Flugsamgöngur við landsbyggðina

Miðvikudaginn 22. mars 2000, kl. 15:58:49 (5666)

2000-03-22 15:58:49# 125. lþ. 85.94 fundur 404#B flugsamgöngur við landsbyggðina# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þær aðstæður sem eru að skapast í innanlandsflugi eru mjög alvarlegar og þær eru það ekki síst vegna þess að sennilega eru fá dæmi um þjóðir sem hafa byggt innanlandssamgöngur sínar jafnmikið á flugi og Íslendingar. Það sem er enn merkilegra er að lengst af var þetta flug rekið án nokkurra niðurgreiðslna eða styrkja öfugt við það sem er orðið fyrir löngu síðan víðast hvar í kringum okkur. Má þar sem dæmi taka Grænland, Norður- og Vestur-Noreg og reyndar allan norðanverða Skandinavíu og ég hygg skosku eyjarnar einnig og fleiri slík svæði.

Það sem hefur einnig verið sérstaklega mikilvægt við innanlandsflugið hér er að það hafa í reynd á stórum svæðum verið einu skipulögðu almenningssamgöngurnar sem fólk hefur átt kost á. Því er það þeim mun alvarlegra ef það er að leggjast af á fjölmörgum stöðum sem þær takmörkuðu almenningssamgöngur sem eru á landi eiga líka undir högg að sækja og eru sums staðar að leggjast af þannig að heil héruð og jafnvel langleiðina heilir landshlutar gætu þar af leiðandi, ef svo fer sem horfir, staðið frammi fyrir því að þar verði engar skipulagðar almenningssamgöngur. Þannig geta menn auðvitað ekki haft hlutina.