Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:57:21 (5665)

2000-03-22 15:57:21# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Þótt ljóst væri í hvað stefndi hnykkir manni illa við þegar þær spurnir berast að ekki eru rekstrarforsendur fyrir flugi til Siglufjarðar. Að sjálfsögðu er það öðrum þræði vegna bættra samgangna á landi en nú loksins er komið bundið slitlag þangað alla leið.

Hvað varðar samkeppni í flugi, þá er hún ekki lengur fyrir hendi til Siglufjarðar þannig að ekki eru það undirboð heldur einfaldlega viðskiptalegar forsendur sem hindra flugfélagið Íslandsflug í því að halda áfram fluginu eftir bréfi þeirra.

Flug verður auðvitað að vera reglulegt og lausn þarf að finna á þessu. Þetta er vissulega algerlega óviðunandi. Þess ber þó að geta að styrkir til ferju- og flugsamgangna eru nú teknir af vegafé og þann póst má heldur ekki skerða. Þetta þarf að skoða í víðara samhengi. Þetta er vissulega byggðamál, þetta er stórt byggðamál sem þarf að taka á í heild, móta almennar reglur af hálfu stjórnvalda og þingsins um áætlunarferðir og tryggja fjárveitingu til þess.