Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 10:52:23 (5679)

2000-03-23 10:52:23# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[10:52]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um brunavarnir.

Frv. þetta er samið af nefnd sem umhvrh. skipaði í lok ársins 1998 til að endurskoða lög um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, í ljósi reynslu liðinna ára.

Við samningu frv. var farið yfir norræna löggjöf um sama efni og hafði nefndin sérstaklega til hliðsjónar norskt frv. til laga um brunavarnir. Jafnframt hafði nefndin til hliðsjónar tillögur nefndar umhvrn. um varnir og viðbrögð við mengunaróhöppum á landi frá ágúst 1997, þar sem nefndinni var sérstaklega falið að fjalla í frv. um viðbrögð við mengunar- og eiturefnaslysum á landi og hlutverk slökkviliða í því sambandi.

Nefndin fékk það hlutverk að fjalla um skipulag brunavarna og brunamála í héraði, ábyrgð sveitarfélaga innan málaflokksins, um starfsemi Brunamálastofnunar ríkisins og hlutverk hennar innan stjórnkerfisins, svo sem um tengsl við Skipulagsstofnun. Jafnframt var nefndin að fjalla um málefni Brunamálaskólans.

Málaflokkurinn brunavarnir heyrði undir félmrn. til 1. jan. 1998 er hann færðist til umhvrn. Núgildandi lög um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, voru samin af nefnd sem þáv. félmrh. skipaði, en þau lög tóku við af lögum nr. 74/1982, um brunavarnir og brunamál. Málefni brunavarna hafa því verið skamman tíma undir yfirstjórn umhvrn. en fram hafði komið nokkur óánægja með einstök atriði gildandi laga, einkum þau er snúa að menntun og þjálfun slökkviliðsmanna.

Við samningu frv. var leitað samráðs við fjölmarga aðila er tengjast á einn eða annan hátt framkvæmd brunamála. Jafnframt var leitað umsagna 22 valinna aðila, þar á meða ráðuneyta, stofnana, hagsmunasamtaka og bárust umsagnir frá flestum þessara aðila. Voru þessar umsagnir teknar til ítarlegrar skoðunar og var reynt að samræma þau sjónarmið sem þar komu fram og höfð var hliðsjón af þeim við samningu frv. Einhugur var meðal nefndarmanna um frv. sem hér er lagt fram.

Ég vil til upplýsingar gera grein fyrir brunatjónum á Íslandi samanborið við önnur lönd.

Á árunum 1981--1999 námu bætur tryggingafélaga vegna brunatjóna á Íslandi samtals 13.100 millj. kr. eða um 690 millj. kr. á ári að jafnaði.

Brunatjón á Íslandi síðustu tvo áratugi eru með því minnsta sem þekkist samanborið við nágrannalönd hvort heldur þau eru mæld í mannslífum eða eignatjóni. Skýringar á því eru eflaust margar en benda má á að hér á landi er hlutfall gamalla húsa lágt og steinsteypa algengasta byggingarefnið auk þess sem tiltölulega lítið er um stórar byggingar. Hvað varðar manntjón má ætla að hátt hlutfall sérbýlishúsa hafi mikið að segja auk þess sem á umræddu tímabili hafa ekki orðið mannskæðir brunar, t.d. á hótelum og samkomustöðum. Þá má einnig benda á að hér á landi er haldið uppi virku opinberu eftirliti með brunavörnum.

Gildissvið frv. tekur til eldvarna og slökkviliðsstarfa vegna eldsvoða og viðbúnaðar vegna mengunaróhappa á landi. Starfsemi slökkviliða lýtur annars vegar að eldvörnum og hins vegar að slökkvistörfum og viðbúnaði vegna mengunaróhappa sem verða á landi. Það er nýmæli að slökkviliðum sé falið það hlutverk að hafa með höndum viðbúnað vegna mengunaróhappa á landi en rétt þykir að sú starfsemi sé hluti af starfsemi slökkviliða og hefur framkvæmdin verið víða sú að slökkviliðin sinni slíkum störfum. Í dag hefur enginn ábyrgð samkvæmt lögum á viðbúnaði vegna mengunaróhappa og þykir því nauðsynlegt að kveða á um þetta hlutverk í frv.

Helstu nýmæli frv. eru annars þau að lögð er áhersla á að skýra ábyrgðarsvið ríkisins, þ.e. Brunamálastofnunar annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Brunamálastofnun fari þannig með yfirumsjón, vinni leiðbeiningar og tryggi eftir megni samræmt og faglegt eftirlit og virkt slökkviliðsstarf á landinu öllu en sveitarfélögin annist framkvæmd eldvarnaeftirlits og slökkvistarfs. Þá er lögð áhersla á að sveitarfélög auki samvinnu bæði á sviði eldvarnaeftirlits og starfsemi slökkviliða. Með því verði auðveldara að byggja upp faglega þekkingu á sviði brunavarna sem er nauðsynleg til að ná fram markmiðum frv. Sterk rök hafa komið fram fyrir því að forsenda fyrir bættum brunavörnum, einkum í hinum dreifðu byggðum landsins, sé stækkun umdæma eldvarnaeftirlits og slökkviliða. Með því verði auðveldara að byggja upp faglega þekkingu á sviði brunavarna. Til að treysta og samræma starf slökkviliða og auka öryggi vegna eldsvoða í landinu ber sveitarfélögum samkvæmt frv. að leggja fram áætlun um skipulag slökkvistarfa til samþykktar Brunamálastofnunar. Í frv. eru ákvæði til að framfylgja lögunum, þ.e. þvingunarúrræði, gerð mun skýrari en í gildandi lögum jafnframt sem þau eru víðtækari.

Lagt er til að ekki verði lengur starfandi sérstök stjórn yfir Brunamálastofnun heldur fari forstjóri stofnunarinnar með stjórn hennar og beri þær skyldur sem stjórn stofnunarinnar hefur haft samkvæmt gildandi lögum. Forstjórinn mun eftir sem áður bera ábyrgð gagnvart ráðherra.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til á yfirstjórn stofnunarinnar eru í samræmi við breytta stefnu í rekstrarmálum ríkisstofnana og mótaða stefnu í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Vegna þessara breytinga á stjórn stofnunarinnar þykir rétt að starfandi verði sérstakt brunamálaráð sem sé Brunamálastofnun og ráðherra til faglegrar ráðgjafar um þá þætti sem falla undir frv. Með slíku ráði mun starfsemi Brunamálastofnunar vera styrkt, enda eiga sæti í brunamálaráði helstu aðilar sem koma að framkvæmd brunamála.

Í ráðinu sitja sjö fulltrúar sem koma skulu frá Brunatæknifélagi Íslands, Félagi slökkviliðsstjóra, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sambandi ísl. tryggingafélaga, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífs. Ráðherra skipar formann.

Það nýmæli er að finna í frv. að kveðið er á um starfsemi Brunamálaskóla en gert er ráð fyrir skólinn verði sérstök deild innan Brunamálastofnunar og er honum ætlað að hafa umsjón með menntun, fræðslu og þjálfun slökkviliðsmanna. Áður voru ákvæði um skólann í reglugerð.

[11:00]

Varðandi kennslu og verklega þjálfun er gert ráð fyrir að nýta bæði þekkingu og aðstöðu sem stærri slökkviliðin í landinu hafa yfir að ráða á grundvelli samkomulags Brunamálastofnunar við viðkomandi slökkvilið. Einnig er lagt til að skipað verði skólaráð sem sé faglegur ráðgjafi Brunamálastofnunar um starfsemi og rekstur skólans. Í skólaráði munu sitja þrír fulltrúar, einn fulltrúi tilnefndur af Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, einn tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga og formaður skipaður af ráðherra. Ráðinu ber að skipuleggja starf skólans og ber það ábyrgð gagnvart brunamálastjóra á framkvæmd og starfsemi Brunamálaskólans.

Í frv. er það nýmæli að skilgreind eru sérstaklega verkefni eldvarnaeftirlits sveitarfélaga. Sú skilgreining er í samræmi og með hliðsjón af hlutverki byggingarfulltrúa og er leitast við að tryggja samfellu í eftirliti frá byggingarstigi til notkunar mannvirkja. Eins og komið hefur fram er það nýmæli í frv. að mælt er fyrir um samvinnu sveitarstjórna um brunavarnir. Hér er um mjög mikilvægt atriði að ræða en á síðustu árum hafa sveitarfélögin aukið samstarf við brunavarnir.

Með frv. þessu er lögð áhersla á að sveitarfélög auki samvinnu sín á milli, bæði hvað varðar eldvarnaeftirlit og starfsemi slökkviliða. Með stækkun umdæma og slökkviliða er lögð áhersla á aukna samræmingu í starfsemi slökkviliða, meiri fagþekkingu og hagræðingu sem meðal annars felst í betri búnaði slökkviliða og þannig meira öryggi gagnvart eldsvoðum. Nú eru starfandi 60 slökkvilið í landinu öllu en sveitarfélögin eru 124 talsins og hafa því allmörg sveitarfélög nú þegar sameinast um rekstur slökkviliða.

Gert er ráð fyrir því að sveitarfélögin geti samið sín á milli um sameiginlegt eldvarnaeftirlit og/eða slökkvilið. Sveitarstjórn getur samið við annað sveitarfélag um að það taki við starfsemi slökkvilið þess umdæmis að öllu leyti þannig að starfsemi slökkviliðsins færist til annars sveitarfélags sem mundi þá sinna báðum sveitarfélögunum. Eins geta sveitarfélög samið um að einungis afmarkaður þáttur í starfsemi slökkviliðs flytjist undir stjórn annars sveitarfélags, svo sem starfsemi eldvarnaeftirlits. Með slíkum samningum þarf ætíð að tryggja að hvert sveitarfélag hafi aðgang að slökkviliði sem þjóni íbúum sveitarfélagsins. Því er sú skylda lögð á sveitarfélög sem gera með sér slíkan samning að þau tilkynni það til Brunamálastofnunar. Til að hvetja sveitarstjórnir til þeirrar samvinnu sem hér hefur verið lýst er lagt til að Brunamálastofnun fái heimild til að veita í fimm ár frá gildistöku laganna tímabundinn fjárstuðning til þeirra sveitarfélaga sem sameinast um starfsemi eldvarnaeftirlits og/eða slökkviliðs. Gert er ráð fyrir að árlegur fjárstuðningur verði að lágmarki mismunur á innheimtu brunavarnagjaldi og árlegum kostnaði við rekstur Brunamálastofnunar.

Kveðið er sérstaklega á um þau hæfisskilyrði sem slökkviliðsstjóri þarf að uppfylla til að geta gegnt starfi. Lagt er til að gerðar verði strangari hæfiskröfur til þeirra starfa sem slökkviliðsstjórar sinna en þeirra sem starfa sem slökkviliðsmenn. Rétt þykir að gera auknar hæfiskröfur til slökkviliðsstjóra með hliðsjón af því hve mikilvægu hlutverki þeir gegna við framkvæmd brunavarna. Því er þýðingarmikið að slíkir aðilar hafi hlotið til þess þjálfun og hafi yfir tiltekinni þekkingu að ráða.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið helstu breytingar og nýmæli sem fram koma í frv. Ég vil geta þess að í ákvæðum til bráðabirgða IV í frv. er mælt fyrir um endurskoðun ákvæða frv., verði það að lögum, og annarra laga sem fjalla um byggingarefni og öryggi bygginga með það fyrir augum að sameina réttarheimildir um byggingar og önnur mannvirki. Samhliða slíkri endurskoðun kæmi til álita að færa stjórnsýslu byggingarmála á eina hendi og einfalda þannig og samhæfa framkvæmd þessa málaflokks.

Hæstv. forseti. Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta frv. Ég legg áherslu á að ég tel að nokkuð góð sátt ríki um þetta frv. meðal þeirra sem fara með framkvæmd brunamála. Verði frv. að lögum getur það orðið til þess að bæta öryggi fólks gagnvart eldi og draga úr eignatjóni þegar frá líður. Ég vænti þess að frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi með gildistöku frá og með 1. janúar árið 2001.

Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hæstv. umhvn.