Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 19:43:37 (5555)

2000-03-21 19:43:37# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[19:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Vel má vera að menn líti svo á að það sé óábyrg afstaða. Ég er einfaldlega að halda því fram að það sé nánast útilokað að reikna þetta dæmi. Kostnaðurinn er ekki upp á marga milljarða, það er ekki rétt, það er rangt. Ég treysti mér ekki til að meta það nákvæmlega hver kostnaðurinn verður en hann verður ekki upp á marga milljarða og það hafa verið lagðar fram tölur um það hver hann er. Það hefur t.d. verið metið svo af þeim aðilum sem hafa teiknað flugstöðina að viðbótarkostnaður vegna hennar væri á bilinu 500--900 millj. Ég er ekkert viss um að þeir útreikningar séu réttir. Vel má vera að það megi reikna þetta hærra eða eitthvað lægra. En ég tel að þeir sem fara út í slíka útreikninga verði líka að reikna kostnaðinn hinum megin fyrir land og þjóð og þá hagsmuni sem eru í húfi en það verði ekki einfaldlega afgreitt með því að reikna laun viðbótarlögreglumanna eða viðbótarrekstrarkostnað í flugstöðinni. Dæmið er ekki svo einfalt. Það er það sem ég er að halda fram. Ég tel óábyrgt að reyna að reikna eingöngu kostnaðartölur en reikna engan fórnarkostnað við það að standa utan við. Það má kalla það óábyrgt gagnvart mér ef menn kjósa svo. Ég er einfaldlega þessarar skoðunar og ég vænti þess að hv. þm. virði það.