Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 20:54:12 (5559)

2000-03-21 20:54:12# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[20:54]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar, samkomulagið um Schengen, er stórmál og ég vil áður en lengra er haldið lýsa furðu minni á því hversu fáir þingmenn eru í sölum til þess að taka þátt í síðari umr. um það. Ég tók eftir því að þegar hv. formaður utanrmn., Tómas Ingi Olrich, flutti framsögu um nefndarálitið var hann ekkert sérlega sannfærandi. Hann gat þess í framsögu sinni að það væru margar spurningar í þessu máli, enda veit hv. þm. Tómas Ingi Olrich að það eru mörg vandamál í sambandi við málið. Ekki síst veit hann það vegna nálægðar sinnar við ferðamannaiðnaðinn í landinu.

Það vekur furðu að lesa nefndarálit frá meiri hluta nefndarinnar vegna þess að það er engu líkara en að umfjöllunin um þetta mál hafi eingöngu átt sér stað í þessum 50 km radíus út frá Reykjavík. Það er heimsóknin í Keflavík, möguleikarnir í Keflavík og það eru heimsóknir til stóra flutningsaðilans, Flugleiða, sem standa upp úr. Gera menn sér ekki grein fyrir því að hér er svo stórt mál á ferðinni að það verður að taka innanríkismálin öll undir? Ég hef grun um að það sé þess vegna sem ekki var mjög mikill sannfæringarkraftur í málflutningi formannsins fyrr í dag.

Staða mála er nefnilega þannig að ef við tökum landið í heild hafa menn lagt mikið kapp á að eiga möguleika í framtíðinni á að koma víðar inn á Ísland, sérstaklega með ferðamenn. Í því skyni höfum við fjárfest í alþjóðaflugvöllum bæði á Akureyri og á Egilsstöðum. Menn hafa gert tilraunir, menn hafa góðar vonir og eftir því sem ferðamannastraumurinn til landsins þyngist áttu að verða meiri möguleikar á að þetta gæti ræst. Það kom fram í ræðum í dag að menn áætla að fjöldi ferðamanna fari úr 600 þúsundum nú um stundir og geti á örfáum árum nálgast 3 millj. Þetta er stórmál fyrir ferðamannaþjónustuna í landinu sem er nú þegar farin að gefa í gjaldeyristekjur um 30 milljarða kr. Mér finnst mjög einkennilegt að ekki skuli hafa verið fjallað um þetta mál hér, í þessu víða samhengi vegna sérstöðu okkar með þetta stóra land. Ferðaþjónustuaðilar bundu mjög miklar vonir við stóru flugvellina úti á landi á Akureyri og á Egilsstöðum.

Ég get ekki betur séð en það hafi lítið sem ekkert verið hugsað um stöðu þessara valla eða hvernig þeir eiga að tengjast þá samningnum ef hann verður samþykktur. Það er a.m.k. ekki áætlun um neina sérstaka uppbyggingu þar og menn hafa ekki lýst áhyggjum sínum yfir því að þessir flugvellir gætu ekki tekið við þessari þjónustu.

Annar vaxtarbroddur í ferðaþjónustunni er líka mikið áhyggjumál og það er innkoma skemmtiferðaskipa til landsins eins og kom fram í ræðu hv. þm., forsvarsmanns minnihlutaálits utanrmn. Steingríms J. Sigfússonar. Þar hafa menn ekkert rætt um hvert fyrirkomulagið á að vera, vitandi það að ferðaþjónustan úti um land hefur gert stórátak í að auka innkomu ferðamanna með skipum. Bylting hefur orðið á örfáum árum þar sem menn hafa sóst eftir stórum skemmtiferðaskipum til landsins og æ fleiri staðir sækjast eftir styttri eða lengri viðkomu slíkra skipa á ströndinni. Á örfáum árum hefur fjöldi þessara ferðamanna inn á Akureyri farið úr 6--8 þúsund manns upp yfir 20 þúsund manns á ári. Hver verður staða þessara hafna og hvað hafa menn hugsað sér í þessu samhengi?

Það er algjör krafa að þegar menn koma inn með svona stórmál að menn velti fyrir sér afleiðingunum fyrir landið allt. Það er algjör krafa að menn líti ekki bara á innkomuna á þetta horn sem hér er þó að ég geri mér fullkomna grein fyrir því að auðvitað er þetta merkilegasti innkomupósturinn og alþjóðaflugstöð okkar. Ekki verður nægilega á það bent að hér er um að ræða gríðarlegar fjárfestingar sem í þessu ljósi væru betur komnar annars staðar, á annan hátt og án Schengen-samstarfs með öðru fyrirkomulagi eins og margir hv. ræðumenn hafa talað um. Menn hafa fullyrt að bara rekstrarkostnaður, aukning vegna þessa fyrirkomulags gæti orðið um hálfur milljarður á ári. En eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar finnst hæstv. utanrrh. það minni háttar mál, þetta sé pólitískt mál að taka ákvörðun um. Auðvitað er þetta pólitískt mál en þetta er stórt peningalegt útgjaldamál.

[21:00]

Þegar menn tala um uppbygginguna í Keflavík þá snýst það um 3,5 milljarða kr. á allra næstu missirum. Til nokkurra ára litið er það um 7 milljarða fjárfesting. Þetta er stórmál. Við verjum löngum tíma, mörgum klukkustunda í umræður um þjóðþrifamál og útgjöld sem skipta kannski nokkrum tugum milljóna. Auðvitað erum við að tala um stórmál í Íslandssögunni. Það má ekki gera lítið úr því og við eigum að verja tíma í að ræða þessi mál.

Það hefur vakið athygli mína að aðeins einn hv. þm. hefur talað á móti samþykkt þessa samnings. Það er hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon. Það vekur sérstaka athygli mína að samfylkingarþingmennirnir skrifa undir meirihlutaálit ríkisstjórnar og þingmenn Samfylkingar hafa mjög lítið haft sig í frammi í umræðum og það vekur sérstaka athygli.

Það vekur líka sérstaka athygli að hér eru málsmetandi sjálfstæðismenn sem lýsa yfir mjög miklum efasemdum. Þar á ég við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Þeir hafa bent á marga galla samningsins og mál þeirra er í sjálfu sér mjög í sama anda og gagnrýni mín. Við eigum að ræða málið út frá þeim atriðum.

Forsmekkurinn að því sem við erum að fara inn í er í sjálfu sér ljós. Stofnanir ríkisins hafa verið settar í viðbragðsstöðu. Innan lögreglunnar er unnið á fullu vegna eflingar á starfsemi og breyttra starfshátta. Innan fíkniefnalögreglunnar er í gangi vinna til eflingar á starfsemi hennar og breyttra starfshátta. Þetta bendir til þess, aukin framlög til þessara þátta, að menn viti hver holskeflan verður og ætli að bregðast við hér og taka á þeim málum sem brenna munu á okkur hér. Þetta eru hlutir sem við verðum að gera okkur grein fyrir.

Ég ætla ekki að lengja mál mitt en segi að síðustu þetta: Það er allt of mikið gert úr vandræðunum af því að hafa ekki þann aðgang sem Schengen-fyrirkomulagið gefur. Það hefur komið fram hjá mörgum þingmönnum í umræðunni í dag og ég hef alveg sömu sögu að segja, að ég hef ekki orðið var við vandræðagang af því að fara á milli landa í Evrópu með bláa passann minn. Ég kemst um eins og mér sýnist. Það hefur ekki valdið mér vandræðum, sárasjaldan töfum, eiginlega aldrei bið. Þær röksemdir duga bara ekki í dag. Á þessum flugstöðvum gengur allt vel fyrir sig. Ég held aftur á móti að við eigum að líta á gildi þess að búa á eylandi. Við höfum möguleika á þessari virku landamæravörslu og eigum að nýta okkur það til fullnustu þó enginn sé að tala um að loka sig af á neinn hátt. Við eigum að nota sérstöðu okkar og höfum enga ástæðu til þess að fara í Schengen á þessum nótum. Ég held að það sé einmitt þetta sjónarmið, sem hefur einnig komið fram í umræðunni hjá mörgum, sem Bretar og Írar ætla að nýta sér. Þetta eru eylönd sem hafa þá sérstöðu að geta haft öðruvísi eftirlit en þjóðirnar sem eiga samliggjandi landamæri, þjóðir sem hafa verið með náið samstarf síðustu áratugi og árhundruð, ef við tökum Benelúxlöndin og næstu lönd þar í kring.

Virðulegi forseti. Ég held að málið hafi alls ekki verið nægilega rætt í þinginu og alls ekki nógu vel kynnt fyrir þjóðinni. Ég tel að umræðan um afleiðingar Schengen-uppbyggingarinnar sé algerlega eftir. Það er óskýrt hvernig menn ætla að standa að málum við hafnir landsins og hefur ekki verið skýrt hvernig menn sjá fyrir sér þróun mála á þessum tveimur alþjóðaflugvöllum sem við höfum byggt upp úti á landi og menn í ferðaþjónustunni á landsbyggðinni bundu svo miklar vonir við. Ég get ekki séð annað en að þetta samkomulag um Schengen muni um alllanga framtíð leiða til þess að innkoman verði einvörðungu á þetta svæði hér. Þá eru öll plön og draumar manna í ferðamálaþjónustunni fyrir norðan og austan farin út í vindinn.

Ég held að þetta fyrirkomulag með Schengen-höfnum og Schengen-flugstöð muni leiða að enn þá verra verði að fá flutningsaðila til að fara inn á hafnir annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu eða inn á flughafnir annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er stóralvarlegt mál fyrir landsbyggðina og fyrir uppbyggingu ferðaþjónustunnar í landinu. Farþegafjöldi til landsins hefur aukist svo mikið að það eru örfá missiri þar til við þurfum að fara að athuga okkar gang og taka umferðina inn á fleiri flughafnir. Það mundi nýtast landinu vel á alla kanta.

Ég vil svo að síðustu, virðulegi forseti, taka undir lokaorð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem talaði fyrir minnihlutaáliti utanrmn. Ég lýsi mig andvígan þessu samkomulagi.