Frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 10:35:10 (5673)

2000-03-23 10:35:10# 125. lþ. 86.92 fundur 406#B frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[10:35]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Mér er ljúft að skýra þetta mál, bæði fyrir hv. þm. og þingheimi og sömuleiðis lesendum Morgunblaðsins sem hafa kannski fengið það á tilfinninguna í morgun að hér væri maðkur í mysunni, enda segir í frétt blaðsins að ekki hafi fengist skýring á því hvers vegna þetta mál væri ekki á dagskrá hér. Þó var ekki leitað skýringa hjá ábyrgðarmanni málsins sem stendur hér í ræðustól.

Þetta mál er þannig vaxið, herra forseti, að í tengslum við kjarasamninga hins svokallaða Flóabandalags var gefin út yfirlýsing, sem menn þekkja, sem m.a. gerir ráð fyrir því að skattleysismörk og persónuafsláttur hækki frá og með 1. apríl. Því til staðfestingar hefur verið lagt fram frv. um það efni.

Hins vegar liggur ekki fyrir niðurstaða í atkvæðagreiðslu Flóabandalagsins og mun ekki koma í ljós fyrr en 1. apríl. Þá kom upp það álitamál hvort lögfesta ætti frv. áður en ljóst væri hvort niðurstaða kjarasamninganna væri sú sem þeir gera ráð fyrir. Það er ekki eðlilegt að gera það þannig að lögfestingin bíður niðurstöðu atkvæðagreiðslu félagsmanna Flóabandalagsins, sem sagt þess að það liggi fyrir hvort kjarasamningarnir verða á þeim nótum sem þar er lagt upp með. Það er auðvitað forsenda þessa frv.

Þá vaknar sú spurningin sem hv. þm. vakti athygli á, þ.e. hvort ávinningurinn af þessu frv. komi til framkvæmda 1. apríl. Það er rétt að hafa í huga að langflestir félagsmenn í Flóabandalaginu fá eftir á greidd laun. Þeir mundu ekki njóta þessa ávinnings hvort sem er fyrr en 1. maí. Gagnvart þeim er þetta þess vegna ekki vandamál. Gagnvart þeim sem fá fyrir fram greidd laun verður málið leyst þannig að það verður gert upp eftir á, væntanlega um mánaðamótin 1. maí. Áhrifin af þessu frv. verða þannig, ef málið heldur áfram eins og upphaflega var ráðgert og samningar verða staðfestir, þau að þetta tekur gildi fyrir flesta 1. apríl eins og hér er gert er ráð fyrir. Með öðrum orðum er þetta ekki neitt vandamál. Ég vænti þess að jafnöflugur þingmaður og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir muni standa að baki okkur við að afgreiða þetta mál hratt og vel þegar niðurstaðan í atkvæðagreiðslu Flóabandalagsins liggur fyrir.