Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:55:30 (5664)

2000-03-22 15:55:30# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Hér er rætt mál sem sýnir okkur í hnotskurn hversu nauðsynlegt er að mótuð sé stefna til framtíðar í almenningssamgöngum þjóðarinnar. Hér er því miður að því er virðist niðurstaða að koma á óvart sem hv. þm. Halldór Blöndal benti á að ætti ekki að koma á óvart.

Hér skortir framtíðarsýn til þess að átta sig á hvernig mál þróast. Hér sitja menn uppi með það að við blasir að ákveðin grunnþjónusta við byggðarlög sem þurfa mjög á samgöngum í lofti að halda geti fallið niður. Þetta hefði ekki átt að koma á óvart. Það hefði átt að vera búið að móta stefnu. Það hefði átt að vera búið að móta reglur um hvernig menn ættu að taka á þessum málum.

Í máli hæstv. samgrh. kom fram að á fjárlögum er takmarkað fjármagn til að mæta þessum vanda og augljóst að það fjármagn til þeirra staða sem ákveðið var að veita styrki er of lítið til að mæta vandanum. Nú blasir við að fjölga þarf þessum stöðum og auka fjármagnið.

Herra forseti. Ég held að það sé augljós niðurstaða af þessu máli að markaðurinn hefur verið látinn nær afskiptalaus um verkefni sem hann ræður ekki við. Það er kominn tími til, herra forseti, að stjórnvöld móti stefnu til framtíðar, stefnu sem getur tryggt þá grunnþjónustu sem nauðsynleg er og það sé ekki tilviljanakennt hvernig styrkjum er veitt í þetta verkefni.