Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:29:12 (5567)

2000-03-21 21:29:12# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:29]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get eiginlega ekki skilið það eftir í þessari umræðu að það hangi á Schengen-samningnum hvort flugvellir á Egilsstöðum og Akureyri verði millilandaflugvellir. Það kemur þessum samningi í raun ekkert við í sjálfu sér. Það eru allt aðrir hlutir sem þar hanga á spýtunni og það er auðvitað fullkunnugt. Keflavíkurflugvöllur er með svona mikla umferð vegna þess að hann er tengiflugvöllur. Það hafa verið gerðar ráðstafanir og miklar tilraunir til að fá umferð í gegnum Egilsstaða- og Akureyrarflugvöll beint frá útlöndum en Schengen-samningurinn breytir engu þar um. Það eru alveg full tök á því að afgreiða farþega af Schengen-svæðinu sem utan frá á þessum völlum eins og ég hef tekið fram. Það er algerlega ástæðulaust að mála þetta þessum litum og algerlega á skjön við umræðuna sem hér fer fram. Hv. þm. geta verið á móti þessum samningi en það verður að varast að blanda saman algerlega óskyldum atriðum.