Uppbygging vega á jaðarsvæðum

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 14:33:06 (5633)

2000-03-22 14:33:06# 125. lþ. 85.2 fundur 423. mál: #A uppbygging vega á jaðarsvæðum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[14:33]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er nú hætt við að erfitt verði að gera mikið fyrir þá peninga sem hæstv. ráðherra sagði að væru núna til ráðstöfunar, 150 millj. kr. af 6 milljarða kr. framkvæmdum í vegamálum. Það verður að segjast að það veldur miklum vonbrigðum að heyra hvernig málið er statt. Það er greinilega langt í að menn fylgi eftir hinum miklu fyrirheitum um að gera átak í þessu efni. En það væri sannarlega full ástæða til að gera.

Ef menn meina eitthvað með öllu talinu um byggðastefnu þá er það þarna sem á reynir. Fólk getur auðvitað ekki búið í þessum dreifðu byggðum öðruvísi en að komast til og frá. Maður talar nú ekki þá sem þurfa að sækja sér atvinnu í síauknum mæli út fyrir eigið byggðarlag. Það kann að vera um töluvert langan veg að fara vegna þess að búskapurinn gefur ekki nægilega af sér í þessum sveitum til þess að menn hafi af því lifibrauð.

Ég hvet þess vegna til að menn taki sig nú saman í andlitinu og fari yfir þessi mál upp á nýtt.