Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:20:37 (5601)

2000-03-21 23:20:37# 125. lþ. 83.5 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:20]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um Schengen-upplýsingakerfið sem verið hefur í smíðum í nokkurn tíma en áætlaður stofnkostnaður við það er að mati fjmrn. 244 millj. kr. Þetta er hluti af því máli sem var til umræðu hér fyrr í dag og í kvöld og að sjálfsögðu óaðskiljanlegur hluti þess. Eins og þetta mál kemur mér fyrir sjónir er það vissulega peningalegs eðlis og skipulags eðlis, en þetta er líka pólitískt mál og við höfum kannski fram til þessa fyrst og fremst verið að tala um pólitískar hliðar málsins en vissulega komið inn á aðra þætti.

Ég ætla að fara örfáum orðum um nokkrar greinar frv. sem gerir ráð fyrir því að hér verði komið á fót upplýsingakerfi sem ríkislögreglustjóri einn beri ábyrgð á. Ríkislögreglustjóri ber einn ábyrgð á þessu kerfi.

Inn í þetta kerfi má skrá upplýsingar um einstaklinga og þar á meðal upplýsingar sem skipta máli og geta skipt miklu máli, sumt harla matskennt, t.d. hvort viðkomandi sé ofbeldishneigður, hvort ætla megi af fyrri hegðun að viðkomandi einstaklingur fremji skemmdarverk.

Ég held að enginn deili um að þetta er nokkuð sem er harla matskennt og stundum pólitískt. Ég hygg að ýmsir mundu líta svo á að þeir aðilar sem reyndu að stöðva eða trufla og höfðu í frammi mótmæli við fundahöld þau þegar helstu vesírar fjármálaheimsins komu saman til fundar í Seattle í Bandaríkjunum sl. haust, hafi verið að fremja skemmdarverk. Og þegar þeir komi til annarra landa megi ætla að þeir geri slíkt hið sama ef slíkar ráðstefnur eða fundir yrðu fyrirhugaðir. Hér erum við því farin að tala um pólitík. Við erum farin að tala um matskennda hluti og við erum farin að tala um pólitík.

Þess vegna skiptir mjög miklu máli hvernig við byggjum og geirneglum eftirlitskerfið fyrir hönd einstaklingsins, hvernig við hönnum eftirlitið fyrir hönd einstaklingsins gagnvart ríkislögreglustjóra, þeim embættismanni sem einn ber ábyrgð á þessu kerfi. Og það gerum við með því að fela tölvunefnd, sem kemur til með að heita Persónuvernd áður en langt um líður, þetta eftirlit.

Í 18. gr. frv. segir, með leyfi forseta:

,,Tölvunefnd skal hafa eftirlit með því að skráning og meðferð persónuupplýsinga í upplýsingakerfinu sé í samræmi við lög þessi og reglur sem gilda um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Tölvunefnd skal einnig hafa eftirlit með því að öryggi upplýsingakerfisins sé tryggt þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að því eða geti haft áhrif á skráningu í það.``

Hér segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Tölvunefnd hefur aðgang að skráðum upplýsingum og öðrum nauðsynlegum gögnum til að sinna eftirliti með upplýsingakerfinu skv. 1. mgr.``

Og að lokum segir, með leyfi forseta:

,,Nú gerir tölvunefnd athugasemdir við starfrækslu upplýsingakerfisins og skal hún þá koma þeim og tillögum um úrbætur á framfæri við ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðuneytið.``

Þetta er 18. gr. og er verið að fjalla um það eftirlit sem tölvunefnd eða Persónuvernd, sem svo verður kölluð eftir að lögum verður breytt væntanlega fljótlega, á að starfa eftir samkvæmt þessari grein.

Í ljósi þess að við erum að fjalla um samræmingu á íslenskum lögum við það sem gerist hjá Evrópusambandsríkjum, þá spyr maður hvort við getum kveðið öðruvísi að orði, hvort við getum haft þetta eftirlit öðruvísi en hér segir til um og okkur var bent á það í umfjöllun allshn. að það væri ekkert sem stoppaði okkur í því. Niðurstaðan er hins vegar sú að skilgreina eigi eftirlitshlutverk tölvunefndar eða Persónuverndar nánar með reglugerð og á þetta kom fram gagnrýni í umfjöllun allshn.

Ég ætla af því tilefni að leyfa mér, herra forseti, að vitna í bréf sem allshn. barst frá tölvunefnd. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Tölvunefnd ræddi frv. á fundi sínum þann 6. þ.m. Um er að ræða frv. sem efnislega byggir að miklu leyti á efni Schengen-samningsins frá 14. júní 1985, en fyrirhugað er að Ísland hefji þátttöku í því samstarfi haustið 2000.``

Síðan greinir nánar frá því út á hvað frv. gengur, og síðan segir, með leyfi forseta:

,,Að áliti tölvunefndar fellur það utan verksviðs hennar að taka afstöðu til þeirrar pólitísku stefnumörkunar sem felst í gerð og lögleiðingu ákvæða Schengen-samningsins. Hins vegar er ljóst að frv. miðar að setningu lagareglna sem einungis munu mynda vissan ramma um gerð upplýsingakerfisins sem síðar þarf að fylla í með reglugerð og öðrum fyrirmælum. Ætla verður að á því stigi muni í ríkari mæli verða tekið á skipulags- og öryggismálum upplýsingakerfisins og öðrum atriðum sem tengjast verksviði tölvunefndar. Mun þá bæði koma til hennar kasta að endurmeta og eftir atvikum gera tillögur um almenna öryggis- og skipulagsskilmála og viðhafa nauðsynlegt eftirlit með því að þeim sé fylgt. Af því tilefni vekur tölvunefnd athygli á því að verði frv. að lögum þarf samhliða að auka fjárveitingar til nefndarinnar en hún hefur ekki nægjanlegar fjárveitingar til þess að leysa þau verkefni af hendi sem henni eru nú þegar falin að lögum, hvað þá bæta við sig frekari verkefnum.``

Með öðrum orðum, samkvæmt þessari umsögn telur tölvunefnd sig ekki hafa fjárhagslega stöðu til að sinna þessu hlutverki. Í annan stað finnst mér að lesa megi í þessum orðum ákveðna gagnrýni á það fyrirkomulag sem kveður á um í frv., að menn vilja skýrari lagatexta um hlutverk tölvunefndar eða Persónuverndar hvað eftirlitsþáttinn snertir.

Ég vil vekja athygli á þessu og beini því til hv. formanns allshn. að þetta mál verði tekið til frekari athugunar fyrir 3. umr. þessa máls.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um frv. að sinni. Ég tel að í umfjöllun allshn. hafi verið gerðar ýmsar breytingar á frv. sem séu tvímælalaust til bóta og hv. formaður nefndarinnar vék að þeim áðan. Ég er hins vegar andvígur pakkanum í heild sinni, tel hann til mikillar óþurftar en þá tengi ég þetta frv. að sjálfsögðu Schengen-samkomulaginu sem slíku, en ég vil engu að síður koma þessum ábendingum og þeirri gagnrýni á framfæri hér.