Uppbygging vega á jaðarsvæðum

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:23:37 (5629)

2000-03-22 14:23:37# 125. lþ. 85.2 fundur 423. mál: #A uppbygging vega á jaðarsvæðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KLM
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller):

Virðulegi forseti. Í samþykktri þál. um stefnu í byggðamálum stendur m.a. í kaflanum Jöfnun lífskjara -- bætt samkeppnisstaða, með leyfi forseta:

,,Gert verði átak í uppbyggingu vega í þeim landshlutum þar sem samgöngur eru ófullnægjandi (jaðarsvæði) svo að þær verði í samræmi við nútímaþarfir.``

Í tillögum þverpólitískrar byggðanefndar forsrh. var lagt til að 2 milljörðum yrði varið til átaks í vegamálum á næstu fjórum árum. Sérstaklega var lagt til að þessar framkvæmdir færu fram á þeim svæðum þar sem íbúaþróun væri alvarleg og að vegagerð væri líkleg til þess að hafa áhrif á byggðaþróun. Tillaga nefndarinnar var samþykkt skömmu fyrir síðustu kosningar af hæstv. ríkisstjórn, en mér sýnist að þessum fjármunum hafi ekki verið varið til jaðarsvæðanna eingöngu. Hæstv. forsrh. sagði í stefnuræðu sinni að sú bylting sem orðið hefði á vegakerfi okkar og samgöngum undanfarna áratugi nýttist ekki síst bændum og öðrum þeim sem byggja hin dreifðu landsvæði landsins.

Herra forseti. Ég er ekki viss um að bændur almennt geti tekið undir þetta sjónarmið nú þegar tími vorleysinga fer í hönd og fjölmargir safn- og tengivegir um allt land verða ófærir vegna aurbleytu. Til þess að á Íslandi búi ein þjóð þarf að bæta og viðhalda góðum samgöngum. Það sem skiptir meginmáli fyrir þróun einstakra byggðarlaga er hvernig samgöngur eru innan þess og til annarra þjónustusvæða.

Í framlagðri vegáætlun er þess getið að meira fé vanti í safn- og tengivegi landsins. Samþykktin í byggðaáætluninni sem ég vitnaði til í upphafi máls míns er vafalaust hugsuð til þess að bæta safn- og tengivegi í hinum dreifðu byggðum landsins. En hver er framkvæmdin? Hvernig stendur þessi vinna? Mér er kunnugt um að á vegum Byggðastofnunar er eitthvað verið að vinna í þessum málum og á minnisblaði Byggðastofnunar til hv. fjárln. í desember sl. var gerð tillaga um 550 millj. kr. til byggðavega sem ekki var samþykkt á fjárlögum.

Ég vil því enn fremur spyrja hæstv. samgrh. út í þetta atriði. Er Byggðastofnun að vinna í þeim vegamálum, samanber þál. í byggðamálum? Hvenær liggja þær tillögur fyrir?

Herra forseti. Fsp. mín á þskj. 688 um þetta mál er svolhljóðandi:

,,Hvað líður undirbúningi að átaki í uppbyggingu vega í þeim landshlutum þar sem samgöngur eru ófullnægjandi (jaðarsvæði), sbr. þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001?`` --- sem nú er hálfnað.