Heilbrigðisþjónusta við unga afbrotamenn

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:11:29 (5649)

2000-03-22 15:11:29# 125. lþ. 85.7 fundur 433. mál: #A heilbrigðisþjónusta við unga afbrotamenn# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:11]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Í niðurstöðu nefndar um málefni ungra afbrotamanna er bent á þá staðreynd að heilbrigðisþjónusta við unga afbrotamenn hafi ekki verið skilgreind sérstaklega. Því er reyndar ekki slegið föstu að það sé nauðsynlegt en mér finnst þó ástæða til að athuga það betur.

Með lögum nr. 123/1997, um breytingu á lögum um fangelsi og fangavist, var heilbrigðisþjónusta við fanga almennt hins vegar skilgreind sérstaklega í fyrsta sinn og þykir bót að því. Þar segir jafnframt, sbr. nú 2. mgr. 2. gr. laga um fangelsi og fangavist, að heilbr.- og trmrn. sjái, að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun, um og beri ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum. Þess utan starfa sálfræðingar í fangelsiskerfinu. Um samvinnu heilbrigðisstofnana sín á milli vísast því aðallega til heilbr.- og trmrn.

Reglubundin samvinna er hins vegar á milli Fangelsismálastofnunar annars vegar og SÁÁ og Barnaverndarstofu hins vegar, en báðir taka við ungum dómþolum og eftir atvikum þeim sem sæta ákærufrestun hins vegar. Þá er starfandi fangaprestur sem fylgist með sálarheill fanga.

Heilbrigðisþjónusta við fanga hefur verið mjög til umræðu af og til undanfarin ár. Umræðan leiddi m.a. af sér að stofnuð var réttargæsludeild að Sogni í Ölfusi árið 1992 fyrir ósakhæfa afbrotamenn. Nokkrir einstaklingar sem eru mjög erfiðir hafa verið og eru á Litla-Hrauni, en þeir sýna einkenni geðraskana án þess að teljast ósakhæfir. Einstaka sinnum hefur verið gripið til vistunar á Sogni ef þörf er á tímabundinni vistun fyrir þá utan fangelsins á vegum geðdeilda eða geðlækna.

Eftir að nokkur sjálfsvíg urðu meðal fanga, þar á meðal ungra fanga, á Litla-Hrauni fyrri hluta árs 1998 hafa dómsmála-, fangelsis- og heilbrigðisyfirvöld unnið að því að leita leiða til að koma á fót heilbrigðisstofnun eða fá inni hjá slíkri stofnun til að annast vistun fanga með tímabundnar geðraskanir.

Fangaverðir fá í fangavarðaskólanum ítarlega fræðslu um hvað eina sem lýtur að heilbrigðismálum fanga. Sífellt meiri áhersla er lögð á að fangaverðir taki þátt í að sinna meðferð fanga og fylgjast með velferð og framgangi þeirra og dregið hefur úr eftirliti með föngum enda sér nútímatæknibúnaður um þá hlið mála að mestu leyti.

Sérstakt námskeið var haldið fyrir fangaverði á Litla-Hrauni til að læra að þekkja einkenni fanga sem kunna að vera í sjálfsvígshættu. Á síðasta hausti gáfu Fangelsismálastofnun og landlæknisembættið út reglur um aðgerðir starfsmanna fangelsa vegna sjálfsvígshættu fanga o.fl.

Stöðugt er reynt að bæta heilbrigðisþjónustu við unga afbrotamenn. Einn liður í því er að gefa föngum kost á að fara í meðferð hjá SÁÁ vegna áfengis- eða fíkniefnamisnotkunar, ekki eingöngu í lok refsivistar eins og áður tíðkaðist heldur fyrr í afplánuninni.

Fíkniefnanotkun er mikill vágestur á Litla-Hrauni og þótt reynt sé að sporna við henni með margvíslegum aðgerðum og ærnum tilkostnaði gengur illa að uppræta hana. Eitt brýnasta verkefnið gagnvart ungum afbrotamönnum er einmitt að losa þá úr viðjum fíkniefna svo að þeir geti tekist á við að fóta sig í lífinu að lokinni afplánun.

Þess má geta að ég hyggst beita mér fyrir því að byggt verði nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu, m.a. með það að markmiði að huga að greiningu fanga með tilliti til heilbrigðisástands og sérþarfa. Hér er um mikilvægt mál að ræða, hæstv. forseti, sem ég mun fylgjast náið með.