Heilbrigðisþjónusta við unga afbrotamenn

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:16:40 (5651)

2000-03-22 15:16:40# 125. lþ. 85.7 fundur 433. mál: #A heilbrigðisþjónusta við unga afbrotamenn# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þá afstöðu sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, mikil nauðsyn er á því að fylgjast með því hvernig staðið er að heilbrigðisþjónustu við unga afbrotamenn.

Sannarlega fá fangaverðir fræðslu í fangavarðaskólanum um hvernig þeir eigi að bregðast við og er mikil nauðsyn á að þeir séu vel uppfræddir. Hins vegar er það þannig að ég tel að fangaverðir á landinu séu allt of fáir miðað við fjölda fanga. Ég tel að mjög mikil nauðsyn sé á því að skilgreina sérstaklega heilbrigðisþjónustuna fyrir unga afbrotamenn sem hafa verið vistaðir í fangelsunum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þeir eigi að vera sér og þeir eigi ekki að vera innan um eldri og harðari afbrotamenn. Þeir eiga rétt á meðferð hjá SÁÁ eins og aðrir fangar. Það sem stingur svolítið í augu hvað það varðar er að við erum að fá þessa ungu fanga, sem eru í raun og veru bara börn að þroska, inn í fangelsin eftir harða neyslu í eiturlyfjum þegar hefði oft og tíðum þurft að byrja á meðferðinni. Í stað þess eiga fangar í flestum tilvikum möguleika á því í lok afplánunar að fara í meðferð hjá SÁÁ.

Vegna þess að þarna eru oft fársjúkir einstaklingar á ferðinni hefði ég talið eðlilegra að þeir fengju slíka meðferð í upphafi afplánunar. Í raun og veru er felldur mjög harður dómur yfir þessari stöðu í skýrslu umboðsmanns barna sem hún skilar 1998 um það hvernig hún telur að þau börn sem eru í fangelsunum séu í hættu og kynni af hörðum afbrotamönnum við þær aðstæður að vera með þeim í fangelsi auki beinlínis hættu á því að þau fái þunglyndi og auki hættuna á sjálfsvígstilraunum umfram það sem í dag er í fangelsunum.

En ég fagna því, ef rétt er, sem kom fram hjá hæstv. félmrh. að vel væri staðið að verki hvað varðar sálfræði- og meðferðarráðgjöf á heimilum á vegum Barnaverndarstofu.