Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 22:47:11 (5592)

2000-03-21 22:47:11# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[22:47]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mér er nær að halda að hv. þm. hafi verið að ramba á nýyrði, ,,pólitískar atkvæðaveiðar``. Ég hef aldrei heyrt um ópólitískar atkvæðaveiðar. Ef menn eru í stjórnmálum eru menn yfirleitt á höttum eftir stuðningi og atkvæðum og það hlýtur að teljast pólitík.

Varðandi það að engir hafi lagt til eða haft það sem beina stefnu að við Íslendingar gengjum inn í Evrópusambandið er það að vísu umdeilanlegt. Það stappaði mjög nærri að Alþfl. blessaður gerði það að flokksstefnu sinni, a.m.k. að sótt skyldi um aðild, látið á það reyna hvað okkur byðist. Það var í anda þeirrar hugmyndafræði að það væri hægt að fara svona og reka inn nefið og tékka á því hvernig mönnum yrði tekið án nokkurra skuldbindinga, sem síðan hefur auðvitað verið hrakið. Menn sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu upp á grín til þess að tékka á því hvað þeim bjóðist. Það er ekki þannig.

En langleiðina var það þannig að Alþfl. var með þetta á stefnuskrá sinni og hann uppskar ekki mikið eins og kunnugt er í því efni. Nú verður að vísu að viðurkennast að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar í Noregi var nánast eitt, eins og --- ef ég má, herra forseti --- segir í textanum ,,andskotans reiðarslag`` fyrir Alþfl. því enginn vafi er á því að það var í bígerð að keyra á það, í kjölfar þess að Norðmenn hefðu samþykkt aðild, að Íslendingar ættu að gera það einnig. En svo fór nú ekki sem betur fór.

Við skulum síðan bíða og sjá hvað Samfylkingin ákveður sem flokksstefnu í þessum efnum en það glyttir nú í það, a.m.k. hjá ungliðahreyfingunni, að þetta eigi að verða flokksstefnan.

Ég vona að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi rétt fyrir sér. Ég yrði manna glaðastur ef út úr stöðuskýrslunni kæmi skýr leiðsögn um að það væri ekki fýsilegur kostur fyrir okkur Íslendinga að reikna með aðild að Evrópusambandinu um fyrirsjáanlega framtíð eða eins og aðstæður eru nú. Þá væri komin, skulum við segja, viðbótarröksemd til að gera það sem ég hef verið að leggja áherslu á, að setja málið niður til einhvers tíma, segja við íslenskt atvinnulíf, Verslunarráðið, Samtök atvinnulífsins, félagasamtök og fyrirtæki: Svona verður þetta og nú skulum við gæta hagsmuna okkar á þessum grundvelli.