Fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 13:44:52 (5618)

2000-03-22 13:44:52# 125. lþ. 84.5 fundur 206. mál: #A fullgilding samnings um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna# þál. 6/125, EKG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Í umræðu um þetta mál hef ég rökstutt afstöðu mína mjög rækilega. Á margan hátt stöndum við frammi fyrir orðnum hlut. Sú stefna var mörkuð í upphafi að ganga til Schengen-samstarfsins sem fullgildir aðilar. Ljóst má vera af því sem ég hef rökstutt í umræðunni að miklu verður kostað til. Ekki hefur verið látið reyna á aðra kosti, svo sem að fara svipaðar leiðir og Bretar og Írar, þjóðir sem við höfum átt og eigum mikið og gott samstarf við. Af því leiðir að við eigum ekki marga góða kosti sem annars hefði verið hægt að vinna að. Ég mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins.