Skráning afbrota

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:04:55 (5646)

2000-03-22 15:04:55# 125. lþ. 85.6 fundur 432. mál: #A skráning afbrota# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og þann áhuga sem hún hefur sýnt þessum málaflokki og tek undir þau sjónarmið sem fram komu hjá henni að málaskrá lögreglu og heildstæð afbrotafræðileg skráning á öllum afbrotum og tengdum atriðum er mjög mikilvægt tæki til þess að hægt sé að bregðast við á réttan, eðlilegan og sem bestan hátt við þeirri þróun sem við horfum óneitanlega á, þ.e. að afbrotum barna og unglinga hefur fjölgað verulega samfara aukinni fíkniefnaneyslu.

Það að þessi málaflokkur heyrir undir fleiri en eitt ráðuneyti er í raun og veru vegna þess að á undanförnum árum hefur það gerst að málum barna sem eru á barnaverndaraldri, undir sjálfræðisaldri sem nú hefur verið hækkaður upp í 18 ár, var vísað til barnaverndaryfirvalda á hverjum stað og eru þar með ekki lengur í skráningu hjá lögreglunni. Oftar en ekki var um það að ræða að þó að barn væri sakhæft 15 ára var málinu vísað til barnaverndaryfirvalda og félagsmálayfirvalda á hverjum stað og þess vegna var mjög erfitt fyrir þá nefnd, sem lagði mikla vinnu í skýrsluna sem hún skilaði til dómsmrh. fyrir ári síðan, að ná í þær upplýsingar sem til þurfti til þess að koma með tillögur til úrbóta þó að það hafi vissulega verið reynt, vegna þess að safna þurfti upplýsingunum á svo mörgum stöðum.

En ég fagna þeirri skráningu sem nú hefur verið tekin upp og þeim áhuga sem hæstv. ráðherra hefur sýnt þessum málaflokki.