Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:23:12 (5586)

2000-03-21 22:23:12# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 2. minni hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:23]

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi skrifað það alveg rétt niður eftir hv. þm. að hann teldi það vera rökrétt framhald af afstöðu þeirra sem studdu EES-samstarfið að lýsa stuðningi við Schengen-niðurstöðuna. Ég var að reyna að koma nokkrum orðum að því og rökum að svo væri ekki, í raun væri Schengen-samstarfið á vissan hátt stílbrot í hugmyndafræðinni á bak við Evrópuhugsjónina. Evrópuhugsjónin er að mínu mati eitt glæsilegasta hugmyndafræðilega afrek sem sett hefur verið fram á vissan hátt sem svar við miklum hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar og blés mönnum auðvitað ákveðnar væntingar í brjóst.

Við skulum aldrei gleyma því að grundvöllurinn að þessari hugmyndafræði var líka efnahagslegur og megingallinn við þetta mikla fírverk sem Schengen-samstarfið er, er auðvitað að það gerir ráð fyrir því að auka byrðar í mjög mikilvægri atvinnugrein sem ferðaþjónustan er. Það er eingöngu þetta sem ég vildi hafa sagt vegna þess að ég tel að það sé grundvallaratriði um þetta mál allt saman og er grundvöllurinn að þeirri afstöðu sem ég hef tekið í þessu máli.