Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:25:31 (5588)

2000-03-21 22:25:31# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:25]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það er eiginlega með hálfum huga að ég nýti mér síðasta rétt minn til þess að fara í ræðustólinn og taka upp mál sem hér hefur aðeins borið á góma en ég tel þó að eigi erindi inn í þessa umræðu og áhugaverð skoðanaskipti sem hér hafa orðið upp á síðkastið og urðu reyndar að hluta til fyrr í dag um eðli þessa samnings sem við erum að gera. Það verður bara að hafa það þó að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson komi upp á eftir og telji að það sé ekki við hæfi að blanda þessu inn í umræðuna. En ég ætla að færa rök fyrir því að það geri það engu að síður.

Ég er alveg sammála því sem hér var rætt áðan og kom í raun fram hjá hæstv. utanrrh. fyrr í dag að grundvöllur þessa samstarfs er fyrst og fremst pólitískur. Flest af stóru verkefnunum og áföngunum sem hrint hefur verið í framkvæmd í Evrópusamvinnunni núna síðustu 10--15 árin eru fyrst og fremst drifin áfram af pólitísku hugsuninni um samrunaferlið í Evrópu. Það er þannig. Ég sat á ráðstefnu fyrir nokkrum vikum síðan þar sem ágætir stjórnmálafræðingar og hagfræðingar ræddu m.a. um upptöku sameiginlega gjaldmiðilsins, tilkomu evrunnar og evrópska seðlabankans og þeir sögðu að hagfræðingar í Evrópu væru flestir sammála um að evran sé ekki fyrst og fremst hagrænt mál heldur pólitískt. Fyrir upptöku hins sameiginlega gjaldmiðils og tilkomu seðlabankans og sameiginlegrar efnahagsstefnu má færa bæði rök með og á móti frá hagrænu sjónarmiði, ekki síður á móti. En það er augljóst að það er mjög stór áfangi í áttina að sameiginlegu ríki að taka upp einn gjaldmiðil, að taka upp einn seðlabanka. Sama á auðvitað við hér. Það er í sjálfu sér ekki stórt hagrænt mál hvernig þessum hlutum er hagað að öðru leyti en því að það hlýst af þessu kostnaður, þessu brambolti á ytri landamærum. En það er mjög stórt skref í áttina að ríki að leggja niður innri landamæri og efla eftirlitið á ytri landamærum ríkisins. Ætli menn þekki það ekki. Á hverju hefur það byggst í gegnum tíðina í sögunni að þjappa mönnum saman í ríki og láta þá fá þá tilfinningu að þeir eigi saman? Með því að leggja niður landamærin, auka samskiptin innan ríkisins en girða svo í kringum það, reisa múra eða eitthvað annað. Þeir kunnu það Kínverjarnir og Evrópusambandið virðist kunna ýmislegt fyrir sér í þessu líka.

Ef við lítum yfir hvað hefur verið að gerast þarna, þá er það hverjum manni ljóst að þarna er nýtt sambandsríki á hraðri uppsiglingu og til þess hafa menn verið að breyta nafngiftum. Það sem áður hét bandalag heitir nú samband o.s.frv.

Hvað hefur gerst að undanförnu og hvað er í sjónmáli? Ef við bara örstutt, herra forseti, leyfum okkur nú, líka með tilliti til þess að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er ekki í salnum, að fara yfir það. Jú, það er búið að búa til einn sameiginlegan markað með frjálsri för fólks, viðskiptum og varnings og þjónustu. Það er búið að taka upp sameiginlegan gjaldmiðil og hann er að komast í notkun. Það er verið að leggja niður innri landamæri og auka eftirlitið á ytri landamærunum. Það er verið að koma upp sameiginlegri varnarstefnu. Og hvað er það yfirleitt sem menn nota til að skilgreina ríki ef það er ekki akkúrat þetta? Þetta er allt að verða komið og þess vegna er það auðvitað þannig að samkvæmt öllum venjulegum skilgreiningum er Evrópusambandið núna að verða komið mjög langt í áttina að því að flokkast sem sambandsríki. Eitt dæmi enn um það sem þarna hefur breyst: Fyrir eins og tíu árum síðan töluðu utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkjanna hver fyrir utanríkisstefnu síns ríkis, t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Farið þangað í dag, mætið á alþjóðlegar ráðstefnur og þar sitja --- hvað eru þeir orðnir margir núna? 12 voru þeir einu sinni, 15, eða hvað þeir eru núna --- þögulir, frekar álútir utanríkisráðherrar. Svo kemur sá sem fer með málin hjá framkvæmdastjórninni og talar fyrir hönd ríkjanna. Þarna hefur einnig orðið á grundvallarbreyting.

[22:30]

Þess vegna er alveg hárrétt að setja þennan gjörning í þetta samhengi. Það að innlima Schengen-gerðirnar, sem fram að þeim tíma voru aðeins samstarf fimm ríkja, inn í Evrópuréttinn var auðvitað mjög stórt skref sem hefur í rauninni fengið allt of litla athygli hér. Og þess vegna á að taka grundvallarspurninguna um aðild okkar eða ekki aðild að þessu upp í því samhengi, að þetta er líka spurning um hvað við ætlum okkur í sambandi og samskiptum við þetta sambandsríki sem þarna er að renna upp.

Ætlum við að verða þar aðilar eða ætlum við ekki að verða það? Og ef við ætlum ekki að verða það, eins og málin liggja fyrir í dag, eigum við að móta okkur þá stefnu að gæta hagsmuna okkar með hliðsjón af því. Ekki með því að segja okkur úr Evrópu, ekki með því að hætta að tilheyra Norðurlöndunum, ekki með því að hætta að versla við þessar þjóðir eða hætta að ferðast þangað. Nei, heldur gera það á öðrum grunni, byggja þau samskipti upp á þeirri forsendu að Ísland ætli ekki að verða aðili að Evrópusambandinu en eiga mjög gott samband og samstarf, samvinnu og viðskipti við það, og halda áfram að tilheyra Evrópu.

Ég sé enga mótsögn í þessu og engin vandamál þessu samfara. Þetta er bara spurning um að marka stefnuna. Og það er af ýmsum ástæðum mjög mikilvægt að við gerum það og höfum þetta eins skýrt og kostur er. Af hverju? Jú, vegna þess að núverandi ástand skapar óvissu. Það eru í rauninni allir tvístígandi. Menn eru tvístígandi vegna þess að margir vita ekki hvort þeir eigi að reikna með því að innan átta, tíu, fimmtán ára verðum við þarna innan borðs eða ekki og við þær aðstæður er erfitt að fóta sig á einhverri línu til að fylgja og gæta hagsmuna sinna samkvæmt. Það er það óæskilega við ástandið eins og það er í dag. Það er óheppilegt fyrir stjórnmálalífið, fyrir atvinnulífið, fyrir félagasamtök og aðra sem þurfa að gæta hagsmuna sinna í þessu sambandi að þetta skuli vera í þeirri biðstöðu sem raun ber vitni. Yfirlýsingar eru þokukenndar, menn slá úr og í, alls konar táknmál er komið í loftið í þessum efnum þar sem algengasti frasinn er: Við verðum að skoða þetta allt saman með mjög opnum huga, Evrópa er að breytast og við verðum að fylgjast með því. Það er tuggið ofan í okkur ár frá ári eins og stórtíðindi að heimurinn taki breytingum. Síðan hvenær varð það frétt? (JónK: Það veitir ekki af.) Nei, það virðist ekki veita af að tyggja það. Ég hef bara alltaf reiknað með því í þessi 43 ár sem ég hef lifað, frá því að ég fór að hafa einhverja meðvitund hef ég séð að hlutirnir breytast í kringum mig og ég er hluti af hinu síbreytilega umhverfi. Þó að þetta kunni að koma hv. þm. Jón Kristjánssyni spánskt fyrir sjónir, þá er þetta nú samt svona.

Fyrir mér er þetta engin speki, ég fylgist ágætlega með stjórnmálaframvindu í Evrópu og veit að þar er ýmislegt að gerast. Það breytir engu um hitt að við Íslendingar þurfum að hafa áherslur okkar eins skýrar í þessum efnum og kostur er. Og það er auðvitað svolítið sorglegt, herra forseti, að við skulum akkúrat núna, fáeinum vikum áður en hæstv. utanrrh. skilar væntanlegri skýrslu um úttekt á stöðu mála, þurfa að loka þessu stóra máli úr því að það er jafnseint á ferðinni hvort sem er og raun ber vitni. Ég hefði kosið að við hefðum eftir mikla og málefnalega umræðu um stöðu Íslands í þessu sambandi, eftir nokkurra mánaða ferli í þeim efnum getað þá frekar lent þessu í kjölfarið, þegar vonandi væru komnar skýrari línur um það í hvað stefni í þessum efnum fyrir Íslands hönd.

Ég tel mjög mikilvægt að menn reyni að ganga frá því fyrr en síðar, til a.m.k. næstu nokkurra ára og um einhverja fyrirsjáanlega framtíð, hvernig við Íslendingar ætlum að halda á hagsmunum okkar í samskiptum við þetta stóra og mikilvæga markaðssvæði og nágrannasvæði sem Evrópa er. Það er ekki skynsamlegt eða heppilegt að hafa hlutina meira og minna í þoku og í óvissu og biðstöðu, eins og þetta hefur verið og við verðum bara að horfast í augu við að er staðreynd. Þannig er það.

Það versta er kannski, herra forseti, að maður hefur það stundum á tilfinningunni að af einhverjum ástæðum þori menn ekki alltaf að tala hreint út í þessum efnum, þori í rauninni ekki að segja hug sinn. Og á bak við fyrirsagnirnar um að skoða verði þetta allt með mjög opnum huga og að Evrópa sé að breytast, leynist stundum uppgerður hugur manna um að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Af hverju segja menn það þá ekki? Við gætum þá rökrætt það út frá þeim grundvelli. Það væri miklu heppilegra.

Menn geta jú skotið sér á bak við það að ýmislegt sé óljóst í þessu enn þá, en er það? Liggur ekki í aðalatriðum allt fyrir sem þarf að liggja fyrir um hvað því væri samfara fyrir Ísland að ganga inn í Evrópusambandið? Ég held það. Ég held að það sé 95% klárt í raun og veru um hvað þetta mál komi til með að snúast. Því tel ég að það sé líka pínulítill feluleikur að það þurfi að skoða þetta svona óskaplega mikið og allt það.

Norðmenn telja það ekki. Norðmenn sögðu fyrir nokkrum árum þegar búið var að fella aðild Noregs að Evrópusambandinu í annað sinn: Þar með er þetta mál afgreitt hjá okkur næstu tíu árin eða svo. Þá þegar var ákveðið að það yrði í öllu falli ekki fyrr en á þriðja kjörtímabili Stórþingsins þaðan í frá sem menn færu í gang með að ræða á nýjan leik stöðu Noregs í þessu sambandi og það hefur haldið í öllum aðalatriðum. Það vottar að vísu fyrir umræðu þar núna en samt er ekki reiknað með því að fyrr en að afloknum næstu stórþingskosningum í Noregi fari menn í raun og veru að velta þessum málum eitthvað upp á nýjan leik. Það er þó búin að vera sú festa í þessu af hálfu Norðmanna sem því hefur verið samfara, en ég tel að hér á Íslandi hefði mátt standa betur að málum. (Gripið fram í.) Já, það má kannski segja sem svo að hæstv. forsrh. hafi þó þrátt fyrir allt með yfirlýsingum sínum, sem menn hafa nú reynt mikið að gera grín að, um að aðild væri ekki á dagskrá hér skapað þó þá festu í málinu sem fyrir hendi hefur verið við núverandi valdahlutföll í landinu, og það er vel. Það hefur ekkert staðið á okkur sem erum hæstv. forsrh. sammála í þeim efnum að hrósa honum fyrir það, og ég er tilbúinn til að gera það hvar og hvenær sem er að hann má eiga það sem hann á í þeim efnum.

Það gildir ekki um suma aðra. Það er t.d. alveg greinilegt að milli núverandi stjórnarflokka er áherslumunur í þessu máli. Ég tel að hæstv. utanrrh. hafi keyrt þetta Schengen-mál fastar fram en ella væri vegna þess að hann sé lengra kominn í hugrenningum sínum um mögulega nálgun Íslands við Evrópusambandið á komandi árum. Það er mat mitt á framgöngu og yfirlýsingum hans undanfarin ár. Ég tel það mjög miður að hæstv. utanrrh. skyldi t.d. ekki, þegar lagt var upp í þetta ferli 1995, halda öðrum möguleikum opnari en þeim að Ísland og eftir atvikum hin Norðurlöndin, Noregur eða öll hin Norðurlöndin reyndu að ná fram a.m.k. samhliða öðrum mögulegum lausnum en þessari sem hér hefur nú verið landað, sem kölluð er samningsniðurstaða. Ég tel að þar hefði mátt vinna með opnari huga að hlutunum. Svo ekki sé nú minnst á afstöðu a.m.k. sumra talsmanna Samfylkingarinnar sem reyndar blönduðu sér inn í þessar umræður áðan á mjög sérkennilegan hátt.

Herra forseti. Ég tel að þetta hafi í sjálfu sér verið hin þarfasta umræða og þó meiri hefði verið. Einhvern tíma hefur nú verið haldinn kvöldfundur á Alþingi af minna tilefni en því sem hér er rætt um og ekki tel ég það eftir mér að halda umræðunni eitthvað áfram og ég veit að það gildir líka um hæstv. virðulegan forseta okkar. Staðreyndin er auðvitað sú að það sem að er í þessu máli er m.a. að ekki hefur fengist í gang nein almennileg grundvallarumræða um þessi stóru mál. Það er þá helst að örlað hafi fyrir henni á köflum hér í dag og í kvöld, og það er vel. En hún hefði þurft að fara fram bæði fyrr, meir og víðar og út um allt þjóðfélagið, því hér erum við með eitt af þessum stóru málum í höndunum sem mun marka afgerandi stöðu Íslands í þessu samhengi á komandi árum og jafnvel áratugum. Það er þannig, því verður ekki á móti mælt.

Í nágrannalöndunum hefur gildistaka eða fullgilding þessara Schengen-gerða verið stórmál og því hafa fylgt miklar umræður á þjóðþingum annars staðar á Norðurlöndunum og reyndar líka í Evrópu. Í franska þinginu var þetta mál fyrirferðarmikið og í Frakklandi hafa orðið miklar umræður um þetta og Frakkar hafa á köflum verið með böggum hildar yfir því, þó að þeir séu í miðri Evrópu, að láta þetta ganga í gegn hjá sér, af ýmsum sömu ástæðum og hér hefur verið hreyft sem áhyggjuefni eða álitamálum í þessu sambandi.

Herra forseti. Ætli ég láti þetta ekki nægja tímans vegna eins og maður segir. Þetta er að verða ágætt, nú hallar kvöldi. En ekki tel ég það eftir mér að vera hér lengur viðstaddur umræðuna og teldi reyndar fulla þörf á því að hún héldi áfram og það er nokkur ágalli á henni, þó að ég viti af hvaða ástæðum það er að hæstv. utanrrh. hefur ekki verið viðstaddur í kvöld og reyndar ekki heldur formaður hv. utanrmn., og það hefði gjarnan mátt haga betur til með skilyrði fyrir þessa umræðu hér í dag og í kvöld.