Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:09:27 (5600)

2000-03-21 23:09:27# 125. lþ. 83.5 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:09]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Já, virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. allshn. um frv. til laga um Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi. Þetta frv. er eitt af þremur frv. sem nefndin hefur haft til umfjöllunar vegna lögfestingar nauðsynlegra ákvæða vegna fyrirhugaðrar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið ýmsa menn á sinn fund. Einnig fóru nefndarmenn ásamt hv. utanrmn. í heimsókn í flugstöð Leifs Eiríkssonar, kynntu sér fyrirsjáanlegar breytingar á flugstöðinni og funduðu með hagsmunaaðilum tengdum málinu. Nefndinni bárust einnig umsagnir frá ýmsum aðilum sem nefndir eru í nál.

Frv. fjallar um rekstur Schengen-upplýsingakerfisins hér á landi. Rekstur þess er mikilvægur þáttur Schengen-samstarfsins en upplýsingakerfinu er ætlað að styrkja eftirlit á ytri landamærum og gera lögregluyfirvöldum kleift að viðhalda öryggi innan aðildarríkjanna samhliða því að persónueftirlit er afnumið á innri landamærum. Schengen-samstarfið er uppbyggt á þann hátt að hvert aðildarríkjanna starfrækir staðbundið upplýsingakerfi eða landseiningu þar sem upplýsingar frá öllum aðildarríkjum eru varðveittar. Til stuðnings staðbundnu kerfunum er tæknileg stoðeining í Strassborg í Frakklandi sem annast miðlun upplýsinga aðildarríkjanna hvers til annars með beinlínutengingu svo að tryggt sé að gagnasöfn landseininganna samsvari hvert öðru. Upplýsingar sem skráðar eru í landskerfi aðildarríkis fara þannig í landskerfi allra aðildarríkja samstarfsins í gegnum stoðeininguna í Strassborg en aðildarríki sem skráir upplýsingar inn í kerfið ber ábyrgð á skráningunni. Frv. fjallar eins og áður sagði um rekstur landseiningarinnar á Íslandi, þar sem m.a. er kveðið á um hvað má skrá í kerfið, í hvaða tilvikum og hversu lengi upplýsingar mega standa. Settar eru reglur um hverjir skuli hafa aðgang að upplýsingunum og um ábyrgð á skráningu þeirra í kerfið. Jafnframt er tölvunefnd falið almennt eftirlit með því að skráning og meðferð persónuupplýsinga í upplýsingakerfinu sé í samræmi við lög og reglur.

Nefndin ræddi allítarlega 5.--8. gr. frv. Í 5. gr. er tilgreint hvaða upplýsingar skrá má í upplýsingakerfið. Í a--j-lið 1. mgr. er talið upp hvað heimilt er að skrá í kerfið og eru þessir liðir í samræmi við a--j-lið 3. mgr. 94. gr. Schengen-samningsins frá 19. júní 1990 um framkvæmd Schengen-samkomulagsins. Jafnframt kemur fram í 4. gr. frv. að í upplýsingakerfið skuli aðeins skrá upplýsingar sem um getur í 5. gr., enda sé skráningin nauðsynleg með hliðsjón af tilgangi skráningar skv. 6.--8. gr. frv. og tilefni til skráningar nægjanlega brýnt. Tilefni til skráningar þarf að vera nægjanlega brýnt --- þetta er mikilvægt atriði. Samkvæmt þessu er óheimilt að skrá aðrar upplýsingar en heimilað er í 5. gr. og því t.d. óheimilt að skrá kennitölur einstaklinga í kerfið.

Það kom skýrt fram í meðferð nefnarinnar að upptalning sú sem kemur fram í 5. gr., sbr. 6.--8. gr., frv. er tæmandi. Ekkert annað má skrá en þar kemur fram.

Skv. i--lið 1. mgr. 5. gr. má skrá ástæður fyrir skráningu skv. 6.--8. gr. Með hliðsjón af því að þær upplýsingar sem skrá má um einstaklinga í upplýsingakerfið teljast viðkvæmar persónuupplýsingar og því að þær mega ekki standa lengur en þörf krefur, sbr. 1. mgr. 17. gr., telur nefndin að ástæðu fyrir skráningu skv. i--lið verði að skrá í öllum tilvikum. Segja má að orðalag 3. mgr. 94. gr. Schengen-samningsins styðji þetta enn frekar en þar segir að upplýsingar um einstaklinga skuli takmarkaðar, m.a. við ástæðu fyrir skráningu. Jafnframt telst ekki þurfa að skrá jafnítarlega upplýsingar t.d. þegar leitað er að vitni samkvæmt d-lið 1. mgr. 6. gr. og þegar leitað er eftir eftirlýstum manni samkvæmt a-lið 1. mgr. sömu greinar. Þannig verði ekki skráðar meiri upplýsingar en nauðsyn beri til í kerfið, annað geti leitt til bótaábyrgðar samkvæmt 16. gr. frv.

Í umfjöllun nefndarinnar hefur komið fram sú gagnrýni að einstök ákvæði frumvarpsins séu of óljós og opin. Má þar sem dæmi nefna h-lið 1. mgr. 5. gr. þar sem heimilað er að skrá hvort viðkomandi er ofbeldishneigður. Þetta var nokkuð mikið rætt í nefndinni og mat hennar var að mjög sterk rök verði að vera fyrir slíkri skráningu, t.d. að viðkomandi hafi hlotið dóm sem dæmi fyrir ofbeldisbrot. Það verða að vera vísbendingar um að viðkomandi sé ofbeldishneigður, ekki getgátur.

[23:15]

Nefndarmenn ræddu sérstaklega um heimildir tölvunefndar til að sinna eftirliti með upplýsingakerfinu. Frv. gerir ráð fyrir að tölvunefnd verði eftirlitsaðili kerfisins hér á landi. Hins vegar er gert ráð fyrir að eftirlit með upplýsingakerfinu verði nokkuð frábrugðið eftirliti nefndarinnar með öðrum gagnagrunnum. Þannig er tölvunefnd t.d. ekki falið að kveða upp úrskurð í ágreiningsmálum heldur verður það á hendi ríkislögreglustjóra. Úrskurði hans má kæra til dómsmrh. Þetta er í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttarins um kæruleiðir. Með hliðsjón af hlutverki tölvunefndar telur nefndin rétt að ríkislögreglustjóri óski eftir umsögn tölvunefndar þegar ágreiningsmál koma til kasta hans.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, og ég ætla að fara aðeins í þær.

Samkvæmt c-lið 10. gr. verður skráningarstofa ökutækja beinlínutengd við upplýsingakerfið til að kanna hvort vélknúin ökutæki, eftirvagnar eða hjólhýsi séu skráð í upplýsingakerfið. Schengen-samningurinn tiltekur hins vegar hverjir megi leita beint að upplýsingum í upplýsingakerfinu og aðili á borð við skráningarstofu ökutækja er ekki þar á meðal. Nefndin leggur því til að c-liður falli brott og að b-liður 19. gr. breytist í samræmi við það.

Nefndin telur að fyrningarfrestur bótakröfu samkvæmt 16. gr. sé of knappur og leggur til að hann verði lengdur í tvö ár. Er þetta í samræmi við það sjónarmið að þegar réttur þess, sem verður fyrir tjóni, til að leita réttar síns er bundinn tímatakmörkunum skuli sá frestur ekki vera of skammur. Með tilliti til þessa og ef um viðkvæmar persónuupplýsingar kunni að vera þykir rétt að lengja frestinn frá því sem kveðið er á um í 16. gr. frv. úr einu ári í tvö ár.

Að mati nefndarinnar er gildistökuákvæði frv., þ.e. 20. gr. þess, ekki nægilega skýrt. Töluverð umræða varð um gildistökuákvæðið, bæði í tengslum við þetta frv. og líka það frv. sem er hér síðar á dagskrá um bandorm sem tengdur er Schengen-samstarfinu. Með því að heimila dómsmrh. að ákveða hvenær lögin öðlist gildi er verið að framselja heimild löggjafans til að ákvarða um gildistöku laga. Við meðferð málsins kom fram að hér er um að ræða sérstakt vandamál þar sem ekki liggur fyrir hvenær Ísland muni hefja þátttöku í Schengen-samstarfinu. Tekið er fram í greinargerð að fyrirhugað sé að Norðurlöndin hefji þátttöku haustið 2000, og nú er hugsanlega verið að ræða um marsmánuð 2001. Eftir því hvernig undirbúningi miðar, segir í grg., getur þó verið nauðsynlegt að fresta þátttökunni og af þeirri ástæðu var lagt til að ráðherra ákveðið hvenær lögin öðlist gildi.

Á fund nefndarinnar kom m.a. Páll Hreinsson og í máli hans kom skýrt fram að ákvæðið eins og það er í frv. brýtur ekki í bága við stjórnarskrána og að jafnframt væri til bóta ef bætt yrði í greinina eins og hún stendur í frv. að lögin yrðu birt í A-deild Stjórnartíðinda. Hins vegar kom einnig fram í máli hans að slíkt valdframsal löggjafans á að vera algjör undantekning.

Það var því mat nefndarinnar að þrátt fyrir að þetta gildistökuákvæði frv. standist stjórnarskrá sé ákvæðið óheppilegt. Hér er um að ræða algera undantekningu frá því sem almennt tíðkast og ekki í samræmi við þá lagahefð sem skapast hefur hér á landi að Alþingi ákveði hvenær lög sem það hefur samþykkt öðlist gildi. Vegna almenns réttaröryggis verður að vera skýrt hvenær og með hvaða hætti lög taka gildi og ekki hvað síst að þau séu birt með lögformlegum hætti svo almenningur geti kynnt sér efni þeirra.

Undirbúningur fyrir þátttöku Íslands í Schengen-sam\-starf\-inu stendur yfir og til þess að honum verði eðlilega fram haldið, m.a. með móttöku gagna og ýmissa upplýsinga frá öðrum aðildarríkjum, verða ákvæði Schengen-samningsins að hafa verið lögfest hér á landi. Leggur því nefndin til að lögin öðlist þegar gildi.

Jafnframt eru lagðar til málfarsleiðréttingar á 6. og 12. gr.

Herra forseti. Hv. allshn. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.