Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 19:42:04 (5554)

2000-03-21 19:42:04# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[19:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þeir sem studdu samninginn um Evrópska efnahagssvæðið hljóta að styðja Schengen. Á þessa leið talaði hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson. Með öðrum orðum er Schengen rökrétt framhald á EES og hann bætti í og sagði að EES fjallaði um frjálst flæði á vöru, fjármagni og fólki og með Schengen erum við að tryggja það síðastnefnda, vöru, fólki og fjármagni.

Mér finnst þetta heiðarlegt af hálfu hæstv. utanrrh. Hann lítur öðrum augum á Schengen-samkomulagið sem hluta af hinu evrópska samrunaferli. Það sem er heiðarlegt við þetta er að stilla málinu upp pólitískt. Það sem mér fannst hins vegar áhyggjuefni og óábyrgt af hálfu hæstv. utanrrh. er hvernig hann afgreiddi peningahlið málsins og ef ég heyrði rétt, hvernig hann orðaði þá gagnrýni sem hefur komið fram á milljarðakostnað sem Íslendingar eru að taka á sig vegna Schengen. Hann sagði: Þetta er ekki aðalatriði málsins og þá er málið útrætt.

Ég vil, herra forseti, lýsa því yfir, að mér finnst þetta afspyrnuóábyrg afstaða af hálfu hæstv. utanrrh. í þessu máli.