Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 21:59:25 (5577)

2000-03-21 21:59:25# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[21:59]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég reikna með að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi svipaða reynslu af því að millilenda á flugvelli og dvelja þar um skamma hríð vegna þess að aðalflugvöllur hafi verið lokaður vegna veðurs. Á slíkum flugvöllum fer aldrei tollafgreiðsla fram, aldrei. Á þeim flugvöllum sem eru þannig undirbúnir að þeir geti tekið á móti transit-farþegum fara slíkir farþegar beint í transit án þess svo mikið sem fara í gegnum vegabréfaskoðun, hvað þá heldur tollskoðun.

Hvernig dettur hv. þm. í hug að ef svo skyldi fara að flugvél frá Bandaríkjunum þyrfti að lenda á Egilsstaðaflugvelli vegna þess að Reykjavíkurflugvöllur væri lokaður eða Keflavíkurflugvöllur öllu heldur, að þá mundu menn bara labba þar í land, taka sitt hafurtask og fara niður á Fjörður.

[22:00]

Ég hef sjálfur þurft að millilenda vegna veðurs á flugvöllum þar sem var ekki transit-afgreiðsla. Það mál var leyst einfaldlega þannig að þá voru vegabréfin tekin af farþegunum þegar þeim var komið fyrir á hótelum. Þannig eru mörg dæmi um það hvernig svona mál eru leyst. En það er alveg fráleitt að í þessu stærsta utanríkismáli Íslendinga skuli menn vera að rífast um það hvernig eigi að meðhöndla það ef þrjár vélar frá Ameríku millilenda á Egilsstöðum. Að hugsa sér, virðulegi forseti, að þetta skuli vera umræðuefni hér. Og svo segja menn, ja, því miður, öll þessi fjárfesting á Egilsstaðaflugvelli nýtist ekki nægilega vel. Vilja menn þá fjárfesta meira þar? Vegna þess að gæti verið að einhver flugfélög frá Ameríku mundu einhvern tímann, kannski einu sinni á ári eða annað hvert ár þurfa að millilenda þar? Egilsstaðaflugvöllur virðist allt í einu vera orðinn einn aðalmillilandaflugvöllur í Ameríkufluginu fyrir Evrópu. (Gripið fram í: Gott ef væri.) Gott ef væri, gott ef væri. En þetta, herra forseti, þó að ég ætli ekki að fara að setjast í einhvern kennarastól, er ekki uppbyggileg umræða. Og að byggja andstöðu sína við Schengen-samninginn á svona röksemdafærslu finnst mér vera fyrir neðan virðingu jafnágæts, gáfaðs og reynds þingmanns og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.