Frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 10:41:04 (5676)

2000-03-23 10:41:04# 125. lþ. 86.92 fundur 406#B frumvarp um tekjuskatt og eignarskatt# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[10:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Varðandi yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf út fyrir nokkrum dögum í tengslum við kjarasamninga þá vil ég leggja áherslu á að þar er um að ræða nokkra þætti.

Í fyrsta lagi að skattleysismörk fylgi launaþróun á komandi missirum og árum. Þetta er krafa gervallrar verkalýðshreyfingarinnar og hefur verið um langt skeið. Því er að sjálfsögðu hægt að verða við án tiltekinna kjarasamninga og lykta þeirra.

Í öðru lagi er um að ræða barnabætur. Þar erum við að tala um kosningaloforð sem gefin voru fyrir síðustu kosningar. Barnabætur hafa rýrnað að verðgildi jafnt og þétt á liðnum árum. Eru núna 0,60% af landsframleiðslu en voru fyrir 6--7 árum 1,21% af landsframleiðslu. Hér er um að ræða kosningaloforð sem gefið var fyrir síðustu kosningar.

Í þriðja lagi er í þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að finna harla vafasöm atriði fyrir öryrkja og lífeyrisþega sem geta falið í sér kjararýrnun fyrir þá. Það er mikilvægt að þingið fái þetta frv. eða tillögur ríkisstjórnarinnar sem fyrst inn á borð þannig að við getum tekið það til málefnalegrar umfjöllunar. Það er fráleitt að binda umfjöllun um þetta efni við kjarasamninga hjá litlum hluta vinnumarkaðarins, innan við 10% hans.