Leigulínur til gagnaflutnings

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:12:16 (5626)

2000-03-22 14:12:16# 125. lþ. 85.1 fundur 395. mál: #A leigulínur til gagnaflutnings# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég leyfa mér að minna á nýsamþykkt fjarskiptalög sem tóku gildi um síðustu áramót. Lögin voru samþykkt hér á Alþingi af fulltrúum allra stjórnmálaflokka og enginn greiddi atkvæði gegn þeim. Er ég mælti fyrir frv. til laga um fjarskipti lagði ég áherslu á nauðsyn þess að mæta þörfum allra landsmanna um að njóta ákveðinnar lágmarksfjarskiptaþjónustu, nauðsyn þess að ávallt verði til öflug fjarskiptafyrirtæki á Íslandi og löggjöf hamli ekki þróun upplýsingatækni og komi ekki í veg fyrir tækniframfarir. Síðast en ekki síst lagði ég áherslu á að nýta upplýsingatæknina til að styðja við búsetu í landinu öllu og sporna sem frekast má gegn byggðaröskun.

Vegna þessa vil ég upplýsa þingið að ég hef óskað eftir því við verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið, sem vinnur á vegum forsrn., að gerð verði athugun á þörf landsbyggðarinnar fyrir gagnaflutningi á sviði menntunar, heilbrigðisþjónustu og atvinnulífs. Mér er kunnugt um að verkefnisstjórnin hefur tekið jákvætt á þessu máli. Hluti af þessari vinnu hefur þegar farið fram í samstarfi við ráðuneytið og bendi ég á skýrsluna Stafrænt Ísland í því efni. Jafnframt vænti ég þess að frekar verði unnið að málinu í samvinnu við atvinnulífið.

Svo ég víki nánar að spurningum hv. þm. þá er svar mitt: Já, að sjálfsögðu tel ég að jafna þurfi aðstöðu þeirra sem þurfa eða vilja nýta sér möguleika nýrrar samkiptatækni. Þær leiðir sem ég sé færar til þess eru fyrst og fremst leiðir til hins frjálsa markaðar og tækniframfara. Því til staðfestingar nægir að benda á að með tilkomu samkeppni á fjarskiptamarkaði er nú hafin samkeppni á öllum sviðum. Þar er gagnaflutningur á engan hátt undanskilinn. Sú samkeppni hefur þegar sýnt að verð til neytenda hefur farið hríðlækkandi. Þar nægir að benda á GSM-markaðinn. Í þessari samkeppni er augljóslega fólgin töluverð aðstöðujöfnun.

Ég vil benda á að í framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið, sem gefin var út í október 1996, eru skilgreind þrjú forgangsverkefni í málefnum upplýsingasamfélagsins. Eitt þeirra er að flutningsgeta og flutningsöryggi tölvutækra upplýsinga innan lands og til útlanda verði fullnægjandi og anni ört vaxandi notkun en kostnaður verði í lágmarki.

Þessi stefna er enn í fullu gildi. Ég hef unnið markvisst að því að hrinda henni í framkvæmd og hef einsett mér að ná því marki að á sviði fjarskipta og símaþjónustu verðum við í fremstu röð. Engum blöðum er um það að fletta að fjarskiptakostnaður skiptir miklu fyrir notendur. Kostnaður er sá þáttur sem hvað mest gæti hamlað þróuninni sé honum ekki haldið í lágmarki.

[14:15]

Enda þótt það komi ekki fram í fyrirspurninni tel ég líklegt að hv. þm. spyrji um tvenns konar notkun leigulínu, annars vegar línu sem fyrirtæki og einstaklingar leigja milli starfsstöðva og hins vegar línur sem leigðar eru á starfsstöð eða heimili að tengibúnti í almennum gagnaflutningsnetum, t.d. háhraðaneti eða ADM-neti Landssíma Íslands hf.

Um þessar tvær tegundir leigulína gilda ólíkar reglur. Fyrst ber að nefna leigulínur milli starfsstöðva. Samkvæmt 19. gr. fjarskiptalaga á Póst- og fjarskiptastofnun að tryggja að a.m.k. eitt fjarskiptafyrirtæki bjóði fram leigulínur. Gjald fyrir þessar línur er hið sama alls staðar á landinu, þ.e. fyrirtæki á Akureyri, svo dæmi sé tekið, borgar jafnmikið fyrir sömu lengd af leigulínu og fyrirtæki í Reykjavík. Þá er og rétt að minna á að í haust sem leið var gjaldskrá leigulína breytt í þá átt að gjald á lengri leiðum lækkaði verulega. Gjald fyrir styttri línur hækkaði nokkuð. Með þessu var stigið stórt skref til að jafna aðstöðumun. Við endurskoðun gjaldskrárinnar kom í ljós að kostnaður á lengri leiðum hafði verið ofmetinn.

Þegar um er að ræða leigulínu fyrir tengingu notenda inn á almenn gagnaflutningsnet horfir málið öðruvísi við. Gagnaflutningsnet eins og t.d. háhraðanet og ADM-netið er byggt upp með tengibúntum sem að jafnaði eru staðsett í þéttbýli. Háhraðanet auka mjög hagkvæmni í gagnaflutningum. Því er það grundvallaratriði að tengibúntum við gagnaflutningsnetin fjölgi eins og kostur er og jafni þar með aðstöðu þeirra sem vilja eða þurfa að nýta sér þessa samskiptatækni.

Eitt vil ég undirstrika vegna umræðu um jöfnun fjarskiptakostnaðar, að vegna skuldbindinga sem við höfum tekist á hendur með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið ber gjaldskrá fjarskiptafyrirtækja með umtalsverða markaðshlutdeild að taka mið af tilkostnaði og hæfilegum arði af fjárfestingu. Í þessu sambandi ber að benda á að líklegt er að fyrirtæki og einstaklingar muni í vaxandi mæli nota aðrar aðferðir en fastar leigulínur við fjarvinnslu, fjarkennslu eða fjölmiðlun. Öll tækniþróun stefnir í þá átt að stuðla að jafnari aðstöðu en áður. (Forseti hringir.) Í því sambandi vil ég sérstaklega nefna ADSL-tæknina sem felur í sér möguleika á hraðvirku sambandi um hefðbundnar símalínur þar sem notandinn getur verið sítengdur við internetið allan sólarhringinn á föstu verði (Forseti hringir.) sem á að vera hið sama fyrir alla hvar sem þeir eru í landinu.

Herra forseti. Ég gæti komið að fleiri upplýsingum en verð því miður að stoppa hér.