Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:06:52 (5599)

2000-03-21 23:06:52# 125. lþ. 83.4 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:06]

Frsm. 1. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég kom einmitt inn á þennan þátt sem hv. þm. gerði hér að umtalsefni í nál. mínu. Ég tíni þar fram sem einn af fjórum kostum sem hugsanlega megi sjá við aðild okkar að Schengen-samstarfinu, að menn reyni þá að auglýsa stöðu Íslands og þá sérstaklega Keflavíkurflugvallar, að þar sé þægilegt að koma inn á Schengen-svæðið. Ef innstæður verða fyrir því að þar verði fljótlegt að fara í gegnum eftirlitið og það gangi hratt fyrir sig o.s.frv., þá getur vel verið að það nýtist mönnum í einhverju tilliti. En það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum og áhyggjur manna eru líka miklar yfir því að það geti snúist upp í andhverfu sína, orðið þröskuldur og valdið það miklum töfum í skiptikerfinu að það setji allt úr skorðum.

Varðandi afstöðu Flugleiða þá man ég eftir því sem þessir ágætu starfsmenn Flugleiða sem mættu þarna fyrir hönd fyrirtækisins sögðu. En við skulum líka minnast hins sem er í umsögn fyrirtækisins Flugleiða, að þar eru slegnir margir varnaglar við þeim áhættum sem fyrirtækið Flugleiðir og fleiri aðilar í ferðaþjónustunni augljóslega sjá í þeim mikla kostnaði sem verður þessu samfara. Flugleiðamenn vísa aftur og aftur í yfirlýsingar og loforð ráðherra um að kostnaðinum verði ekki velt yfir á notendur. Það er greinilega á þeim grundvelli sem þeir byggja afstöðu sína og sætta sig við niðurstöðuna, enda kannski ekki mikið annað að gera í þeirra tilviki þegar búið var að taka um þetta pólitíska ákvörðun en að gera það besta úr hlutunum. En það þarf ekki að lesa umsögn Flugleiða mjög vandlega til þess það sjá að á þeim bæ hafa menn líka miklar áhyggjur af því að þetta muni ekki halda og að smátt og smátt muni hneigst til að velta þessum kostnaði yfir á notendurna. Sama kemur fram í umsögn Ferðamálaráðs og fleiri aðila sem við vorum í sambandi við út af þessum þætti málsins.