Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:20:14 (5584)

2000-03-21 22:20:14# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 2. minni hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:20]

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 13. þm. Reykv. sagði að það væri rökrétt af þeim sem hefðu stutt EES að styðja Schengen-samkomulagið. Það er algerlega rangt. EES-samningurinn gekk út á tvennt, aukna pólitíska samvinnu í Evrópu og það að auðvelda efnahagsstarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu. Schengen-sáttmálinn er vissulega skref í þá átt að auka pólitíska samvinnu í Evrópu. En Schengen-samstarfið hefur í för með sér auknar byrðar á atvinnulífið. Enginn hefur a.m.k. haldið því fram í mín eyru af fullri alvöru að þetta samstarf muni leiða til þess að t.d. hagvöxtur muni aukast. Það er að vísu líklegt að það muni hleypa dálitlu lífi í byggingarstarfsemi á suðvesturhorninu með miklum framkvæmdum suður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og það er líka vitað að þetta mun hleypa nokkru lífi í eftirlitsstarfsemi á þessu svæði. En það er út af fyrir sig ekki vegna Schengen-samstarfsins heldur vegna þess að menn hafa tekið um það ákvörðun að reyna að auka alþjóðlegt samstarf um varnir gegn glæpum. Schengen-samstarfið er þess vegna í raun fyrst og fremst pólitískt samstarf sem mun hafa í för með sér auknar byrðar fyrir atvinnulífið, t.d. ferðaþjónustuna. Þess vegna, virðulegi forseti, eins og ég rakti í máli mínu fyrr í dag, er þessi Schengen-niðurstaða, að mínu mati, mikið stílbrot á Evrópuhugsjóninni vegna þess að um leið og hún felur í sér kröfu um aukna pólitíska samvinnu felur hún það líka í sér að byrðarnar á atvinnulífið aukast. Það er af þessum ástæðum sem sá sem hér stendur mun ekki styðja þessa þáltill. og mun þess vegna skila auðu við atkvæðagreiðsluna.