Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:17:32 (5566)

2000-03-21 21:17:32# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, JB
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:17]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu fullgilding á samningi sem ráð Evrópusambandsins, lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna.

Ég vil byrja á því, herra forseti, að taka undir orð hæstv. utanrrh. í umræðunni fyrr í kvöld þar sem hann sagði eitthvað á þá lund að allt of fáir virtust hafa reynt að setja sig inn í Schengen-samstarfið. Hann benti á að meira að segja nafnið á þessu Schengen væri kannski ekki sérstaklega til þess fallið að laða menn að því að sökkva sér í málið. Ég held að þetta sé alveg hárrétt hjá hæstv. utanrrh. Ég held að það sé mjög alvarlegt mál þegar við á hv. Alþingi fjöllum um veigamikið mál og þýðingarmikla löggjöf. Málið snýst um afar þýðingarmikla samninga sem við erum að gera við önnur lönd og snerta alla íbúa landsins. Við getum ekki einu sinni, hér á hinu háa Alþingi, haft myndugleika til að gefa þessu íslenskt nafn.

Herra forseti. Nei, látum þetta heldur hafa innilega torkennilegt nafn. Það byrjar á ,,sch``, samstöfu sem engin hefð er fyrir í íslensku máli. (Gripið fram í: Scheving.) Já, Scheving. Það er víst alveg hárrétt hjá hv. þm. en ég geri ekki ráð fyrir að Schevingar vilji láta binda sig við Schengen eða þessu litla þorpi eins og hæstv. utanrrh. talaði um. (HBl: Það er ekki sami framburðurinn, Schengen og Scheving.) Það er aldeilis ekki sami framburðinn, það er alveg hárrétt sem hv. þingmenn segja hér. Ég er ekkert viss um að íslensk alþýða vilji tala um Schengen eins og hún talar um Scheving og er reyndar bara viss um það. Enda forðast hún að setja sig inn í þetta. Ég ítreka alveg grínlaust, herra forseti, að það ætti að vera lágmarkskurteisi gagnvart íslenskri þjóð og Alþingi að svona mál sé sett fram með íslensku heiti. Við ættum að geta rætt það á þeim grundvelli. Ég tek undir það hjá hæstv. utanrrh. að líklega fælir þetta menn frá því að setja sig inn í málið. Vonandi er það samt ekki tilgangurinn að halda íslenskri alþýðu frá því að setja sig inn í málin með því að hafa það með torkennilegu heiti, útlendu og með furðulegri stafasamsetningu. Nóg um það.

Í umræðunni í dag hefur komið fram að þetta samkomulag um að leggja niður landamæri Íslands gagnvart Evrópu er ekki aðeins ferða- og viðskiptalegs eðlis. Þetta er fyrst og fremst pólitísks eðlis. Þetta er hluti á þeirri vegferð að gera Ísland að aðildarríki Efnahagsbandalagsins, gera það að fullgildum aðila þar. Það hefur ekki farið leynt hjá mörgum ræðumönnum hér, hv. þm. í þessari umræðu. Ég held að það sé mikilvægt að þetta sé jafnframt skoðað í ljósi þess að þetta er skref á þeirri vegferð.

Varðandi kostnaðinn við að gerast aðili að þessu samkomulagi hefur komið fram að hann sé bæði hár og óviss. Menn flakka á milli hundraða milljóna og milljarða króna, ýmist innan árs eða milli ára og nefna jafnvel áratug. Það er mikið flakk og flökt á öllum kostnaðartölum í umræðunni, hvort sem það er stofnkostnaður eða rekstrarkostnaður. Það er alvarlegt og ámælisvert, herra forseti, þegar svo veigamikið mál er lagt fyrir Alþingi Íslendinga að því fylgi ekki ítarlegri kostnaðargreining.

Því hefur verið haldið fram í umræðum og ekki hvað síst af hæstv. utanrrh. að það sé líka kostnaðarlegur ávinningur að gerast aðili að þessu samkomulagi. En hvergi hafa heldur verið nefndar neinar tölur í því sambandi. Þarna er stuðst við gersamlega huglægt mat sem ekki er raunhæft. Það er ekki samboðið Alþingi að leggja málið fyrir eins og hér er gert, varðandi stofnkostnað og rekstrarkostnað. Það er alveg ljóst að kostnaður við Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli tvöfaldast, tvöfalda þarf rými svo hægt sé að flokka fólk eftir því frá hvaða álfum það kemur.

Það hefur verið rakið ítarlega hvaða áhrif þetta getur haft á ferðaþjónustuna. Ég vil taka eindregið undir orð hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar varðandi áhrif á ferðaþjónustuna vítt og breitt um landið. Auðvitað tekur þessi samningur mið af því að nánast öll umferð, millilandaflugumferð fari fram um Keflavíkurflugvöll þó svo að hægt sé í neyðartilvikum að lenda á Egilsstöðum og hleypa fólki út til að komast á klósett eða til nauðþurfta. Þar verður ekki hægt að stunda almennilegt og reglulegt millilandaflug milli álfa, hvort sem er til Evrópu eða Ameríku. Jafnframt er ljóst það mikla fjármagn sem þarf í Keflavíkurflugvöll á næstu árum gerir ekki auðsótt að sækja fjármagn til að byggja upp fullkomna millilandaflugvelli hvort sem er á Egilsstöðum, Akureyri eða Sauðárkróki. Þrátt fyrir góðan vilja okkar hv. þm. Jóns Kristjánssonar, þó við hefðum viljann, mundum við ekki eiga auðvelt með að sækja það fé. Við munum verða út undan með flugvellina á landsbyggðinni þó við höfum aðrar og betri hugmyndir. Ég tel, herra forseti, lagt upp í áætlun til næstu eins til tveggja áratuga í skipan flugvalla- og ferðamála Íslendinga. Þetta mun ráða til um millilandaflug til og frá Íslandi, hvort sem það er til Evrópu, Ameríku eða annarra heimsálfa. Þetta skal vera okkur alveg fullkomlega ljóst. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. Austurl. og Norðurl. e. sem bera hag flugvallarins á Akureyri fyrir brjósti eða hv. þm. Norðurl. v. þar sem rætt er um að gera Alexandersflugvöll að alþjóðlegum flugvelli, séu nokkuð inni í þessari umræðu um þetta Schengen-samstarf, sem heitir svo brengluðu nafni.

Ég vil líka vekja athygli á umræðunni um fíkniefni, flutningi á þeim til landsins og því eftirliti sem við getum þar beitt. Með því að gerast aðilar að þessum samningi eins og hér er gert ráð fyrir erum við að kasta fyrir róða kostunum við að búa í eyríki. Við getum aldrei orðið meginland en við getum dregið fram kosti þess að vera eyríki. Það að geta haft sterkt eftirlit t.d. með fíkniefnasmygli til landsins er kostur sem okkur ber að nýta. Það er hörmulegt að vita til þess að við ætlum að gefa þann möguleika frá okkur.

Herra forseti. Hér eru mörg atriði sem styðja það að hafna þessum samningi. Í fyrsta lagi er hann bara skref á vegferð inn í Evrópusambandið og ég, herra forseti, er andvígur því. Að bera fyrir borð stóran hluta ávinningsins af því að vera sjálfstætt ríki, frjálst til að semja á eigin forsendum við önnur lönd um ferðir til og frá landinu hvort sem er til Evrópu, Asíu, Suður- eða Norður-Ameríku, því er ég andvígur. Ég tala nú ekki um frændur okkar í Kanada sem verða, ef af þessu verður, litnir grunsemdaraugum við komuna til landsins. Nei, herra forseti. Ég er andvígur þessu.

Kannski er lausnin sú sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom hér með að gera bara Leifsstöð að Schengen-stöð en láta aðra flugvelli á landinu fá sömu stöðu og hafnirnar. Þar yrði litið eins á alla, eins og hver og einn væri að koma inn á Schengen-svæðið. Þar nytu allir jafnra réttinda. Kannski væri það leið út úr þessum ógöngum í þessum ruglingi sem hér er á ferðinni.

Virðulegi forseti. Ég er andvígur því að gerast aðili að þessum samningum.