, útilokað sem möguleiki að ekkert þeirra færi þar inn. Hugsunin var þá sú að menn mundu leita lausna þannig að eitt skyldi yfir alla ganga.

Einmitt á þeim grunni er, t.d. í fréttatilkynningum og umfjöllun um þessa yfirlýsingu, talað um samstöðu Norðurlandanna um að leita lausna í þessu sambandi og ganga til viðræðna við aðila Schengen-samkomulagsins um einhverja slíka lausn sem feli í sér samstæða lausn fyrir Norðurlöndin öll í þessum efnum.

Hins vegar er bæði í greinargerð með þessari tillögu og víðar mikið lagt upp úr því að forsætisráðherrar Norðurlandanna hefi tekið það sem kallað er jákvæða afstöðu til þátttöku í Schengen-samstarfinu. Það liggur í þessum orðum að í raun hafi allur andi yfirlýsingar forsætisráðherranna verið sá að hin sameiginlega lausn fyrir hönd Norðurlandanna ætti að liggja í gegnum aðild þeirra að samningnum.

Ég tel að þetta sé ekki nákvæm túlkun á yfirlýsingunni. Mér finnst mikill ábyrgðarhlutur að gera þá ekki grein fyrir málinu í víðara samhengi því það má líka lesa út úr þessari yfirlýsingu á mörgum öðrum stöðum að náist ekki farsæl eða ásættanleg lausn, t.d. með aðild allra ríkjanna og þá aukaaðild þeirra sem verða ekki aðilar að Evrópusambandinu, þá komi aðrar samningslausnir til greina sem áfram geti varðveitt samstöðu Norðurlandanna í þessum efnum. Ég lít svo á að með aðild sinni að þessari yfirlýsingu hafi hinar Norðurlandaþjóðirnar, eins og Danir sem þegar voru aðilar, eða Svíar og Finnar í kjölfarið, einnig skuldbundið sig til þess að opna á slíkar mögulegar lausnir.

[17:45]

Vandinn er hins vegar sá að málin tóku þegar þá stefnu að það var ekkert skoðað eða rætt um aðra möguleika en aðild vegna þess að stjórnvöld á Íslandi og í Noregi lögðu alls ekkert upp með það og gerðu engar kröfur um að aðrir mögulegir kostir yrðu skoðaðir samhliða.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna til þessarar yfirlýsingar forsætisráðherranna á dönsku og þess vegna er svo komið að ég er hér með dansk-íslenska orðabók í ræðustól. Ég sá að það vakti undrun manna að slíkt plagg skyldi hingað upp borið. En það er í sögulegu ljósi ekkert nema gott um það segja að einstöku sinnum þurfi menn að fara yfir í danska texta á Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í: Og vanda framburðinn.) Og þá er að vanda framburðinn. Í þessari umtöluðu málsgrein, út úr hverri textahöfundar greinargerðartillögunnar og fleiri fræðilegra greina lesa þetta jákvæða, sem mjög skilmerkilega er til haga haldið en ekkert vitnað í aðrar greinar samþykktarinnar, segir, með leyfi forseta:

,,Statsministrene bemærker at de bedste forudsætninger for en videreførelse af den frie bevægelighed, herunder pasfrihed, i Norden indenfor rammerne af det videre europæiske samarbejde om grænsekontrol opnår ved en fælles positiv nordisk holdning til medvirken i Schengen-samarbejdet.``

Þó að þetta sé hin nafntogaða setning um hina jákvæðu afstöðu les ég þetta ekki sjálfkrafa sem niðurstöðu í þeim efnum um að stefna eigi á aðild. Og kemur þá að orðinu ,,medvirken``. Hvað þýðir það? Þýðir það sjálfkrafa aðild? Það getur þýtt það. En það getur líka þýtt fleira. Og hvað voru mennirnir þá að fara sem settu þetta á blað? Var þetta orðað svona til að menn gætu lesið það út úr því síðar meir sem þeim sýndist, eins og stundum áður og endranær þegar menn eru í pólitískum vanda með viðkvæma hluti og kjósa að orða þá svo óljóst að hægt sé að túlka það pínulítið eftir ,,behag``, skulum við þá hafa það? (Gripið fram í: Hvað þýðir ,,behag``?) Já, það er nú það. Þarf nú að þýða það líka? ,,Medvirken``, eins og það kemur hér fyrir, eða sögnin ,,medvirke`` sem hér er á ferðinni getur þýtt að vinna að einhverju og hún getur þýtt að taka þátt í einhverju. Það gætu menn túlkað sem aðild, þátttöku í samstarfinu, já, ekki endilega með fulla aðild að því, en einhvers konar þátttöku. Það getur þýtt að leggja sitt af mörkum til að samkomulag náist. Og sé annað dæmi tekið líka getur ,,medvirke ved en konsert`` þýtt að koma fram á tónleikum. Ég vil því leyfa mér að halda því fram, herra forseti, að þessi fortakslausa jákvæða túlkun eða þýðing á skjali sem ekki virðist til í löggiltri íslenskri þýðingu --- ég bið þá að það sé framreitt ef það er til --- sé sagnfræðilega ekki nákvæm og það sé ábyrgðarhlutur að láta afdrifaríka hluti ganga fram með svo, mér liggur við að segja, hroðvirknislegri bakgrunnsvinnu. Sögulega séð er mjög slæmt ef menn á síðari tímum fara að rýna í það hvað vakti fyrir mönnum, hver voru hin nákvæmu efnisatriði máls þegar lagt var upp í för af þessu tagi vegna þess að hér er ekki smámál á ferðinni. Ég er ekki í þessum æfingum, herra forseti, bara af því ég hafi gaman að þeim, það hef ég að vísu líka. En ég geri þetta einnig vegna þess að mér finnst skipta máli að svona hlutir séu hafði nákvæmir. Ég get ekki hrósað undirbúningsvinnu að þessu leyti þegar kemur á daginn að grundvallargögn eru ekki finnanleg á íslensku máli í hlutum af þessu tagi. Kannski eru þeir það einhvers staðar en hafa forlagst, mislagst einhvers staðar í skjalasöfnum og þá það. Ekki meira um þetta, herra forseti.

Um aðdraganda málsins og undirbúning að öðru leyti vil ég segja að það er auðvitað mjög slæmt þegar að svo er komið, þó að við höfum haft í raun allan þennan tíma til að undirbúa afstöðu okkar til þessa stóra máls, að jafnlítið skuli hafa verið unnið t.d. á vettvangi stjórnmálanna eða á vettvangi ýmissa annarra aðila í samfélaginu, að upplýsa um málið, fá um það umræður og skoða það á alla enda og kanta. Er það t.d. ekki ámælisvert, herra forseti, að endurfluttri tillögu á Alþingi um að gerð yrði úttekt á Schengen-aðild og með sérstöku tilliti til mögulegra áhrifa í baráttunni gegn fíkniefnum, var ekki ansað? Slík vinna fór ekki fram. Menn töpuðu mörgum missirum sem þeir hefðu getað notað í að fara yfir þá hluti og stjórnmálamenn hefðu getað verið þátttakendur í því starfi. Í þessari tillögu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og Kristín Ástgeirsdóttir fluttu á 123. löggjafarþingi síðast, þá endurflutt ef ég man rétt, var gert ráð fyrir að dómsmrh. yrði falið að gera sérstaka úttekt. Og gert var ráð fyrir að Alþingi yrði gefin skýrsla um málið í ársbyrjun 1999. Hefði verið farið að þessari tillögu hefði í fyrsta lagi þessi vinna verið unnin og í öðru lagi hefði Alþingi haft eitt ár til að byggja á skoðun sína og frekari vinnu, við skulum vona, við vandaða skýrslu um málið. Slík skýrsla er ekki til í dag. Þvert á móti kom það í ljós og ég skýt því inn í framhjáhlaupi, að ekkert skipulegt samstarf er í gangi af einum eða neinum toga til að t.d. kortleggja þennan þátt málsins sérstaklega. Aðspurður sagði landlæknir í utanrmn: ,,Nei.`` Landlæknisembættið eða aðrir slíkir aðilar eru ekki þátttakendur í neinu skipulögðu samstarfi eða verkefni, nefnd eða áætlun sem snýr að þessu máli og það er miður því þetta er grafalvarlegur þáttur þessa máls. Og ég kem að því betur síðar þegar ég vitna í umsögn landlæknisembættisins.

Herra forseti. Ég get ekki annað en lýst vonbrigðum mínum með það hversu lítill áhugi var sýndur á málinu, eins og m.a. kom í ljós þegar þessari ágætu tillögu og í raun og veru sjálfsögðu tillögu sem er ákaflega erfitt að sjá hvers vegna menn voru að setja sig upp á móti, var ekki sinnt af Alþingi. Var það af þeirri einu ástæðu að þarna var hreyft við viðkvæmum þætti þessa máls, sem þeir sem völdin hafa haft í þessari stofnun töldu óþægilegt að væri mikið uppi í umræðunni? Ég fæ ekki komið auga á neitt annað því svo bersýnilega ómálefnalegt er það að taka því ekki fagnandi að fara í úttekt á þessum þætti málsins. Þá verða þeir að svara fyrir það sem þarna hafa vélað um.

Herra forseti. Um aðdraganda málsins ætla ég eingöngu að hafa þau orð að nauðsynlegt er til skilnings á málinu og hvers eðlis í raun þetta fyrirbæri, Schengen-samstarfið, að átta sig á uppruna þess og hvaða ríki hrintu því af stað. Það voru Benelúx-löndin og Frakkland og Þýskaland. Ætli það sé tilviljun? Nei, auðvitað ekki því þetta eru löndin sem hvort sem er eru þannig sett að þau eru í raun runnin saman. Það eru nákvæmlega þessi lönd sem eru elsti kjarninn í samstarfi ríkjanna á meginlandi Evrópu. Þetta eru löndin þar sem landamærin voru hvort sem er meira og minna orðin ósýnileg eins og allir vita sem hafa ferðast eitthvað um á þessu svæði á undanförnum árum og jafnvel áratugum. Þetta eru löndin þar sem menn sækja í miklum mæli vinnu fram og til baka yfir landamærin. Og þetta eru löndin þar sem minnihlutatungumálahópar búa þvers og kruss beggja vegna landamæranna hver í bland við annan. Þarna eru að sjálfsögðu aðstæður sem gera það að verkum að það er fullkomlega eðlilegt að þessi kjarni landa eða ríkja í norðvestanverðri Evrópu sem lengi hafa unnið saman, allt frá því á eftirstríðsárunum eftir að þar fór að komast á eðlilegt ástand, hafa í raun virkað sem ein atvinnu- og samskiptaheild, að þau vilji koma á slíku skipulagi hjá sér. Það gefur augaleið. Það er fullkomlega eðlilegt og ekkert nema gott um það að segja. Þess vegna riðu þau á vaðið og fóru einhliða fram með Schengen-samkomulagið vegna þess að þeim og sjálfsagt fleirum þótti seint ganga með þau markmið Rómarsáttmálans sem vissulega eru að tryggja frjálsa för einstaklinga á samningssvæðinu.

En það þýðir ekki að þetta fyrirkomulag eigi í eðli sínu nokkurt sérstakt erindi t.d. norður til Skandinavíu eða vestur til Íslands eða þess vegna suður á Píreneaskaga eða austur til Grikklands. Þá er bara orðið um allt aðra hluti að ræða og allt aðrar aðstæður. Þetta finnst mér að menn þurfi að hafa í huga og að menn nái ekki miklum eða djúpum skilningi á þessu máli nema átta sig á þessum uppruna hlutanna. Þess vegna er það heldur ekki tilviljun að eyríkin, Bretland, Írland og Ísland, hafa haft þarna allt aðra stöðu. Og þess vegna er það ekki tilviljun að Danir voru í nokkuð sérstakri stöðu með sín sameiginlegu landamæri við Þýskaland sem ekki var til að dreifa og hefði ekki þurft að valda neinum vandræðum hvað hin Norðurlöndin snertir. Til dæmis var það þannig að þegar Finnar tóku ákvörðun um að gerast aðilar að Schengen, þá voru þeir í raun og veru eyja í því samstarfi með landamæri í allar áttir nema að Svíþjóð, sem liggja að öðrum löndum sem ekki eru með.

Herra forseti. Síðan er nauðsynlegt að hafa í huga að það er með Maastricht-sáttmálanum sem uppsetningu þessara hluta er breytt í Evrópusambandinu, þ.e. grundvallarskipulagi Evrópusambandsins er þar breytt og búið til þriggja stoða fyrirkomulag þar sem yfirþjóðlega valdið og stofnanirnar eru fyrst og fremst á ferðinni í fyrstu stoð. Þegar Amsterdam-sáttmálinn innlimar síðan Schengen-samstarfið í Evrópuréttinn, þá lendir drjúgur hluti þess inn í þessa fyrstu stoð. Og þar með eru í rauninni gjörbreyttar aðstæður hvað varðar þátttöku ríkja sem ekki eru aðilar að Evrópusambandinu í þessu samstarfi. Það hlýtur að gefa augaleið að þegar svo er komið leiðir það til margháttaðra lagalegra og þjóðréttarlegra spurninga, að ríki eins og Ísland sé þátttakandi í slíku samstarfi sem búið er að innlima í Evrópusambandið. Ég held því miður að nægjanlegri athygli hafi ekki verið beint að þeim þætti málsins.

Það verður líka að hafa í huga að Schengen-sam\-komu\-lag\-ið og þær gerðir sem því fylgja eru ekki endanlegur kyrrstæður gjörningur um aldur og ævi. Nú eru þessar gerðir orðnar hluti af regluverki Evrópusambandsins og munu taka til við að þróast þar og renna saman við réttinn að öðru leyti þannig að smátt og smátt verður enginn greinarmunur gerður á því hvað einu sinni hét Schengen og hvað ekki Schengen og hvaða reglur rekja sig sérstaklega til þess upphaflega samstarfs og hvaða reglur ekki. Nýjar reglur verða ekkert merktar sérstaklega með neinni fyrirsögn Schengen. Þær verða bara hluti af réttarreglum Evrópusambandsins, gerðum eða tilskipunum. Þetta er með öðrum orðum ekki kyrrstætt fyrirbæri heldur dýnamískt sem mun þróast og leiða einnig til vandamála og árekstra, að mínu mati, fyrir ríki eins og Ísland sem ekki er aðili að Evrópusambandinu og ætlar sér vonandi ekki að verða í fyrirsjáanlegri framtíð.

Herra forseti. Þess vegna hefði að mörgu leyti verið miklu heiðarlegra --- ég vona að hæstv. utanrrh. heyri mál mitt og taki sérstaklega eftir þessu orðalagi --- að koma þannig að þessu máli í íslenskum stjórnmálum að byrja á því, eða a.m.k. samhliða, að ræða grundvallarspurninguna: Reiknum við með því að Ísland gangi í Evrópusambandið á allra næstu árum eða ekki? Já eða nei. Er stefna Íslendinga sú, eða verður hún að ganga þarna inn eða ekki? Og ef það er svo að menn ætla að standa í lappirnar með þá stefnu að gæta hagsmuna Íslands með samningum og samskiptum við Evrópusambandið en án aðildar, þá þegar áttu menn að setja mikið spurningarmerki við það: ,,Já, en eigum við þá nokkuð að fara inn í þetta Schengen heldur?`` Vegna þess að það er mótsagnarkennt og að mörgu leyti mjög umhent að sjá í því skynsemina að þjóð sem ætlar ekki á komandi árum inn í Evrópusambandið fari í þetta Schengen-samstarf. Einustu rökin sem haldbær eru fyrir því eru þau að það hafi verið eina leiðin til að bjarga hinu svokallaða norræna vegabréfasambandi. Ég kem nánar að því á eftir. En ég held að svo sé ekki og jafnvel þó það væri, dugar það ekki að mínu mati til að réttlæta þessa niðurstöðu. Það er bara ósköp einfaldlega ekki slík þungavigt í því máli og þar er um svo ósambærilega hluti að ræða að ég tel að sú röksemdafærsla standist ekki þegar betur er að gáð.

[18:00]

Hitt er svo algjörlega ljóst að það er eðlilegt að þeir sem reikna með því eða eru beinlínis með uppgerðan hug í þeim efnum að Ísland eigi eða muni lenda inni í Evrópusambandinu innan fárra ára, séu eindregnir stuðningsmenn þess að við göngum í Schengen því það er vissulega talsvert skref inn í það samhengi. Því verður ekki á móti mælt. Við erum með því að ganga stórt skref í viðbót í átt að hinum sameiginlegu reglum Evrópusambandsins og þátttöku í stofnanakerfi þess umfram það sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði felur í sér. Á því er grundvallarmunur vegna þess að í Schengen er ekkert sjálfstætt stofnanakerfi sett upp fyrir aðildarþjóðirnar gegnum EES eins og er í hinu tilvikinu heldur eru grunneiningarnar einingar Evrópusambandsins og í reynd er þarna um að ræða eins konar aukaaðild ríkjanna að þessum hluta sem er nú tengdur við Schengen.

Herra forseti. Ef við ræðum lítillega um aðra kosti, þ.e. hverjir þeir virðast hafa verið í stöðunni, þá má fljótt á litið segja og umræðan hefur kannski verið rekin aðallega á þeim nótum að þeir hafi bara verið tveir. Þeir hafi verið annars vegar þessi aukaaðild Íslands og Noregs sem eðli málsins samkvæmt gátu ekki orðið venjulegir aðilar að Schengen-samningnum eftir að hann hafði verið innlimaður í Evrópusambandið. Það er sú leið sem hér er valin, einhvers konar aukaaðildarleið kölluðu lagaprófessorar þetta á fundi utanrmn. vegna þess að þetta er ekki sambærileg leið við EES-lausnina þar sem sett er upp hliðarkerfi, spegilkerfi á við Evrópusambandið sem er þá fyrir þær aðildarþjóðirnar gegnum EES.

Hinn kosturinn virðist þá í fljótu bragði vera sá að vera algjörlega utan við, hafna þessari aðild.

En ég leyfi mér að segja að myndin sé ekki svo einföld. Það held ég að hafi verið dregið ágætlega fram m.a. af hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að veruleikinn er ekki þannig. Ég tel a.m.k. að tvenn veigamikil rök séu fyrir því að þarna hefðu getað verið ýmir millikostir færir í stöðunni. Ég bendi á það sem Bretar og Írar eru að gera. Þeir eru ekki þátttakendur í Schengen. Þeir eru vissulega aðildarþjóðir að Evrópusambandinu. En Ísland og Noregur eða við Íslendingar einir þess vegna hefðum getað höfðað til aðildar okkar í gegnum EES og farið fram á viðræður um ákveðna millileið, millilausn, sem fæli það í sér að við værum ekki aukaaðilar að Schengen-samstarfinu eða þessum þáttum Evrópusamstarfsins heldur semdum um þátttöku í tilteknum verkefnum en værum ekki með í öðrum, t.d. að fordæmi Breta og Íra eða því sem stefnir í þar, þannig að við héldum eftir réttinum til sjálfstæðs landamæraeftirlits að svo miklu leyti sem við teldum okkur þurfa eða vildum geta gripið til þess.

Herra forseti. Einnig tel ég að hægt sé að færa fyrir því rök --- eða ég vil a.m.k. heyra þau hrakin þá --- að við hefðum ósköp einfaldlega getað farið fram á viðræður um sérlausn, um sérsamninga fyrir Ísland. Enn betra hefði auðvitað verið fyrir Ísland og Noreg ef þar hefði náðst slík samstaða. Hvernig sérlausn? Jú, t.d. þannig að reynt yrði að varðveita eins og kostur er samstöðu Norðurlandanna í þessum efnum. Þó það væri ekki hægt að fullu með gagnkvæmum hætti þá var það væntanlega hægt einhliða af hálfu Íslands og Noregs því að ég sé ekki að neitt hefði bannað okkur að halda áfram að taka á móti frændum okkar frá hinum Norðurlandaþjóðunum án vegabréfa ef það var aðalatriðið, þó að það gæti að vísu ekki gilt á móti á sambærilegan hátt þá vegna aðildar þeirra að Schengen. Þá hefðu komið til ferðalög yfir ytri landamæri Schengen.

Sérlausnir af slíkum toga er vissulega hægt að hugsa sér í þessu efni en að sjálfsögðu þýðir ekki að tala um það þegar aldrei var látið á það reyna að slíkar lausnir fyndust í stöðunni.

Auðvitað er það alveg ljóst í huga mínum, út frá afstöðu minni til þessa máls, að æskilegast hefði verið að öll Norðurlöndin hefðu sameiginlega haldið sjálfstæði sínu fyrir utan Schengen-þátt Evrópusamstarfsins og leyst málið með sérstökum samningum sem svæði við Schengen. Á því held ég hefðu verið allir möguleikar ef öll Norðurlöndin hefðu sameiginlega knúið á um slíka lausn. Einu praktísku vandamálin sem maður sér að þá hefðu getað orðið uppi voru á landamærum Danmerkur og Þýskalands. Að engu öðru leyti held ég að þetta hefði orðið mikið vandamál.

En um það þýðir tæplega að ræða úr þessu og ég tel að meginástæðan fyrir því að slíkir kostir hafa lítið komið til umræðu eða skoðunar sé náttúrlega ósköp einfaldlega viljaleysi þeirra sem fóru með málin fyrir hönd Íslands og Noregs eða Norðurlandanna á þessum árum. Þar var línan öll sú, og ég hygg að það megi segja að það hafi verið ríkjandi stefna hjá ríkisstjórnum allra Norðurlandanna á þessum tíma, að það ætti að sjóða þetta saman í gegnum aðild að Schengen. Önnur sjónarmið voru í minni hluta og þeim var því miður vikið til hliðar.

Þá vil ég, herra forseti, aðeins áður en ég hverf alveg frá þessu með norræna vegabréfasambandið, árétta það sem segir í nefndaráliti 2. minni hluta og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom hér ágætlega að, að í reynd er ekki rétt að segja að norræna vegabréfasambandið sé varðveitt í þessum Schengen-samningum. Það er ekki rétt. Norræna vegabréfasambandið líður undir lok. Það er lagt niður. Það verður ekki til sem fyrirbæri frá og með aðild Íslands, Noregs og síðan hinna aðildarríkja Evrópusambandsins að þessu fyrirbæri. Það er búið. Það er því í raun og veru hvorki sögulega né efnislega rétt að segja að það sé verið að færa norræna vegabréfasambandið inn í Schengen. Það er ekki þannig og í öðru lagi vegna þess að norræna vegabréfasambandið var allt annað fyrirbæri en það sem hér er verið að setja á fót. Norræna vegabréfasambandið annars vegar og Schengen-samstarfið í allri sinni breidd hins vegar eru tveir ósambærilegir hlutir. Það er beinlínis villandi að jafna þessu tvennu saman. Norræna vegabréfasambandið var hreint milliríkjasamstarf eins og allt norrænt samstarf, án nokkurrar yfirþjóðlegrar yfirbyggingar. Það var ekkert valdaframsal fólgið í vegabréfasambandi Norðurlandanna. Það byggði á þátttöku sjálfstæðra ríkja og í því var ekki fólgið valdaframsal eða yfirþjóðleg tilfærsla af neinum toga.

Það gildir að sjálfsögðu ekki um Schengen nema síður sé. Þar er á ferðinni mikið valdaframsal til sameiginlegra stofnana og dómstóla Evrópusambandsins. Þar er að verulegum hluta farið inni í þann hluta Evrópuréttarins þar sem hið yfirþjóðlega vald er til staðar og þar eru á ferðinni margir aðrir þættir sem komu alls ekki við sögu í norræna vegabréfasambandinu.

Reyndar er það nú svo að okkur sem höfum kannski ferðast einna mest milli Norðurlandanna á umliðnum árum og þess vegna áratugum verður stundum á að brosa þegar ræðurnar eru settar á um mikilvægi hins norræna vegabréfasambands sem vegabréfasambands, af því að ekkert okkar kannast við að hafa nokkurn tíma farið til Norðurlandanna án þess að hafa með okkur vegabréf. (SighB: Jú.) Það er upplýst að einn þingmaður hefur gert það og (SighB: Margir fleiri.) sennilega til þess að láta reyna á þetta. En a.m.k. er það svo, herra forseti, að ekkert okkar kannast við að það hafi verið sérstakur þröskuldur í vegi ferðalaga okkar þó maður stingi á sig vegabréfi með öðrum ferðagögnum þegar maður fer til útlanda. Það gerir maður yfirleitt. Það geri ég a.m.k. af því að það getur oft komið sér vel að hafa vegabréf jafnvel þó maður þurfi ekki endilega að sýna það í landamærahliði. Ég hygg nú að það rifjist upp fyrir flestum vönum ferðalöngum að það er nú ekki algengt að þeir fari úr landi án vegabréfs, nema hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sem gerir það sennilega af prinsippástæðum að ferðast vegabréfalaus og mun væntanlega fara að flandra um alla Evrópu þegar Schengen verður komið, án vegabréfs, af prinsippástæðum einnig. (SighB: Af þægindaástæðum.)

Hitt er annað mál að margháttuð samvinna og réttindayfirfærsla milli Norðurlandanna í tengslum við ferðafrelsi þar á milli hefur auðvitað skilað norrænum ríkisborgurum miklu og skal síst gert lítið úr því. Ég hef því að sjálfsögðu talið að norræna vegabréfasambandið sem slíkt, sem hluti af miklu stærri heild, væri ákaflega jákvæður þáttur í samstarfi Norðurlandanna og hefur mér vitanlega ekki skapað nein vandamál. En vegabréfaleysið sjálft sem slíkt var ekkert aðalatriði þess máls og hefur aldrei verið. Það er mikill misskilningur að gera það að aðalatriði í málinu.

Herra forseti. Ég gagnrýni það að forsvarsmenn Íslendinga tóku strax í byrjun, og þar með talið í þessu samstarfi Norðurlandanna, upp þá stefnu að vinna að aðild okkar að Schengen-samstarfinu án þess að aðrir kostir væru skoðaðir sérstaklega eða samhliða.

Herra forseti. Ég nefni að lokum í þessum þætti málsins þá staðreynd að jafnvel þó að Ísland gerðist aðili eða fullgilti fyrir sitt leyti þessa samninga, hefði mátt hugsa sér að við hefðum staðið þannig að framkvæmdinni eða gildistökunni að hún hefði verið skilyrt með tilteknum hætti, t.d. þannig að við tilkynntum viðsemjendunum það að Ísland mundi taka sér tíma til að ákveða hvenær og jafnvel hvort samningarnir gengju í gildi af okkar hálfu þó svo að við hefðum fullgilt þá. Þó ekkert kæmi nú annað til en, að mínu mati, afar slakur undirbúningur framkvæmdar málsins á ýmsan hátt þá hefðu verið fjölmörg rök fyrir því.

Herra forseti. Ég hef áður komið hér að þáttum sem lúta að undirbúningnum sérstaklega og ætla að víkja að nokkrum fleiri þáttum þess máls. Ég nefndi að í ljós hefði komið hér að ekkert sérstakt samstarf eða skipuleg vinna væri í gangi á vegum t.d. landlæknisembættisins eða þeirra aðila sem fara með forvarnir og fíkniefnavarnir í landinu. Það hlýtur að teljast nokkuð alvarlegt og mikið umhugsunarefni þegar ljóst er að áhyggjur manna af þessum breytingum, ekki bara á Íslandi heldur mjög víða annars staðar á svæðinu sem í hlut á, tengjast m.a. og ekki síst þessum þætti málsins, þ.e. áhyggjur af því að þessi hindrunarlausa för fólks án persónueftirlits á landamærum á öllu þessu stóra svæði sem þarna verður til auki mjög á flæði fíkniefna og jafnvel ferðalög fólks í vafasömum tilgangi innan svæðisins og að erfitt verði að henda reiður á slíku.

Herra forseti. Þarna mætti vitna í ýmsar umsagnir með þessu máli, t.d. frá bæði ríkislögreglustjóra og landlæknisembættinu. En ég hygg að ég komi kannski aðeins betur að því síðar. Ég ætla líka að nefna í sambandi við kostnað og mat á kostnaði, að einnig á því sviði er undirbúningi málsins mjög ábótavant. Það hefur komið í ljós og var staðfest t.d. á fundi í utanrmn. 16. febrúar sl. að áætlanir um kostnað í þessu sambandi fram að þeim tíma byggðust í raun á ágiskunum, því að þá var upplýst í utanrmn. að fyrsta kostnaðaráætlunin væri væntanleg til ráðuneytisins á þeim dögum, þ.e. ítarleg og útfærð og rökstudd kostnaðaráætlun. Auðvitað hlýtur þetta að vekja miklar spurningar, herra forseti, um það hversu vandaður undirbúningurinn af okkar hálfu hafi verið, t.d. hvað varðar mat á kostnaði.

Nú er alveg ljóst að það er ekkert alltaf endilega einfalt að meta hver kostnaður getur endanlega orðið af svona hlutum. Ég skal fúslega viðurkenna að mönnum getur verið nokkur vorkunn í því sambandi. T.d. var það svo að alveg fram á síðustu mánuði liðins árs voru áætlanir um fjárfestingar eða framkvæmdir í Keflavík að taka stórstígum breytingum og yfirleitt upp á við í formi stækkunar. Þegar utanrmn. kom í heimsókn í flugstöðina voru þar á borðum tiltölulega nýjar og jafnvel glænýjar áætlanir um stórfelldar viðbætur og stækkanir á þeim framkvæmdum sem þar höfðu verið fyrirhugaðar, sem margir voru að sjá í fyrsta sinn, hygg ég. Auðvitað kallar það svo á aukinn kostnað, rekstrarkostnað og stofnkostnað o.s.frv.

[18:15]

Við fyrstu athugun utanrmn. á samstarfi þeirra aðila sem þarna þyrftu að koma við sögu virtist það a.m.k. frekar brotakennt. Starfsmenn Flugmálastjórnar og Siglingamálastofnunar könnuðust t.d. lítið við að hafa átt aðild að þessu máli. Þegar betur var að gáð og eftir því gengið þá fundust að vísu ákveðin plögg. Hins vegar kom í ljós að Flugmálastjórn hafði í raun verið tiltölulega lítill þátttakandi í þessu að öðru leyti en því sem snýr að framkvæmdunum í Keflavík. Starf sem laut að kortlagningu, aðstöðu og skipulagi t.d. á öðrum flugvöllum eða í höfnum landsins virtist tiltölulega skammt á veg komið.

Utanrmn. hefur eytt miklum tíma í að reyna að rekja ýmsa lausa þræði í þessu máli. Ég vil segja það um vinnuna þar að ég er í öllum aðalatriðum sáttur við það hvernig á því hefur verið haldið. Ég tel að formaður utanrmn. eigi í raun hrós skilið fyrir það að miklu leyti hvernig hann hefur stýrt þeim málum. Það er aðeins einn þáttur málsins sem þannig var skilið við af okkar hálfu að ég var berlega ósáttur við en það er lögfræðilegi þátturinn, það sem lýtur að skoðun á þessu máli út frá stjórnarskránni. Ég kem betur að því síðar. Hvað aðra þætti snertir þá tel ég að utanrmn. hefði tæpast, miðað við tímann sem henni var skammtaður og aðstæður, getað gert þetta öllu betur en raun ber vitni. Það hefur verið reynt að fara yfir eiginlega alla þá þætti málsins sem mönnum hefur þótt ástæða til að skoða, jafnvel farið út fyrir verksvið utanrmn. í vissum skilningi. Nokkrum tíma hefur verið varið í að reyna að skilja hluti og átta sig á málum sem ættu jafnvel frekar heima í starfi allshn. svo dæmi sé tekið.

Ég ætla svo, herra forseti, að ræða aðeins um málið út frá þeirri uppsetningu að reyna fyrir mitt leyti að gera grein fyrir þeim kostum sem mér sýnist að fylgja mundu aðild að Schengen-samningunum og göllum og ókostum hins vegar.

Ef við byrjum á kostunum þá má auðvitað segja að með aðild allra Norðurlandanna og aukaaðild Íslands og Noregs að Schengen sé vegabréfafrelsinu innan Norðurlandanna bjargað --- bjargað fyrir horn, gætum við sagt. Það má vissulega til sanns vegar færa að þá helst það fyrirkomulag að menn geti ferðast innan Norðulandanna án þess að reiða fram vegabréf en verða þó að hafa á sér önnur gild persónuskilríki. Það verður sem sagt ekki reglubundið persónueftirlit á landamærum þegar um ferðir milli þessara landa er að ræða. Þá vísa ég aftur til þess sem áður var að vikið að nauðsynlegt er að hafa í huga að Schengen-samstarfið er allt annað og meira en norræna vegabréfasambandið nokkurn tíma var.

Möguleikarnir voru hins vegar ýmsir aðrir ef eftir þeim hefði verið leitað. Ég tel að ég hafi þegar sýnt fram á það. Við getum hugsað okkur þá stöðu sem uppi hefði verið ef Ísland, eitt Norðurlandanna, hefði verið utan Schengen-samstarfsins. Ég fæ ekki séð að neitt hefði verið því til fyrirstöðu að við hefðum einhliða ákveðið að framfylgja ekki vegabréfaeftirliti þegar um flug frá hinum Norðurlöndunum væri að ræða. Schengen-samstarfið gengur væntanlega ekki út á það að skipta sér af landamæraeftirliti annarra landa, þ.e. umferð frá Schengen og þangað. Hins vegar er ljóst að þetta hefði ekki getað orðið gagnkvæmt og því hefði fylgt sú takmörkun, sá ókostur frá því sem verið hefur, að menn hefðu getað þurft að sýna vegabréf og sæta eftirliti á leið sinni til baka.

Auðvitað hefði mátt hugsa sér, eins og ég nefndi áður, að ná samningum um einhvers konar sérstöðu Íslands í þessum efnum. Fyrir því væru ýmis rök. Það má t.d. benda á landfræðilega legu, við erum að þessu leyti í annarri stöðu en nokkur önnur Evrópuþjóð, liggur mér við að segja. Þó mikið hafi verið gert af því að spyrða saman Ísland og Noreg í þessum efnum þá er þar einn stór munur á sem auðvitað kom strax í ljós. Það eru hin löngu landamæri Noregs við Svíþjóð. Mikil dagleg umferð er þar yfir. Það að sækja atvinnu og stunda verslun þar yfir hefði skapað margháttuð vandamál fyrir Noreg, að standa utan Schengen-svæðisins ef Svíþjóð hefði verið þar innan borðs. Þessi vandamál eru alls ekki til staðar í tilviki Íslands.

Í öðru lagi, herra forseti, má hvað kostina snertir segja að með aðild að Schengen verði Ísland hluti af samgöngusvæði Evrópu í lagalegum skilningi, sérstaklega hvað flug varðar. Flugumferð héðan til Evrópu yrði eins og hver önnur innanlandsflugferð í reynd, það verður þá ekki allur munur á því að hoppa upp í flugvél í Keflavík og fljúga til Evrópu heldur en er að fara héðan frá Reykjavíkurflugvelli til Akureyrar nema það tekur lengri tíma. Það kann vel að vera að á þessu hefði mátt byggja ýmsa jákvæða þætti, t.d. í sambandi við sókn í ferðaþjónustu o.s.frv.

Reyndar var það nú svo, þegar eftir því var gengið suður í Keflavík, hvaða helstu kostir yrðu þessu samfara að að lokum kom aðeins ein bein tillaga í þeim efnum. Hún var frá manni sem var vel að sér um flugrekstur. Hann taldi að leiða mætti að því líkur að Íslendingar fengju betri stæði á flugvöllum. Þeir kæmust innar eða nær flugstöðvunum og yrðu betur settir í þeim efnum en umferð frá svæðum utan Schengen þegar flugvélar væru að tylla sér niður á evrópska flugvelli. Þeim væri vísað til sætis eða öllu heldur stæðis í þeim selskap.

Vissulega má færa ýmis rök fyrir því að þetta geti orðið til góða fyrir þá miklu umferð sem er milli Íslands og Evrópu.

Í þriðja lagi geta vissulega falist ýmsir möguleikar í því að auglýsa stöðu Íslands í þessu sambandi, t.d. fyrir umferð frá Vesturlöndum. Hægt væri að auglýsa það að Ísland sé þægilegt hlið inn á Schengen-svæðið, hér sé fljótlegt og auðvelt að komast í gegn og inn á þetta svæði. Kannski verður þannig hægt að tefla því fram með rökum og í reynd að hér taki skemmri tíma og verði þægilegra að fara inn á svæðið en á stórum flugvöllum niðri á meginlöndunum.

Í fjórða lagi geta að sjálfsögðu þeir sem sjá framtíðina þannig fyrir sér að Ísland muni fyrr eða síðar verða aðili að Evrópusambandinu tínt það til sem kost við þessa niðurstöðu. Mér finnst eðlilegt að þeir geri það og ég sé að einn og einn maður kinkar hér ákaft kolli í salnum, t.d. hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþfl. Hann er greinilega þeirrar skoðunar, sem kemur mér ekki á óvart, að það sé sérstakur kostur við þessa aðild Íslands að Schengen að það gæti verið ákveðinn liður í nálgun okkar í þessu samhengi.

Þá ætla ég að fjalla um gallana, herra forseti, og ókostina sem ég tel samfara því að fara þarna inn. Í því sambandi er fyrst að nefna ósköp einfalda staðreynd sem tengist pólitískri stöðu Íslands. Það opinberast með því einu að benda á að Ísland er ekki í Evrópusambandinu. Ég hef bundið vonir að við færum ekki þangað inn. Meðan það er a.m.k. eindregin meirihlutaskoðun í stjórnmálunum, hvað sem öðru líður á Íslandi, að ekki sé hagstætt fyrir Ísland að ganga þarna inn þá finnst mér það sú stefna sem við eigum að byggja á og af þeim ástæðum hefðu menn átt að setja stórfellt spurningarmerki við þessa lausn.

Mér finnst í raun að t.d. hæstv. forsrh. hafi verið plataður í þessu máli. Ég held það hljóti að vera miðað við þau viðhorf og þá einörðu afstöðu sem oft hefur heyrst frá þeim ágæta manni, hæstv. forsrh., í þessum efnum. Ég þykist reyndar vita hvernig það var gert. Ég gæti látið fletta upp á þeim ummælum hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar frá febrúarmánuði 1995, að þetta væri svo sem eins og ekkert mál og það eina sem í þessu væri fólgið væri að Ísland tæki að sér og sæi um að það yrði fullnægjandi eftirlit á landamærunum hér gagnvart umferð utan frá. Þetta yrði í raun smámál og mun ekki kosta neitt eða svo til ekki neitt, yrði einfalt og ódýrt í framkvæmd, lét hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hafa eftir sér á vetrardögum 1995.

Nú er spurningin: Hefur þetta gengið eftir? Er hæstv. forsrh. Davíð Oddsson sömu skoðunar í dag, að þetta muni kosta sama og ekki neitt, sé einfalt og lítið mál, þessi lausn? Ég leyfi mér að efast um að sú yrði niðurstaðan ef sá góði maður tæki sig til og skoðaði vandlega það sem fyrir liggur, þó ekki væri nema bara hlýddi á ræður flokksmanna sinna, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og Einars Odds Kristjánssonar. Kannski leynast þar fleiri sem deila þeirri skoðun með þeim ágætu mönnum, að þetta sé nú ekki eins rakið eins og ætla mátti á sínum tíma.

Á þessum tíma sagði t.d. hæstv. forsrh. Davíð Oddsson að Íslendingar væru tilbúnir að uppfylla allar kröfur Schengen-samkomulagsins um ytra eftirlit og sæju engin vandkvæði á slíku. Þetta kom fram í Morgunblaðinu, sjálfu Morgunblaðinu í febrúar 1995. Einhvers staðar annars staðar hafði hæstv. forsrh. Davíð Oddsson um þetta þau orð, ef minni mitt svíkur mig ekki, að þessu ætti ekki að verða samfara nema mjög óverulegur kostnaður. Annað hefur nú komið á daginn.

Ég held sem sagt, herra forseti, að pólitísku rökin og ástæðurnar séu þarna veigamestar í mínum huga þó ég heyri að þeir aðrir sem hér hafa haft gagnrýna afstöðu til þessa máls, einkum þá af þeim sem þegar hafa talað, hv. þingmenn Vestfirðinga Einar Oddur Kristjánsson og Einar K. Guðfinnsson, hafi gert kostnaðinn að sínum aðalrökum. Ég hef hinn pólitíska þátt málsins tvímælalaust númer eitt.

Ég ætla þó aðeins, herra forseti, að ræða um kostnaðinn einnig. Auðvitað alveg ljóst og hefur þegar sannast miðað við þau fjárfestingaráform og rekstraráform sem fyrir liggja að af þessu mun hljótast umtalsverður kostnaður fyrir Ísland. Auðvitað þarf að líta til þess. Þegar við veltum því fyrir okkur hvort svona niðurstaða sé í heildina hagstæð fyrir okkur þá skiptir kostnaðurinn máli. Fyrir mér er hann ekki aðalatriði og væri út af fyrir sig ekki frágangssök ef ég teldi einboðið og pólitískt jákvætt að vera þarna inni, þá held ég að ég mundi mæla með því að við tækjum á okkur þennan kostnað. En þegar maður lítur til gallanna að öðru leyti þá vegur þessi kostnaður þó nokkuð. Hann er mikill.

Í þessu sambandi hafa allar tölur lengi verið mjög á reiki. Það hefur verið upplýst í meðferð málsins að menn hafa rennt tiltölulega blint í sjóinn í þeim efnum og gera sjálfsagt enn. Ég leyfi mér að fullyrða að enn sé veruleg óvissa um hversu mikill kostnaður verður samfara þátttöku okkar þegar á hólminn er komið og frá líður.

Þó er ljóst, herra forseti, að stofnkostnaður og rekstrarkostnaður í byrjun verður umtalsverður og hleypur á hundruðum millj. kr. Ég get þar aftur sparað mér tíma og vísað til þess sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði í þeim efnum. Ég tel að mat manna á þessum þáttum byggist á mikilli bjartsýni og mikilli viðleitni til að gera lítið úr þeim kostnaði sem þarna yrði á ferðinni. Það hefur komið á daginn að fyrri hugmyndir manna um stofnkostnað í flugstöðvarbyggingunum í Keflavík voru algjörlega óraunhæfar. Síðast í október eða nóvember sl. var ákveðið að stækka tengibygginguna við enda á núverandi landgangi um meira en þriðjung. Fleiri breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdaáformum þar á síðustu mánuðum sem hleypa kostnaðinum verulega upp, t.d. að fjölga landamærahliðum eða borðum úr áður áformuðum 10--14 hliðum upp í 22. Síðan þarf að manna þá aðstöðu og reka. Allt snýst þetta um háar fjárhæðir.

[18:30]

Ég vek athygli á því, herra forseti, að fyrsti áfangi stækkunar flugstöðvarinnar í Keflavík er núna áætlaður upp á 3,5 milljarða kr. Inni í því eru ekki allar kostnaðartölur sem tengjast framkvæmdum í gömlu byggingunni, stækkun og breytingum þar. Vissulega stóðu framkvæmdir fyrir dyrum. Þær hefðu þurft að koma til sögunnar í öllu falli. En það er jafnljóst að þær framkvæmdir hefðu getað orðið til muna einfaldari og ódýrari og ekki bara þær heldur líka þær viðbætur sem koma til sögunnar í framtíðinni. Núverandi framkvæmd upp á 3,5 milljarða kr. er ekki ætlað að endast nema í 5--7 ár. Þá þarf að halda áfram. Þá kemur annar áfangi og síðan þriðji áfangi um 2015. Þessir viðbótaráfangar verða líka miklu dýrari vegna Schengen. Augljósast er það að þar sem hefði nægt tiltölulega einföld bygging á einni hæð verður að koma til bygging á tveimur hæðum, önnur fyrir farþega af Schengen-svæðinu og hin fyrir farþega utan þess. Þess vegna verður í raun um að ræða tvöfalda uppbyggingu á þeirri aðstöðu sem er þarna að bætast við að mjög miklu leyti.

Í beinu framhaldi af þessum áfanga upp á 3,5 milljarða kr. og reyndar væntanlega nokkuð betur þegar allt verður saman komið vilja þeir sem þarna leggja á ráðin um framkvæmdir fara í að breikka núverandi landgang og er framkvæmd sem okkur var sagt að mundi kosta um einn milljarð kr. Þá erum við komin upp í 4,5 milljarða kr. Einhvern tíma í kringum 2007 þarf að ráðast í annan áfanga stækkunar sem er álman út úr nýju viðbyggingunni í aðra hvora áttina. Það eru tveir milljarðar í viðbót og síðan seinni áfangi stækkunarinnar álma í hina áttina, aðrir tveir. Þá erum við komin upp í eina sjö, átta, níu milljarða kr., herra forseti, svona lauslega áætlað.

Þarna eru því fram undan gríðarlegar framkvæmdir og gríðarlegur kostnaður sem mun verða einhverjum milljörðum kr. dýrari vegna aðildar okkar að Schengen. Og það er bara stofnkostnaður. Síðan kemur rekstrarkostnaðurinn sem hlýtur að verða umtalsverður. Þar verður ekkert val, þar verður ekkert um að ræða að skera niður eða spara. Þar verður ósköp einfaldlega að bæta við, stækka og fjölga mönnum þannig að umferðin gangi nógu hratt í gegn ef ekki allt á að fara í klessu. Pressan á mönnum verður sú að þarna má nánast ekkert út af bera. Hér var upplýst hversu margar sekúndur mætti taka að skoða framan í hvern einasta farþega sem kemur þarna inn á svæðið utan að og drífa hann í gegnum hliðin. Maður sér eiginlega fyrir sér mann sem tekur aftur fyrir viðkomandi og skúbbar þeim í gegnum hliðið til þess að þeir fljóti þar í gegn á svo sem 15 sekúndum stykkið. Þetta verður mikil færibandavinna þannig að meistari Chaplin, væri hann á dögum, hann hefði sennilega getað farið með vélina þarna suður eftir og búið til nýjan ,,Nútíma`` með því einu að mynda raðirnar sem streymdu þarna í gegn.

Ég vek athygli þeirra á því sem hér eru og ekki voru í utanrmn. eða fóru í heimsókn í flugstöðina í Keflavík að fróðlegt væri fyrir hv. þm. að fá send gögnin út utanrmn. þar sem sýnd eru þessi fjárfestingarplön og að mönnum yrði sýnd sú staðreynd að það sem þarna er að gerast er að þarna er verið að byggja nýja flugstöð. Það verður byggð ný, sjálfstæð flugstöð við enda núverandi landgangs og síðan verður hún stækkuð og stækkuð aftur. Að lokum verður gamla flugstöðin orðin minni hluti af þeim byggingum sem eru þarna á ferðinni og hefur hún þó kostað sinn skilding, blessunin.

Vissulega er í leiðinni verið að búa í haginn fyrir framtíðina og við skulum vona að við eignumst þarna glæsilega byggingu sem þjóni vel sínu hlutverki en ég hlýt að segja að dýr mun Hafliði allur ef svo skal hver limur sem þessar framkvæmdir sem eru að fara af stað þarna.

Að síðustu, herra forseti, í sambandi við kostnaðinn er náttúrlega nauðsynlegt að draga athygli að þeirri staðreynd að rekstrarkostnaðurinn verður vegna þessa fyrirkomulags óhjákvæmilega talsvert meiri, m.a. vegna þess að talsvert af þjónustustarfsemi og verslun og öðru slíku þarf að vera tvöfalt og í reynd þrefalt. Ég geri því ráð fyrir því að sumar verslanir, eins og Fríhöfnin eða Íslenskur markaður, muni áfram reka starfsemi sína inni í gömlu byggingunni núverandi og síðan á báðum hæðum í nýju byggingunni vegna þess að það verður nauðsynlegt ætli menn að ná til beggja hópa farþega, þeirra sem eru utan, eru frá löndum utan svæðisins og hinna sem eru innansvæðisfarþegar. Í reynd kallar þetta á tvöföld eða kannski öllu heldur þrefalt úthald hjá mjög mörgum af þessum aðilum.

Þriðji þátturinn, herra forseti, varðar erfiðleika sem ég flokka undir galla eða ókosti við aðildina. Hann varðar líkur á erfiðleikum sem skapist í tengiflugi til og frá Keflavík vegna þessa fyrirkomulags. Það hafa reyndar fleiri ræðumenn gert að umtalsefni á undan mér og ég get þá farið hratt þar yfir sögu. Það er alveg ljóst að þetta er sá þáttur málsins sem hefur valdið flugrekstraraðilunum mestum áhyggjum og ég hélt kannski um skeið að þær áhyggjur væru svo miklar og staða þeirra aðila svo mikilvæg eða sterk, skulum við segja, að þetta mundi fara langt með að hindra að haldið yrði áfram viðræðum um aðild okkar Íslendinga að Schengen vegna þess að mér er mjög vel kunnugt um að fjölmargir af stóru flugrekstraraðilunum höfðu af þessu miklar áhyggjur og hafa reyndar enn. En menn hafa valið að kyngja því að stjórnvöld hafa ákveðið stefnuna í þessum efnum og menn snúið sér að því að gera gott úr því og vona að þau vandamál sem þetta getur augljóslega skapað reynist yfirstíganleg. En það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum. Það má ósköp lítið út af bera, eins og kemur glöggt fram t.d. í umsögnum aðila eins og Flugleiða, Ferðamálaráðs og reyndar einnig t.d. Hafnasambands sveitarfélaga sem kemur inn á það sem snýr að afgreiðslu skemmtiferðaskipa.

Flugleiðamenn taka reyndar nokkuð merkilega til orða í umsögn sinni. Þeir segja: ,,Ef Ísland gerist aðili að Schengen-samstarfinu`` --- því er nú greinilega ekki slegið föstu að í það stefni á þeim bæ heldur er þetta orðað nákvæmlega svona:

,,Ef Ísland gerist aðili að Schengen-samstarfinu er afar brýnt fyrir hagsmuni, flug- og ferðaþjónustu að mjög vel verði gætt þriggja mikilvægra þátta:

1. Að svo verði búið um hnútana í Leifsstöð að vegabréfaeftirlit það sem Íslendingar takast á hendur á ytri landamærum Schengen dragi ekki úr skilvirkni flugvallarins í afgreiðslu farþega sem fara um Ísland í flugi milli Ameríku og Evrópu. Þessir farþegar bera í raun uppi þá ferðatíðni og það mikla úrval áætlunarstaða sem Íslendingar eiga nú völ á. Þetta skiptir t.d. höfuðmáli fyrir útrás íslensks atvinnulífs. Jafnframt tryggja þeir íslenskri ferðaþjónustu, sem nú er annar stærsti útflutningsatvinnuvegur Íslands, aðgang að mörkuðum allan ársins hring.``

Hér hygg ég að sé ekkert ofsagt. Staðreyndin er sú að út á þetta tengiflug og umfangsmikla flutninga á farþegum yfir Atlantshafið með viðkomu og flugvélaskiptum í Keflavík eru milliríkjasamgöngur okkar jafnmiklar og raun ber vitni. Væri engu slíku fyrirkomulagi til að dreifa mætti auðveldlega sjá fyrir sér að hér væru ein til tvær ferðir á viku vestur um haf í besta falli og flogið daglega til Kaupmannahafnar og kannski svolítið rúmlega það. Umferð Íslendinga sjálfra mundi ekki endilega kalla á miklu meira flug en það og ekki er víst að neinn grundvöllur væri fyrir því ef ekki hefði tekist að byggja þessa umfangsmiklu flutninga sem bæta við og fylla í skörðin og gera það að verkum að efnahagslegur grundvöllur er fyrir því viðamikla áætlunar- eða leiðakerfi sem Flugleiðir reka til og frá Keflavík.

Í öðru lagi leggja þeir Flugleiðamenn eins og fleiri ferðaþjónustuaðilar höfuðáherslu á að þetta leiði ekki til viðbótarkostnaðar og tala einnig um nauðsyn þess að upplýsa almenning um málið og vitna í loforð og heitstrengingar ráðherra m.a. í því sambandi að til þessa megi aldrei koma.

Þessir erfiðleikar í tengiflugi, herra forseti, eru praktískur vandi sem þarna blasir við okkur. Þó að vissulega virðist flest hafa verið gert sem er auðveldlega hægt að sjá eða ætlast til að gert hafi verið, svo sem ákvörðun um að fjölga þarna hliðum eða skoðunarstöðvum, er mörgum spurningum enn ósvarað. Það sannreyndi utanrmn. m.a. þegar við urðum vitni að vangaveltum manna og bollaleggingum um hluti eins og þá hvort hægt væri að spara tíma og hvort það stæðist t.d. að framkvæma einhverja fyrirframskoðun á farþegum vestan hafs. Eða hvort hægt væri að fá og leyfilegt að fá aðgang að farþegaskrám og keyra þær saman við upplýsingagrunninn á meðan farþegar væru á leiðinni til landsins yfir hafinu. Slíkum spurningum var ekki svarað já eða nei. Þær liggja í loftinu, þau mál eru óútkljáð. Þar af leiðandi er alveg ljóst að ýmsar hugmyndir sem menn hafa haft til að undirbúa eða auðvelda afgreiðsluna og flýta fyrir henni eru í lausu lofti enn sem komið er og ekki nein niðurstaða fengin í þeim efnum.

Ferðamálaráð er sömuleiðis í umsögn sinni býsna áhyggjufullt yfir þessu, held ég hljóti að verða að segjast. Ég leyfi mér að orða það svo með sérstakri vísan til þess hverjir eru þar innstu koppar í búri, þ.e. formaður stjórnar og varaformaður. Það eru góðkunningar okkar hér, hv. þm. Tómas Ingi Olrich og hv. þm. Jón Kristjánsson. Þeir standa eitthvað nálægt þeirri ríkisstjórn sem er að flytja málið þannig að maður hefði fljótt á litið ekki búist við því að umsögn sem afgreidd hefur verið í stjórn Ferðamálaráðs yrði mjög gagnrýnin eða mjög hörð í garð þessa máls, eða hvað? En þó er það þannig að áhyggjur og efasemdir Ferðamálaráðs og ferðaþjónustuaðilanna leyna sér ekki í umsögn Ferðamálaráðs sem er að vísu undirrituð af Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra.

Þar er tíundað með svipuðum hætti og ræðumaður er reyndar að gera að vissulega sé hægt að sjá ýmis jákvæð áhrif af aðild hvað varði ferðaþjónustuna og þá fyrst og fremst þau að ferðamönnum verður almennt gert auðveldara að ferðast innan svæðisins en í raun og veru erfiðara að koma til þess. Ferðamálaráð telur nauðsynlegt að benda á þá þætti sem gætu --- ef ekki er rétt að staðið --- haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu við aðild okkar að Schengen og vitna þar sérstaklega til stöðu mála í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Síðan er í ítarlegu máli farið yfir það að allt sem torveldað gæti fólksflæði í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða verkað sem hemill fyrir komu ferðamanna utan að hingað inn væri auðvitað mjög neikvætt fyrir íslenska ferðaþjónustu. Sömuleiðs ef af þessu hlýst umtalsverður kostnaður sem tilhneiging verður síðan til að velta yfir á herðar notendanna, sem verður auðvitað til staðar, væri barnalegt að reikna með öðru en að stjórnvöld gerist þreytt á því að standa undir miklum útgjöldum sem leiða af síauknu eftirliti eða mannahaldi og hafi þá uppi tilburði til að reyna í rólegheitum að velta því yfir á notendurna.

Hér eru menn greinlega ekki fæddir í gær, hvorki í Ferðamálaráði né hjá Flugleiðum, og það er farið í alveg sérstaka leiðangra til að reyna að valda stöðuna í þessum efnum, dregnar fram heitstrengingar ráðherra og talað um að aldrei megi það verða að þarna myndist einhverjir þröskuldar í formi kostnaðar sem verði neikvæðir fyrir ferðaþjónustuna.

Í fjórða lagi, herra forseti, ætla ég að fjalla um sem eina meginröksemd gegn aðild okkar að þessu samstarfi, en það lýtur að afnámi persónueftirlits innan svæðisins og flæði fíkniefna. Þar er tvímælalaust á ferðinni eitt mesta áhyggjuefnið í sambandi við þátttöku og í raun og veru alla þessa framkvæmd, ekki bara fyrir Íslendinga heldur fyrir fjölmargar aðrar þjóðir. Það hafa menn væntanlega heyrt eða séð úr fréttum, m.a. frá Frakklandi og víðar að á Evrópu að einnig þar, niðri á meginlandi Evrópu, hafa menn af þessum hlutum miklar áhyggjur. Frakkar héldu til að mynda landamæraeftirliti til streitu mjög lengi og eiginlega til síðustu stundar, eins og þeim var stætt á miðað við ýtrustu fresti, eftir að það átti að hafa verið aflagt, einfaldlega vegna þess að þeir voru ósáttir við hvernig staðan var gagnvart fíkniefnavörnum og pólitík ýmissa nágrannalanda í sambandi við fíkniefni.

Ég held menn verði að hafa það í huga, herra forseti, að þegar þetta gerist og allt þetta persónueftirlit á landamærum fellur niður þá sameinast í eitt svæði lönd með mjög ólíka stefnu og ólík viðhorf í þessum efnum. Þar er gjarnan fyrst nefnt Holland sem hefur haft uppi allt aðra áherslu í sambandi við fíkniefni og haldið uppi mun minna eftirliti en aðrar þjóðir, jafnvel lögleitt í vissum skilningi að hluta til fíkniefni sem eru annars staðar bönnuð.

[18:45]

Vissulega eru hlutir í þessum pappírum sem öll aðildarríkin skuldbinda sig til þess að að takast á við sameiginlega --- það er mér vel ljóst --- og Hollendingar einnig. En eftir stendur að framkvæmdin verður væntanlega áfram verulega mismunandi í hverju landi fyrir sig og eftir stendur líka hitt sem t.d. kom fram í umsögn eða samtölum okkar við landlækni, að með þessu færast uppsprettur fíkniefna inn fyrir innri landamæri Schengen-ríkjanna í ákveðnum tilvikum. Það er t.d. talið að á Ítalíu séu starfræktar heróínverksmiðjur, að þangað berist --- eftir ólöglegum leiðum að sjálfsögðu --- hráefni, ópíum, til vinnslu og það sé hreinsað og unnið í leynilegum verksmiðjum, sjálfsagt undir handarjaðri mafíunnar eða Cosa Nostra og síðan haldi það áleiðis norður eftir Evrópu til markaða þar. Það sem gerist með tilkomu Schengen er að þessar uppsprettur eiturlyfjanna eða dreifingarmiðstöðvar, hvort sem þær eru á Ítalíu eða í Hollandi, eru komnar inn fyrir hin sameiginlegu landamæri.

Í þriðja lagi má nefna nýjustu leiðir sem eiturlyfin flæða nú eftir frá austanverðri Evrópu og Rússlandi inn til Vestur-Evrópu. Því miður er það svo að það er almennt vitað að þar eru leiðirnar mjög greiðar í gegnum fyrrum austantjaldsríkin og yfir til Vestur-Evrópu, og það reyndar svo að sumir halda því fram að austurevrópskar mafíur séu meira og minna búnar að leggja þennan markað undir sig og einkum og sér í lagi vændi og klámiðnað hvers konar en honum er gjarnan tengd fíkniefnadreifing.

Í fjórða lagi, herra forseti, er líka nauðsynlegt að menn átti sig á því að þegar persónueftirlit er afnumið við ferðalög fólks innan þessa stóra svæðis þannig að í raun heil heimsálfa og jafnólík lönd og Spánn, Ítalía og Grikkland í suðri og austri, Skandinavía í norðri og Ísland í vestri eru öll komin innan sama svæðisins, þá verður afar vandséð að mikið verði hægt að hafa eftirlit með því hvernig t.d. ólöglegir innflytjendur og þau hundruð þúsunda að talið er sem eru núna í Evrópu án lögmætra eða réttra persónuskilríkja og tilskilinna leyfa, ferðast um svæðið af þeirri ósköp einföldu ástæðu að reglubundið persónueftirlit verður bannað.

Menn benda á að á móti eigi að efla löggæsluna og beita einhvers konar stikkprufum, það eigi í auknum mæli að fara að krefja ferðamenn um skilríki hvar sem þeir eru staddir, þess vegna hérna úti á stéttinni að mynda þinghúsið, og þá megi búast við því að lögreglan komi að þeim, klappi á öxlina á þeim og biðji þá um persónuskilríki. En á landamærunum verður það ekki heimilt, ekki sem reglubundið eftirlit. Ég verð a.m.k. að játa það á mig að þó ég hafi mikla trú á lögreglumönnum og þefvísi þeirra og næmni þá á ég erfitt með að sjá að það eitt að horfa alvarlega í augun á þúsundum farþega sem eru að streyma inn í gegnum hlið eða út úr dyrum á flugvöllum nægi til þess að tína úr misindismennina. En það kom einu sinni fram á okkar fundum að þeirri tækni yrði beitt alveg sérstaklega að horfa hvasst í augun á mönnum og gjarnan mundu þá glæpamennirnir eitthvað glúpna.

Herra forseti. Í fullri alvöru talað held ég að menn verði bara að horfast í augu við það eins og það er að með þessu er auðvitað verið að fella niður þó þá síu, þó þann hemil og þó þá fælingu sem hefur verið fólgin í núgildandi landamæraeftirliti í Evrópu. Það er þannig. Auðvitað ætla menn ýmis varnarviðbrögð á móti. En ég leyfi mér því miður að draga mjög í efa að það reynist nægjanlega árangursríkt.

Í hinni ágætu umsögn ríkislögreglustjóra sem í nefndaráliti þessu er birt sem fskj. I --- og ég skýt því að í leiðinni að ég tel að umsögn ríkislögreglustjóra sé því embætti til sóma. Hún er mjög ítarleg og vandlega unnin að flestu leyti --- stendur m.a. í tölulið 4, með leyfi forseta:

,,Svo sem ljóst má vera kunna ýmsar hættur að vera samfara afnámi eftirlits á innri landamærum aðildarríkjanna. Af þessum sökum eru í Schengen-samningnum margvísleg ákvæði til að vega upp á móti þeirri vá.``

Þetta er orðað svona, herra forseta forseti: ,,... til að vega upp á móti þeirri vá``, og hættum sem geta verið samfara afnámi persónueftirlits á landamærum. Ég held að lögreglustjóraembættið taki ekki svona til orða að gamni sínu. Síðan er vissulega fjallað ítarlega um það í umsögninni, svo öllu sé nú með hlutlausum hætti til haga haldið, að upplýsingasamstarfið, lögreglusamvinnan og ýmiss konar hert eftirlit verði reynt til að vega upp á móti þessu, til að mótverka þetta. En það leynir sér ekkert og menn eru ekkert að reyna að fela það í þessari umsögn ríkislögreglustjóra, og það líkar mér vel, að þarna er um grundvallarbreytingu að ræða sem er eðlilegt að menn hafi áhyggjur af, og auðvitað alveg sérstaklega fyrir land eins og Ísland sem hefur í raun og veru verið í algjörlega sérstakri stöðu til að verja sig að þessu leyti þannig að eiginlega ekkert annað land í Evrópu hefur getað teflt þar fram sambærilegum hlutum. Við höfum vegna okkar landfræðilegu einangrunar og þess hversu auðvelt það er vegna samgönguháttanna hér að koma við eftirliti, verið í öfundsverðri og mjög sérstakri stöðu. Ætli það geti ekki einmitt verið vegna þess sem við höfum verið blessunarlega laus við ýmiss konar glæpalýð og þrátt fyrir allt fengið minna yfir okkur af harðnandi ofbeldi sem menn verða mjög fyrir barðinu á víða í nágrannalöndunum?

Er það þá ekki, herra forseti, nokkurt umhugsunarefni fyrir okkur ef við erum að glata úr höndum okkar kannski virkasta aðhalds- eða eftirlitstækinu í þessu sambandi, réttinum til eftirlits á landamærum okkar ríkis? Og er ástæða til þess fyrir okkur að gefa það eftir nema að mjög vel athuguðu og yfirlögðu ráði? Þarf ekki mikið að koma á móti? Ég segi jú. Það þarf mjög mikið að koma á móti. Þessu eiga menn ekki að henda frá sér með einhverja glýju í augunum bara af því að það sé svo fínt að taka þátt í slíku samstarfi Evrópuríkjanna.

Í fimmta lagi er þarna á ferðinni, herra forseti, sem mörgum hefur orðið nokkurt umhugsunarefni, viðamikil söfnun persónuupplýsinga. Það var að vísu ekki þáttur sem var sérstaklega til umfjöllunar í utanrmn. en ég nefni það hér í leiðinni. Og þar hafa auðvitað vaknað ýmsar spurningar sem lúta að persónuvernd og meðferð slíkra rafrænt skráðra upplýsinga.

Í sjötta lagi sem ókost og rök gegn því að við Íslendingar gerumst aðilar að þessu samstarfi nefni ég þá glötuðu sérstöðu Íslands sem þetta að sjálfsögðu felur í sér. Ísland án aðildar að Schengen en með góðum samningum við sín nágrannaríki bæði í austri og vestri hefði getað gert sér mat úr og byggt á sinni sérstöðu að ýmsu leyti, einnig í þessu tilliti. Nærtækast er auðvitað það sem snýr að rekstri okkar millilandaflugvalla eða flugvallar, sem aðallega er einn. Það er alveg ljóst að bæði uppbygging og rekstur flugstöðvarinnar og millilandaflugvallarins í Keflavík hefði orðið til muna ódýrari og einfaldari en ella verður án aðildar að Schengen. Færa má rök fyrir því að ýmiss konar kostnaður og óþægindi sem farþegar verða þarna fyrir hefðu ekki orðið til staðar og Keflavík hefði áfram getað státað af því að vera afar þægilegur og einfaldur viðkomustaður þar sem skamman tíma tæki að skipta um flugvél o.s.frv.

Vissulega hefðu þau óþægindi þá flust annað og menn hefðu átt það eftirlit eftir, t.d. í þeim tilvikum sem þeir voru að koma til landsins vestan um haf. En þá má líka benda á það þó það sé kannski ekki mjög stórmannleg röksemd, en látum hana flakka, að það hefði orðið hausverkur annarra, það eftirlit og þær tafir og þau óþægindi og sá pirringur sem það kynni að valda farþegum. Sú gremja beinist þá ekki að Íslendingum í því tilviki þegar eftirlitið fer fram á meginlandi Evrópu, á hinum Norðurlöndunum eða einhvers staðar annars staðar.

Ég tel verulega ástæðu til að ætla að það hefði verið mun vænlegri kostur í því sambandi fyrir okkur að reyna að gera áfram út á þá eiginleika sem menn hafa verið að reyna að fiska á í uppbyggingu tengiflugsins í Keflavík á undanförnum árum, að þar væri um sérlega þægilegan og fljótlegan viðkomustað að ræða.

Í sjöunda lagi, herra forseti, er ljóst og menn þurfa að gera sér grein fyrir því að þessi viðbúnaður, þó ærinn sé og mikill og dýr í Keflavík, verður ekki bara þar. Eigi þetta ekki að verka sem þröskuldur eða takmörkun annars staðar í landinu þá þarf líka að vera hægt að hafa svona viðbúnað á öðrum flugvöllum þar sem millilandaflug er starfrækt og í mjög mörgum af höfnum landsins. Verði það ekki gert þá verða þessir staðir dæmdir úr leik sem þátttakendur í millilandaflugi eða millilandasiglingum. Það verður að vera þannig að á öllum helstu flugvöllum landsins og í öllum helstu höfnum verði komið upp slíkum Schengen-landamærastöðvum. Annars eru menn að útiloka þá aðila frá því að vera þátttakendur í slíku eða eiga möguleika í sambandi við þróun þeirra mála sem ella væri.

Hefur t.d. hv. þm. Jón Bjarnason kannað það hvort Alexandersflugvöllur við Sauðárkrók er í stakk búinn til þess að taka við flugumferð bæði frá Schengen-svæðum og utan? Ég veit það ekki. Og hvernig snýr þetta að fjölmörgum höfnum sem þurfa á því að halda að geta tekið við farþegum, t.d. öllum þeim mörgu höfnum sem taka erlend fraktskip vegna flutninga á afurðum úr sjávarútvegi eða innflutnings á hráefni? Þar er mjög oft um það að ræða að áhafnir komi frá borði og þurfa að eiga samskipti við heimamenn. Þá þarf að vera fyrir hendi fullnægjandi aðstaða sem er viðurkennd sem landamærastöð samkvæmt Schengen. Svo ekki sé nú minnst á skemmtiferðaskipin þar sem hundruð eða jafnvel þúsundir ferðamanna koma stundum í land þar sem þau samskipti þurfa að ganga mjög greitt fyrir sig, þar sem algjörlega óhugsandi er að fara að standa í tímafreku eftirliti á hverjum einasta farþega. Það er vandséð annað en að það girði þá fyrir möguleikana á stuttum heimsóknum farþega af skemmtiferðaskipum í land eins og nú eru mikið tíðkaðar.

Að vísu má hugsa sér að eftir að slíkt skip er komið inn fyrir 12 mílna lögsögu landsins og einu sinni búið að koma í land þá sé hægt að líta á umferðina sem innan svæðis svo fremi sem hún fari ekki út fyrir 12 mílna lögsögu. En það mun vera svo að öll umferð á sjó sem fer út fyrir 12 mílna landhelgi, önnur en fiskiskip og reglubundnar áætlunarsiglingar með farþega, þ.e. ferjur, er flokkuð sem utan-Schengenumferð, samanber það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði hér um þetta mál.

Ég get vísað í þessu sambandi, herra forseti, í umsögn Hafnasambandsins en þar er akkúrat komið inn á þetta mál. Þar segir m.a., herra forseti, eftirfarandi:

,,Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á að vegabréfaafgreiðsla skemmtiferðaskipa í höfnum getur lengst verulega með tilkomu Schengen-reglna og einnig reglna um skoðunarstöðvar fyrir fisk. Flest skemmtiferðaskip hafa aðeins stutta viðdvöl í hverri höfn og því bagalegt ef mikil lenging eða töf verður vegna vegabréfaskoðunar.``

Herra forseti. Þá ætla ég að draga saman niðurstöður mínar á eftirfarandi hátt. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sé ekki skynsamlegur kostur fyrir Íslendinga að gerast aðilar að Schengen-samningnum. Ég vísa til alls þess sem hefur áður komið fram í mínu máli og bendi þar sérstaklega á eftirfarandi:

Í fyrsta lagi samrýmist það ekki pólitískri stöðu Íslands og áframhaldandi stöðu okkar án aðildar að Evrópusambandinu að taka þátt í þessu samstarfi á grunni eins konar aukaaðildar að verkefnum sem búið er að innlima í Evrópusambandið, þar með talið að hluta til inn í fyrstu stoð Evrópusambandsins með yfirþjóðlegu valdi.

[19:00]

Í öðru lagi verður gríðarlegur kostnaður því samfara fyrir Ísland, bæði í formi fjárfestinga og rekstrarkostnaðar að taka þátt í þessu samstarfi sem ástæða er til að ætla að við hefðum að mestu eða jafnvel öllu leyti komist hjá með því að semja um annars konar lausn á samskiptum okkar við aðildarríki Evrópusambandsins eða Schengen-svæðisins að þessu leyti.

Í þriðja lagi geta skapast erfiðleikar í tengiflugi til og frá landinu vegna tafsams eftirlits sem ytri landamærastöðvar Evrópusambandsins krefjast. Gildir þetta fyrst og fremst fyrir millilandaflug í Keflavík.

Í fjórða lagi er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af minni möguleikum til eftirlits með flæði fíkniefna og för fólks í vafasömum tilgangi innan svæðisins. Lausn í átt til þess sem Englendingar eða Írar eru að þróa, að taka þátt í vissum hlutum Schengen-samstarfsins, t.d. lögreglusamstarfinu að einhverju leyti en áskilja sér áfram rétt til persónueftirlits á landamærum, hefði í þessu sambandi verið mun fýsilegri kostur fyrir Ísland.

Í fimmta lagi eru það ýmsir þættir sem snúa að söfnun persónuupplýsinga og rekstri upplýsingakerfisins og persónuvernd í því sambandi sem eru óljósir og ekki er fullljóst enn hvers kyns árekstrar kunna að verða þar.

Í sjötta lagi, herra forseti, er ástæða til að hafa áhyggjur af þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu á þeim grunni sem það er byggt á og á því valdaframsali til yfirþjóðlegra stofnana sem þar fer fram í reynd, ekki að formi til en í reynd, með tilliti til stjórnarskrárinnar. Því miður, herra forseti, var sá þáttur málsins allt of lítið skoðaður af hálfu utanrmn. Í reynd er það svo að einungis sömu lögfræðingar og sömu lögfræðilegu álitsgjafarnir og ráðgjafarnir hafa komið að málinu allt frá samningstímanum sem ráðgjafar ríkisstjórnarinnar og síðan til að meta niðurstöðuna sjálfa. Það er mikill veikleiki í málinu að ekki skuli hafa farið fram óháð og sjálfstæð skoðun fleiri sérfróðra aðila á þessum viðkvæma þætti málsins. Ég ætla aðeins að rökstyðja þetta, herra forseti. Þegar samningarnir náðust 1997 um aðild Íslands að Schengen-samstarfinu fyrir tilkomu Amsterdam-breytinganna voru fengnir þrír ágætir lagaprófessorar til að meta þá niðurstöðu og skiluðu þeir henni í formi álitsgerðar í desember 1997. Þessir þrír lagaprófessorar voru Davíð Þ. Björgvinsson, Stefán M. Stefánsson og Viðar M. Matthíasson.

Þegar Schengen-samstarfið hafði síðan færst undir Evrópusambandið með Amsterdam-sáttmálanum þurfti á nýjan leik að fara í samningaviðræður og þeir samningar náðust um miðjan desember 1998 og þar telja menn að meginsamningsmarkmiðum Íslands hafi verið náð. Sá samningur var síðan undirritaður í Brussel 18. maí 1999. Í grg. með þáltill. á bls. 3 segir svo, með leyfi forseta:

,,Meðan á samningaviðræðunum stóð leitaði utanríkisráðherra ráðgjafar lagaprófessoranna þriggja`` --- hverra? Jú, þeirra Davíðs Þ. Björgvinssonar, Stefáns M. Stefánssonar og Viðars M. Matthíassonar, --- ,,um stjórnskipuleg atriði og hafði að öðru leyti samráð við ríkisstjórn og utanríkismálanefnd .... Með bréfi, dags. 17. febrúar sl., óskaði utanríkisráðuneytið eftir því við lagaprófessorana`` --- hvaða lagaprófessora? Lagaprófessorana þrjá, Davíð Þ. Björgvinsson, Stefán M. Stefánsson og Viðar M. Matthíasson. --- ,,að þeir gæfu skriflega umsögn um endanlega gerð samningsins og er umsögn þeirra, dags. 31. ágúst 1999, prentuð sem fylgiskjal V með tillögu þessari.``

Herra forseti. Þetta eru auðvitað hinir mætustu og virtustu lagaprófessorar sem þarna eiga hlut að máli. En þetta er í öllum þremur tilvikunum sömu þrír lagaprófessorarnir sem meta fyrstu niðurstöðuna, sem veita ráðgjöf í áframhaldandi samningaferli og sem meta síðan niðurstöðuna á lokastigi. Þá hlýtur maður að spyrja: Er það ekki veikleiki í stöðunni út frá öllum venjulegum viðmiðunum sem hafðar eru til hliðsjónar um hæfi manna til að meta hluti sem þeir hafa áður átt aðild að, að svona skuli vera í pottinn búið? Ég veit að það er óþarfi en ég tek það samt fram, herra forseti, til að fyrirbyggja allan misskilning á frumstigi, að ég met þessa ágætu fræðimenn mikils og tel að vinna þeirra sé vönduð. Ég er síður en svo að láta að því liggja að niðurstöðum þeirra sé ekki treystandi sem slíkum. Ég bendi bara á að þeim málatilbúnaði er auðvitað stórlega áfátt, að þessi afdrifaríki þáttur málsins sem varðar samhengi við stjórnarskrána og var t.d. í tilviki EES-samninganna mjög umdeildur meðal lögfræðinga þar sem þeir skiptust nokkuð í tvö horn, þeir sem töldu að teygja mætti þannig á stjórnarskrárrammanum, eins og það var stundum orðað, að EES-samningurinn slyppi og hinir sem töldu að hann gerði það ekki.

Núna erum við aftur að fjalla um hluti sem sumpart eru jafnvel enn þá vandasamari en matið á EES-samningnum var á sínum tíma gagnvart stjórnarskránni. Ég segi um þann þátt málsins, herra forseti, að það eru mér vonbrigði og mikill veikleiki er í þeim bakgrunni málsins að ekki skuli hafa tekist að kalla til einhverja aðra til að skoða þessa hluti sem ekki eiga sömu málsaðild og þessir ágætu herramenn og sumir þeirra komu reyndar líka að mati á EES-samningnum fyrir stjórnvöld og eiga þar af leiðandi aðild að málinu einnig frá því stigi.

Síðast en ekki síst, herra forseti, dreg ég saman sem röksemd í þessum efnum, sem er þá væntanlega 8. tölul. í því safni, að ég get ekki komist að annarri niðurstöðu eftir að hafa setið nokkuð yfir þessu ásamt með félögum mínum í utanrmn. undanfarnar vikur og reynt eftir föngum að fara yfir helstu þætti málsins þó að ég hefði vissulega getað kosið mér meiri tíma til að lesa öll þessi miklu gögn sem fyrir okkur hafa verið lögð, en að undirbúningi hvað varðar framkvæmd og gildistöku samningsins sé mjög ábótavant og þar sé ýmislegt enn þá með ákaflega losaralegum blæ. Það er alveg skiljanlegt, og menn þurfa ekkert að taka þetta sem einhvern áfellisdóm yfir störfum sínum og ég veit að önnum köfnum ráðuneytismönnum, sem hafa ærið að starfa fyrir þó að svona verkefni bætist ekki við er auðvitað heilmikil vorkunn í þeim efnum eða öðrum hjá embættum eins og ríkislögreglustjóra, Útlendingaeftirliti, sýslumanni á Keflavíkurflugvelli eða annars staðar þar sem þetta er gífurlegt viðbótarverkefni, þó að mönnum hafi reynst tíminn ódrjúgur til undirbúnings. Ég get bara sem dæmi, herra forseti, vitnað aðeins í niðurstöður álitsgerðar ríkislögreglustjóra, með leyfi forseta, en þar segir um stöðu þess embættis þar sem framkvæmd færist yfirleitt á þær herðar um þetta mál:

,,Fram undan eru stórfelldar breytingar og endurskipulagning á störfum lögreglunnar vegna aðildar að Schengen-samstarfinu.`` Sem sagt, stórfelldar breytingar og endurskipulagning á störfum lögreglunnar vegna aðildar að Schengen-samstarfinu. Hér er ekki tekið grunnt í árinni.

Ég get, herra forseti, til viðbótar því sem ég hef áður fært fram sem rök fyrir afstöðu minni, tekið undir ýmislegt af því sem fram kemur í nál. 2. minni hluta og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson mælti fyrir. Ég tek ekki undir allar röksemdirnar þar og við metum þetta svolítið út frá ólíkum sjónarhólum, hv. 1. þm. Vestf. meira út frá kostnaði en ég kannski örlítið meira út frá pólitískum þáttum en safnast þegar saman kemur og þegar allt er saman lagt tel ég þennan samning ekki skynsamlegan fyrir okkur.

Ég verð að segja að fyrirvaralaus stuðningur þingmanna Samfylkingarinnar og ef vera skyldi alls þingflokks Samfylkingarinnar vekur líka nokkra undrun mína. Ég hefði haldið eins og allt er í pottinn búið að vænta mætti a.m.k. einhverrar gagnrýni á suma þætti málsins úr þeim herbúðum en svo virðist ekki vera því að fulltrúar Samfylkingarinnar í utanrmn. skrifa fyrirvaralaust upp á nál. meiri hlutans, að vísu að þeirri sjálfsögðu setningu viðhafðri að framkvæmdin sé á ábyrgð stjórnvalda og hefði það einhvern tíma verið kallað ,,selvfølgelighed`` af því að menn hafa orðið að bregða aðeins fyrir sig dönsku í þessari umræðu.

Niðurstaða 1. minni hluta, herra forseti, er sem sagt sú ,,að leggja til að Alþingi staðfesti ekki samninginn og felli till. til þál. um fullgildingu samnings sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna. Þess í stað verði leitað eftir viðræðum um sérlausn fyrir Ísland. Til vara vill 1. minni hluti gera þá kröfu að viðsemjendum okkar verði tilkynnt, fari svo að samningurinn verði samþykktur, að Ísland muni áskilja sér rétt til þess að fresta framkvæmd samningsins þar sem of mörg álitamál séu hvað varðar stöðu Íslands, undirbúningi sé ábótavant.``

Undir nefndarálitið skrifar sá sem hér stendur.

Herra forseti. Ég hef þá lokið máli mínu.