Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi

Þriðjudaginn 21. mars 2000, kl. 23:37:42 (5607)

2000-03-21 23:37:42# 125. lþ. 83.5 fundur 236. mál: #A Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi# frv. 16/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 125. lþ.

[23:37]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég er ein af fulltrúum Samfylkingarinnar sem skrifuðu undir þetta nál. meiri hluta allshn. Í raun var bara um eitt álit að ræða. Í nefndinni fóru fram mjög fjörugar, góðar og málefnalegar umræður um frv. sem hér er verið að afgreiða til 3. umr. Mikil umræða fór fram um skráninguna og hvenær menn teldust ofbeldishneigðir. Þá var vitanlega átt við að viðkomandi hefði dóm á bakinu, þetta væri ekki eitthvað sem væri sýnilegt utan á honum og mætti ekki vera of matskennt. Í þessu samhengi var jafnframt rætt um að gefa út handbók um ýmsar túlkanir sem tölvunefnd mundi koma að að einhverju leyti.

Formaður nefndarinnar hefur farið hér yfir ýmsar tillögur sem fram komu við umræðu í nefndinni. Þar er ekki hvað síst um að ræða 20. gr., hvort hún stæðist stjórnarskránna og hvort hún væri of mikið valdaframsal fyrir löggjafarsamkunduna. Því hefur nú verið breytt þannig að lögin öðlast nú þegar gildi en þar er ekki vísað í framtíðina á nokkurn hátt.

Varðandi 18. gr. er gríðarlega mikilvægt, ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram og ég man eftir frá umræðum með fulltrúum tölvunefndar, að leggja fjármuni í eftirlitið sem við erum að fara að byggja upp. Það er lykilatriði. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að þessi lög munu ekki verða virk fyrr en þær reglugerðir sem þarf koma fram.

Þar er mjög skýrt hvernig lögreglan á að starfa. Þessi listi er tæmandi en ef það væri ekki nógu skýrt þá væri það hættulegast fyrir persónuverndina. Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi áðan hlutverk tölvunefndar. Ég skrifaði niður eftir fulltrúum þeirra að í þessu frv. er gert ráð fyrir að tölvunefnd sé fengið annað hlutverk en hún hefur samkvæmt gildandi lögum. Þar er greinilega frekar tekið mið af því að hún sé virk í löndunum hér í kring. Það er þá eitthvað sem þarf að skoða. Þar skiptir einnig öllu að nægir fjármunir séu til að hægt sé að sinna þessu verki. Auðvitað var líka rætt um að kannski ætti tölvunefnd að geta tekið bindandi ákvarðanir svo ekki verði of mikið um mat ríkislögreglustjóra að ræða á þessum upplýsingum. Númer eitt, tvö og þrjú megum við ekki að skapa slakara eftirlitskerfi en við höfum í dag.

Eins og ég segi höfum við undirritað þetta álit allshn., ég náði ekki að gera það þar sem ég var erlendis þegar það var gert, en lýsi mig samþykka því.