Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:15:39 (5565)

2000-03-21 21:15:39# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:15]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef enga ástæðu til annars en taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni varðandi þessar bollaleggingar. Það er akkúrat þetta sem ég átti við með skipin. Ég hef sjálfur haft reynslu af því um margra ára skeið að markaðssetja landsbyggðina og reyna að ná flutningsaðilum beint þangað inn. Það verður vandkvæðum bundið miðað við þetta upplegg. Það liggur alveg himinklárt fyrir. Þó að hv. þm. kæmi með mér á skemmtiferðaskiparáðstefnuna í Flórída og gæti vélað einhvern til þess að koma með 2.000 farþega til Bolungarvíkur þá væri það ekki sjálfgefið eftir þessa breytingu.

Ég er að segja það að fyrir viðskipti á landsbyggðinni mun þetta verða til trafala. Viðkomandi flutningsaðilar munu fyrst og fremst fara inn á hinar sjálfgefnu Schengen-leiðir þar sem auðvelt er að komast að og það verður miklu erfiðara að fá menn til þess að stansa. Menn skulu ekki gera lítið úr þessu vegna þess að það er gríðarleg fjölgun einmitt á þessum vettvangi varðandi skipin. Það eru gríðarlegir möguleikar í þjónustunni vegna þess að við eigum víða fínar hafnir og það er ástæða fyrir ferðamenn að staldra við víða um land. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti að vísu á að e.t.v. yrði það skilgreint þannig að menn væru komnir inn ef þeir færu inn í Schengen-höfn og héldu sig innan 12 mílna. Sé hugsað til viðskiptanna setja menn alltaf á sig grettu ef svona atriði eru í dæminu. Þess vegna munu skipin kannski fremur koma í aðrar hafnir og þá væntanlega á þessu svæði hér.