Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 20:30:54 (5558)

2000-03-21 20:30:54# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[20:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um fullgildingu samnings um svokallaðar Schengen-gerðir og Schengen-samning og á þeirri spýtu hanga reyndar fleiri þingmál, frv. til breytinga á lögum, frv. um svokallað upplýsingakerfi Schengen og breytingar á ýmsum lögum sem nauðsynlegt er að gera vegna þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

Schengen-samstarfið gengur út á að fella niður eftirlit innan Schengen-svæðisins sem tekur til Evrópusambandsríkjanna að undanskildu Bretlandi og Írlandi. Frakkar munu verða með í Schengen-samstarfinu og þótt þeir hafi lengi tregðast við og haft miklar efasemdir þar í landi um ágæti þessa samstarfs hefur það sjónarmið orðið ofan á í Frakklandi sem annars staðar innan Evrópusambandsins að Schengen-samkomulagið og Schengen-samstarfið sé eðlileg þróun eða eðlilegur hluti af samrunaferli Evrópu.

Ég virði að sjálfsögðu það sjónarmið, það heiðarlega sjónarmið sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. í umræðunni fyrr í kvöld, að sér fyndist það vera rökrétt af hálfu þeirra sem studdu samninginn um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma að styðja einnig Schengen-samkomulagið. Þar með stillir hann þessu réttilega upp í pólitískt samhengi.

Það var nú reyndar svo að flokkur hans, Framsfl., var ekki einhuga um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma og ágæti þess og ágæti Evrópusamvinnunnar í þeim farvegi sem ákveðið var að fara en svo virðist sem þar hafi orðið veruleg breyting á, enda margoft komið fram að Framsfl. hefur gerst talsmaður þessa Evrópusamstarfs.

Evrópusamstarfið á sér langa og virðulega sögu. Á síðari hluta 20. aldarinnar, fljótlega eftir stríð, var farið að tala um nauðsyn þess að stofna jafnvel eitt ríki í Evrópu. Það mun hafa verið Winston Churchill sem orðaði þá hugsun fyrst, fljótlega eftir seinna stríð, 1946. Það voru þó ekki Bretar sem voru með í Evrópusamstarfinu frá upphafi, það voru sex Evrópuríki, Holland, Belgía, Lúxemborg, Vestur-Þýskaland, Frakkland og Ítalía sem stofnuðu svokallað stál- og kolabandalag upp úr 1950. Árið 1951 var tekin ákvörðun um það og tók það síðan til starfa á næstu missirum, 1953 hafði það tekið til starfa og byggði á sameiginlegum markaði með kol og stál í Evrópu.

Á þessum tíma var einnig stofnað evrópskt varnarbandalag, European Defense Union, en það er ekki fyrr en undir lok sjötta áratugarins, 1957, að Rómarsáttmálinn er undirritaður og þá af hálfu þeirra sex ríkja sem stóðu upphaflega að stál- og kolabandalaginu. Og á Rómarsáttmálanum byggist síðan Evrópusamvinnan allar götur frá þeim tíma.

Með Rómarsáttmálanum er Evrópubandalag Evrópu stofnað, skammstafað EBE á íslensku, European Economic Community, skammstafað EEC á ensku. Síðan er það ekki fyrr en líður á öldina að Evrópubandalagið tekur pólitískum breytingum og til verður Evrópusambandið eftir því sem þessi Evrópusamruni verður meiri.

Við þekkjum þá sögu, hvernig sífellt fleiri ríki hafa bæst í hópinn. Í byrjun áttunda áratugarins, 1973, gerðust Bretar, Írar og Danir þátttakendur í Evrópusambandinu, síðan komu Grikkir, Portúgalar og Spánverjar 1986 og síðan á tíunda áratugnum komu Finnar, Svíar og Austurríkismenn. En á þessu tímabili er stöðugt verið að efla samstarfið og samvinnuna innan Evrópu og við færumst sífellt nær því marki sem Winston Churchill orðaði 1946, að stofnað yrði evrópskt sambandsríki.

Við þekkjum þá áfanga núna á síðustu árum með Maastricht-samkomulaginu sem undirritað var á fyrstu árum tíunda áratugarins, 1993, þar sem unnið er að nánari samvinnu innan Evrópusambandsins, félagslegir og efnahagslegir þættir koma til sögunnar og stöðugt fleiri þættir tíndir til, og í byrjun síðasta árs er evran tekin upp og fyrsti áfangi hennar kemur í gagnið.

Samfara þessari þróun, hinni auknu samvinnu innan Evrópu gerist annað. Það dregur úr sjálfstæði einstakra ríkja sem eiga aðild að þessu sambandi. Það er ekki ýkja langt síðan að fulltrúar þeirra komu saman í Helsinki í Finnlandi þar sem enn ein ákvörðunin var tekin í þá veru að draga úr neitunarvaldi aðila Evrópusambandsins, enda gefur augaleið að eftir því sem ríkjunum fjölgar verður torveldara að heimila þeim að beita neitunarvaldi.

Og það er í því samhengi sem við erum núna að ræða Schengen-samkomulagið, í hinu sögulega samhengi, enda segir á bls. 120 í till. til þál., með leyfi forseta, um samkomulagið:

,,Aðaltilgangurinn með Schengensamningnum er að skapa skilyrði til þess að afnema allt eftirlit með ferðum manna yfir landamæri innan Schengensvæðisins. Í því felst jafnframt að taka verður upp sameiginlegar reglur varðandi eftirlit við ytri landamæri svæðisins. Schengensamstarfið er þannig liður í því að náð verði áformum þeim sem keppt er að með hinum innri markaði ESB í samræmi við 7. gr. A í Rómarsamningnum.``

Þetta er alveg skýrt, enda fengum við staðfestingu á því af hálfu hæstv. utanrrh. áðan að þetta væru fyrst og fremst pólitísk markmið. Hann gekk meira að segja svo langt að fullyrða að peningamálin væru ekkert aðalatriði. Og þegar gengið var á ráðherra að hann skýrði betur fyrir þingheimi hverjar væru hinar fjárhagslegu skuldbindingar var að skilja á máli hans að það hefði ekki verið reiknað út, að menn vissu ekki út í hvað þeir væru að fara. Hann vísar í fyrsta áfanga verksins og sagði sjálfur að það væru ónákvæmar tölur, 500--900 milljónir, sagði hann, að kæmu til sérstaklega vegna Schengen, og vísaði hann þá til milljarðauppbyggingar á flugstöðinni í Leifsstöð. (Gripið fram í: Hæstv. ráðherra.) Hæstv. ráðherra. Mér er réttilega bent á að nota rétt orð og hugtök og biðst ég forláts á því þegar ég geri það ekki. Það var aldeilis ekki meiningin.

En þetta er sem sagt samhengi hlutanna. Og ég virði þá sem koma hreint til dyra og segja hvað það er sem vakir fyrir þeim, að þetta séu fyrst og fremst pólitísk markmið sem menn eru að ná, og ég skil það mjög vel. Ef menn vilja stofna eitt ríki afnema þeir að sjálfsögðu landamæri innan þeirra ríkja. Það gerðu menn í Þýskalandi þegar menn voru að sameina þýsku ríkin á 19. öldinni, þar sem var að finna tugi smáríkja og endalausa tollamúra. Menn réðust að sjálfsögðu fyrst í þessar breytingar þegar þeir reyndu að ná fram því markmiði að stofna eitt ríki.

Ég skil þess vegna þá sem eru að ganga inn í nýtt evrópskt ríki. Að sjálfsögðu vilja þeir afnema allt innra eftirlit og öll landamæri. Út á það gengur stofnun eins ríkis. En hina sem ekki eiga sér þetta markmið, sem ekki eru að keppa að þessu, skil ég ekki. Vegna þess að það sem hlýst af þessu Schengen-samstarfi er ekkert annað en óhagræði, fjárútlát og óhagræði, auk þess sem Íslendingar glata sérstöðu sinni. Eða skyldu menn gera sér grein fyrir því að í þessum pappír, í öllum þessum lagabreytingum og samningum sem við erum að undirgangast, hafa Íslendingar afskaplega lítið forræði? Þeir ráða ekki för. Þetta er fyrst og fremst samræmingarvinna sem við og sérfræðingar okkar eru að inna af hendi við það sem annars staðar hefur verið ákveðið. Út á það gengur þetta og ég skil það mætavel. Þegar við sem vildum fara aðra leið og efla lögreglusamstarf, ekki bara við Evrópu heldur í heiminum öllum, var okkur bent á að þar yrði að stíga skrefin hægar, einfaldlega vegna þess að heimurinn væri margbreytilegur og byggði á ólíkum lögmálum, siðum og venjum. Sums staðar væru harðstjórar og annars konar lagaumhverfi og frábrugðið okkar, og til að geta ráðist í samræmingu þyrftu menn að geta treyst á að svipuð viðhorf og lög væru til grundvallar. Ég skil þetta mjög vel. Og ég skil að við þurfum að vinna þessa samræmingarvinnu en það eigum við þá að gera með opnum huga og opnum augum.

Við erum að afsala okkur forræði yfir þessum málum sjálf. Við erum að undirgangast alla þessa samninga sem Evrópumenn eru að gera sín í milli. Og það er mjög skiljanlegt viðhorf hjá þeim sem vilja stofna nýtt sambandsríki í Evrópu að hætti Winstons Curchills. Það skil ég mjög vel.

Við umræðuna hefur verið farið ítarlega yfir það óhagræði og þau fjárútlát sem Schengen-samkomulagið hefur í för með sér. En þetta var fyrsta atriðið sem ég vildi nefna, að við erum að afsala okkur forræði í eigin málum með þessu. Við erum að gera það. Við erum að undirgangast allar þær skuldbindingar sem Evrópusambandið hefur komið sér saman um.

[20:45]

Í öðru lagi er það amstrið í kringum þetta. Ég sagði í andsvari við hæstv. utanrrh. að mér fyndist hann harla mótsagnakenndur í yfirlýsingum sínum. Annars vegar segir hann að tíminn kosti peninga. Ég hef ekki tölu á því hve oft hann endurtók að tíminn kostaði peninga, það kostaði peninga að bíða við hlið í erlendum flughöfnum. Ég minnist þess að samflokksmaður hæstv. utanrrh., núv. hæstv. viðskrh., Valgerður Sverrisdóttir, hafði uppi svipuð sjónarmið við fyrri umr. málsins. Ég man ekki betur en hún segði að nú yrði hún frjáls að ferðast í Evrópu. Þetta er svipuð hugsun og kom fram hjá hæstv. utanrrh.

Hins vegar þegar kemur að því að meta eða svara þeirri gagnrýni sem kemur frá flugmönnum eða Ferðamálaráði, sem hefur áhyggjur af töfum á íslenskum flughöfnum, þá leyfa menn sér að blása á slíkt. Allir slíkir erfiðleikar verða yfirstignir, sagði hæstv. utanrrh. áðan. (Utanrrh.: Mál sem þarf að leysa.) Mál sem þarf að leysa og það leysum við, sagði hæstv. utanrrh. En ég hefði haldið að tíminn væri peningar í Leifsstöð eins og annars staðar.

En með fullri virðingu fyrir sjónarmiðum Flugleiða og Ferðamálaráðs og sjónarmiðum hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh., þá held ég að þessi þáttur skipti ekki eins miklu máli og menn vilja vera láta. Þrátt fyrir þennan ferðamann sem menn eru að búast við frá Tævan sem mun ætla að heimsækja öll Norðurlöndin og þurfa að vísa í hverju landi og fá þá gjöf núna með Schengen að það þurfi bara að sækja um á einum stað, þá blæs ég líka á þetta. Ég hef heldur ekki miklar áhyggjur af þessum ferðamanni frá Tævan. Ég hef ekki eins miklar áhyggjur af þessu og margir sem hafa verið að tjá sig um þessi mál. Ég minnist þess þegar menn voru að opna Leifsstöð á sínum tíma, ég held að það hafi verið Sjálfstfl. sem stillti sér þá upp á Reykjanesinu, sennilega nærri Flugstöðinni, með hana í baksýn, og undir auglýsingu sem birtist í öllum blöðum, stærðu þeir sig af þessu afreki sínu. Ég man ekki hvort það var í þessum texta eða texta með þessari auglýsingu, þar sem fram kom að nú mætti búast við auknum ferðamannastraumi til Íslands vegna þessarar glæsilegu flugstöðvar. Ég held að þetta gerist ekki svona. Ég held að menn ákveði ekki að heimsækja lönd vegna þess að það hafi spurst út að þar sé falleg flugstöð eða menn þurfi að standa í fimm mínútur í biðröð. Ég hef aldrei fundið þessi höft, þetta ófrelsi, sem hæstv. viðskrh. hefur fundið til í evrópskum flughöfnum, hef reyndar mjög sjaldan orðið fyrir einhverri töf þar.

Það sem mér finnst skipta meira máli er að Íslendingar skuli vera að afsala sér forræði yfir þessum málum sjálfir og peningahliðinni sem hæstv. utanrrh. leyfir sér að segja að sé ekkert aðalatriði. Viðurkennir síðan í næstu setningu að hann hafi ekki hugmynd um hvað hann sé að tala um, ekki sé vitað hvað þetta kostar. Hann segir að meira að segja hjá þeim sem séu að slá á upphæðir hlaupi á 500--900 millj. í fyrsta áfanga, slíkt sé ekki aðalatriðið. Við erum upplýst um í greinargerð með frv. sem við tökum til umræðu síðar í kvöld að stofnkostnaður upplýsingakerfisins er 244 millj. Fram hefur komið að kostnaður við stækkun Leifsstöðvar á næstu 15--20 árum verði 6--8 milljarðar og menn hafa upplýst það og enginn neitar því að drjúgur hluti af þessum fjárfestingum er tilkominn vegna Schengens. Það eru þessir hlutir sem mér finnst að þurfi að ræða nánar og síðan eru það fíkniefnin. Þar vil ég sannast sagna segja að ég vil hlusta á það sem aðilar á borð við lögregluyfirvöld og heilbrigðisyfirvöld eru að benda okkur á. Í umsögn landlæknisembættisins segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ákvæði um eflingu og samvinnu á sviði baráttu gegn ávana- og fíkniefnum: Ljóst er hversu miklu máli samvinna og auknar aðgerðir á þessu sviði skipta miklu máli fyrir okkur Íslendinga. Ekki hvað síst er þetta mikilvægt í ljósi þess að innan Schengen-svæðisins eru ríki þar sem fíkniefnavandinn er mun alvarlegri en hér og niðurfelling eftirlits innan svæðisins býður upp á aukið streymi fíkniefna til landsins án eftirlits.``

Þetta er nokkuð sem menn eru að vara okkur við. Að sönnu verður hægt að leita á þeim sem koma til landsins í tolli, geri ég ráð fyrir. En það er búið að rjúfa sambandið sem er á milli vegabréfaskoðunar annars vegar og tolleftirlits hins vegar og þetta segja þeir sem kynnt hafa sér þessi mál að muni torvelda okkur eftirlit. Síðan á að koma á móti aukið samstarf lögregluyfirvalda. Ég held að ekki sé neinum blöðum um það að fletta að með þessu erum við að draga úr eftirliti. Við erum að draga úr eftirliti á ferðamönnum sem koma til landsins og þar með auka hættu á fíkniefnasmygli. Ég held að enginn deili um að þetta muni gerast, að þessi hætta sé a.m.k. fyrir hendi.

Stærsta málið finnst mér þó vera hitt að þetta er fyrst og síðast pólitísk ákvörðun og mér fannst það koma mjög skýrt fram hjá hæstv. utanrrh. Peningarnir eru ekki aðalatriðið, sagði hann. Það kemur fram að hann veit ekkert hvað hann er að tala um í þeim efnum. Það er bara puttinn upp í loftið eins og hæstv. forsrh. þjóðarinnar orðaði það gagnvart Perlunni á sínum tíma. Við setjum bara puttana upp í loftið, það er reikniaðferðin, hún er nú þetta vísindaleg reikniaðferðin sem menn nota gagnvart Schengen. Menn setja þar puttana upp í loftið og okkur er sagt að pólitískur ávinningur að Schengen vegi upp á móti fjárhagslegum tilkostnaði, fjárhagslegu tapi.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína eða umfjöllun miklu lengri á þessu stigi. Ég mun geyma nánari umfjöllun um Schengen-samkomulagið þar til umræðan kemur um eftirlitskerfið sem hefur verið í þeirri nefnd þar sem ég hef haft áheyrnaraðild og aðrar lagabreytingar sem menn telja nauðsynlegar í tengslum við Schengen-samkomulagið og læt máli mínu lokið að sinni.