Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:53:18 (5663)

2000-03-22 15:53:18# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni sem er samgöngumál innan Íslands alls. Sú frétt að leggja eigi niður flugsamgöngur til Siglufjarðar veldur vissum óhug.

Þess verður að krefjast af stjórnvöldum að til sé einhver samræmd og ákveðin stefna varðandi grunnþjónustu í samgöngumálum allra landsmanna. Það er óviðunandi að samgöngur, þetta grunnþjónustunet okkar allra, skuli vera háð arðsemiskröfum einstakra einkafyrirtækja sem af og til hlaupa út á markaðinn og leggja svo upp laupana sitt á hvað. Það verður að vera til opinber stefna um grunnsamgönguþjónustu og samgöngur í landinu, bæði varðandi flug og áætlunarferðir og það að alltaf sé verið að koma á óvart og grípa til skyndilausna varðandi einstaka staði gengur einfaldlega ekki upp. Það er einsýnt að styrkja þarf flugsamgöngur til þeirra staða sem ekki eiga möguleika á öðrum samgöngum og þarf sá styrkur að vera þannig að of hátt verð hamli ekki notkun, hamli ekki ferðum.

Herra forseti. Það þarf pólitíska ákvörðun um samgöngur á Íslandi og að staðið sé við hana.