Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:48:29 (5661)

2000-03-22 15:48:29# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), HBl
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:48]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er ekki hægt að segja að þingmönnum hafi komið á óvart sú ákvörðun að Íslandsflug leggi niður flug til Siglufjarðar né Mýflug leggi niður flug til Húsavíkur. Þingmönnum hefur verið kunnugt hvert stefndi. Mikill halli hefur verið á innanlandsflugi og á undanförnum árum höfum við staðið frammi fyrir því að þurfa að taka upp styrki til nýrra flugleiða.

Okkur er það minnisstætt þegar litlum 800 þús. kr. var varið til að styrkja flug til Raufarhafnar sem olli miklu uppþoti á markaðnum, bæði í fjölmiðlum og hér á Alþingi og talið að ég væri að brjóta lög Evrópusambandsins með því að veita slíkan styrk án þess að flugið yrði boðið út sem aftur færir okkur til þess að ekki er heimilt samkvæmt samningum okkar að styrkja flug til einstakra staða án þess að það sé áður boðið út og fyrir liggi að áætlunarflug til viðkomandi staðar leggist niður. Í því ljósi er óhjákvæmilegt að horfa á ástandið eins og það er núna.

Því miður verð ég að segja að heldur dapurlega horfir um Húsavíkurflug. Að vísu mun eins og áður verða leiguflug til Húsavíkur sem mun náttúrlega að einhverju leyti létta hlut ferðaþjónustunnar þar en ef við horfum til hinna smærri staða fyrir norðan og á Norðausturlandi, jafnvel Vestfjörðum, ef við tökum það inn í þessa sömu mynd, þá virðist mér blasa við að boðið verði út flug frá Akureyri í tengslum við flugið til Reykjavíkur eins og verið hefur, til Vopnafjarðar, Þórshafnar, Grímseyjar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Siglufjarðar eins og var fyrir eina tíð vegna þess að það er ódýrasta leiðin og fullnægjandi lausn og sú besta sem í sjónmáli er.

Ég hygg að óhjákvæmilegt sé að horfa á þessa hluti eins og þeir liggja fyrir, takast á við þau vandamál sem við blasa og leysa þau.