Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 19:39:49 (5553)

2000-03-21 19:39:49# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[19:39]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vitnar til sérlausna sem aðildarríki Evrópusambandsins hafa fengið í málinu og ýmsum öðrum. Danir hafa ákveðna lausn innan Schengen. Segja má að hún sé kannski ekkert ósvipuð og við og Norðmenn höfum fengið og líkist henni.

Það er hins vegar annað mál að semja um lausn, verandi aðildarríki í Evrópusambandinu eða standa utan þess. Það liggur alveg ljóst fyrir og ég minni á að það er mjög einstakt og hefur raunverulega aldrei gerst áður að tekist hafi að semja við Evrópusambandið um álíka lausn og fékkst fyrir Noreg og Ísland. Þar er tekið tillit til sérstöðu okkar. Þar er tekið tillit til Norðurlandasamvinnunnar þannig að því verður ekki haldið fram að við höfum ekki fengið viðurkennda sérstöðu okkar í þessu máli. Það höfum við fengið og á það höfum við lagt áherslu. En ég fullyrði að ef við hefðum farið út úr þeim ramma og stokkið yfir í eitthvað annað og farið að tala um eitthvað svipaða lausn og Bretar og Írar fengu innan Evrópusambandsins hefði því verið lokið þar með. Þetta fullyrði ég. Menn verða þegar þeir dæma þetta mál að meta stöðu okkar og samningsstöðu sem ríkis sem stendur utan Evrópusambandsins. Það er aðalatriði málsins. Þess vegna fullyrði ég að hér fengum við lausn sem er einstök. Hún mun gagnast okkur hvort sem við göngum í Evrópusambandið eða ekki. Hún mun gera okkur auðveldara, það er rétt, að fara þar inn en hún mun líka gera okkur auðveldara að standa þar utan við ef við kjósum svo.