Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:02:35 (5597)

2000-03-21 23:02:35# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:02]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu mun þessi kostnaður verða greiddur af skatttekjum. Ég vona að ferðaþjónustan sé það öflug að hún geti borgað skatta eins og aðrar atvinnugreinar. Það sem átt var við með að kostnaður mundi ekki lenda á ferðaþjónustunni var að ekki yrðu lögð sérstök gjöld á ferðaþjónustuna vegna þessa. Þar var ekki átt við að ferðaþjónustan greiddi ekki skatta. Að sjálfsögðu verður þetta greitt af skatttekjum. Það gefur augaleið og þarf ekki að hafa mörg orð til að útskýra það.

Varðandi fjárfestingarnar í Leifsstöð þá get ég alveg fallist á efri mörkin, að þetta kosti 900 millj. til milljarð kr. Við skulum bara fallast á það. Það er tæplega einn þriðji hluti af þeirra framkvæmda sem áformaðar eru í fyrsta áfanga verksins. Ég verð að segja að mér blöskrar það ekkert í slíkum stórframkvæmdum og slíkum umsvifum sem þarna eru. Þau eru gríðarlega mikil og munu auka tekjur þjóðarinnar verulega á næstu árum, menn skulu ekki gleyma því. (ÖJ: Auka tekjur þjóðarinnar, hvernig?) Maður verður nú eiginlega alveg orðlaus af hagfræði hv. þm. ef hann heldur að viðbót upp á milljón ferðamenn muni ekki auka tekjur þjóðarinnar. Tekjur af ferðamönnum núna eru 30 milljarðar kr., svo hváir hv. þm. (ÖJ: Ákveða menn að koma til Íslands út af passaskoðun?) (Forseti hringir.) Ég er gáttaður á málflutningi hv. þm. (Forseti hringir.) og því hve þessi peningamál öll virðast hringla í höfði hans. Það er greinilegt að hann ber ekki skynbragð á tekjuöflun þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Nú hringir hæstv. forseti svo ég ætla að hætta.