Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 19:45:37 (5556)

2000-03-21 19:45:37# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[19:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að þjóðin virði það. Hún ætlast til þess af ríkisstjórn og ráðherrum að þeir viti út í hvað verið er að taka okkur.

Í svari hæstv. utanrrh. kemur fram að menn hafi ekki hugmynd um kostnaðinn, menn viti ekki hvað þetta kemur til með að kosta okkur. Og þeir sem á annað borð reikna þessa hluti, segir hæstv. utanrrh., verða að taka ýmsar forsendur inn í þá reikninga.

Eru menn virkilega að fá Alþingi Íslendinga til að samþykkja hér lög og breytingar án þess að þeir viti hver tilkostnaðurinn verði?

Ég mun síðar við umræðuna í kvöld fjalla um þær mótsagnir sem komu fram í máli hæstv. utanrrh. sem segir fjálglega að tíminn kosti peninga þegar menn bíði í biðröðum á erlendum flugvöllum, en gerir síðan ekkert úr því amstri og þeim töfum sem verða á okkar eigin flugvöllum.

Um þessar mótsagnir mun ég fjalla síðar við umræðuna, en hitt finnst mér óábyrgt að íslensk stjórnvöld hafi ekki hugmynd um og viðurkenni það hver tilkostnaðurinn verði af Schengen fyrir Íslendinga. Það finnst mér mjög alvarlegt og mér finnst það óábyrgt.