Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:11:37 (5563)

2000-03-21 21:11:37# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:11]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er hægt að afgreiða farþega á Akureyri og á Egilsstöðum. Það sem ég er að segja er að þessi ofuráhersla á Schengen-portið í Keflavík leiðir til þess, viðskiptalega séð, að þau fyrirtæki sem hugsanlega hefðu farið í flutninga inn á Akureyri og Egilsstaði fara að sjálfsögðu um það sem á að vera hið eiginlega hlið. Þannig þróast hlutirnir. Það er að mínu mati ástæðulaust að gera þetta. Þetta eyðileggur fyrir okkur möguleikana að þessu leyti. Eins og kom fram í umræðunni er ánægjulegt ef á Egilsstöðum og Akureyri verður aðstaða til að sortera Vestur-Íslendinga frá Evrópumönnum þegar þeir koma til Akureyrar eða Egilsstaða í heimsókn. Þannig verða málin með Schengen-fyrirkomulaginu og það er öllum mönnum ljóst.

Umræðan um þessi innanríkisport og bollaleggingar um framtíð þeirra og stöðu, ef af samþykkt þessa fyrirkomulags verður, hefur ekki farið fram hér og alls ekki gagnvart höfnunum og skemmtiferðaskipunum heldur. Þar mun gerast hið sama, útgerðaraðilar skemmtiferðasskipa munu fara um aðalportið. Þannig gerast kaupin á eyrinni. Þetta eru eiginlega tæknilegar hindranir eða tæknileg stýring á eitt svæði á landinu, ef við göngum þetta skref.