Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:59:19 (5576)

2000-03-21 21:59:19# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:59]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki ónýtt að eiga slíkan kennara að í þingmennsku sem hv. þm. Sighvat Björgvinsson, (SighB: Ég hélt að ég þyrfti ekki að kenna ... ) að kenna mönnum hvað sé innan dagskrár og hvað sé ekki innan dagskrár að ræða. Það hefur örugglega aldrei hent hv. þm. Sighvat Björgvinsson að stíga eitt feilspor í þeim efnum, að taka nokkurn tíma fyrir í máli annað en það sem strangt tekið tilheyrir dagskránni.

Síðan þakka ég einnig fyrir það, gamall samgrh., að hv. þm. ætlar að kenna mér hvað felist í millilendingum á varaflugvöllum og vegabréfaskoðun og öðru slíku. Og ég ætla að spyrja hv. þm.: Telur hv. þm. líklegt að eftirlitsaðilar með framkvæmd Schengen-samkomulagsins tækju það gilt að millilandaflugvélar frá Bandaríkjunum með umferð utan svæðis lentu á Egilsstaðaflugvelli vegna þess að það væri ófært í Keflavík, farþegarnir færu inn í flugstöðina og þeim væri síðan komið fyrir á hótelum á Héraði, telur hv. þm. að þá þurfi ekki að fara fram vegabréfaskoðun, að þá þurfi ekki að fara fram það lögbundna eftirlit sem er forsenda þess að hleypa megi mönnum inn á Schengen-svæðið? Svarið er auðvitað jú.

Telur hv. þm. að ef áfram væri nú ófært í Keflavík og valinn yrði sá kostur að fljúga frá Egilsstöðum á Íslandi, sem er í Schengen, til London, sem er líka í Schengen, að þá yrði sú umferð ekki meðhöndluð sem innansvæðisumferð? Svarið er jú. Þá þyrfti þeirri skoðun að vera lokið áður á farþegum og uppflettingu í sameiginlega upplýsingakerfinu sem tilheyrir þátttöku í Schengen. Hér gerir hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sig því beran að miklum misskilningi og ótrúlegri vanþekkingu ef hann meinar virkilega það sem hann sagði áðan. Það fer mönnum alltaf illa sem ætla að taka að sér að kenna öðrum að kunna ekkert í fræðunum sjálfir. Það endar yfirleitt illa.