Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:16:55 (5682)

2000-03-23 11:16:55# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:16]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram. Þær hafa að mínu mati verið frekar jákvæðar. Hér hefur verið bent á að þetta er mjög þýðingarmikið frv. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði tvívegis óvart að frv. ætti að fara til félmn. Það er mjög eðlilegt að hún skyldi segja það þar sem einungis tvö ár eru síðan þessi málaflokkur fór frá félmrn. yfir í umhvrn. Brunamálastofnun tilheyrir núna umhvrn. og þetta frv. mun fara til umfjöllunar í umhvn.

Það er einnig rétt sem hér var sagt að Brunamálaskólinn hefur haft mjög óljósa stöðu samkvæmt lögum. Það hefur ekki verið minnst á skólann í lögum en nú er bætt úr því. Ég tel að hér sé málefnum hans mjög vel fyrir komið og vil taka fram að samráð var haft við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna varðandi ákvæði Brunamálaskólans og reynt að skoða öll sjónarmið sem þar komu fram. Auðvitað kom til umræðu að hafa skólann alveg sjálfstæðan og sumir telja að það sé æskilegt. Hins vegar ber að hafa í huga að Brunamálastofnun hefur yfir mikilli fagþekkingu að ráða varðandi þessi mál og okkur þótti eðlilegt að skólinn yrði sérstök deild innan stofnunarinnar en skólinn hefur þó mjög mikið sjálfstæði eigi að síður. Skólaráðið mun hafa mjög mikil og mótandi áhrif á starfsemi skólans og mun einnig koma með tillögur, t.d. um ráðningu skólastjóra Brunamálaskólans. Það er rétt sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á, að Brunamálaskólinn mun hafa mikið sjálfstæði miðað við texta frv.

Við sameiningu slökkviliða á að taka gjaldið sem runnið hefur í ríkissjóð, þ.e. mismuninn á innheimtugjaldi og því sem fer til reksturs Brunamálastofnunar sem var um 13--14 milljónir á yfirstandandi ári, og láta renna til þeirra sem vilja fara í sameiningar á slökkviliðum eða eldvarnaeftirliti. Að sjálfsögðu verða sveitarfélögin að segja til um hvað þau vilja sjálf en þetta er aðallega hugsað þannig að lítil sveitarfélög muni nýta sér féð. Meginmarkmiðið er að hin minni sveitarfélög skoði ofan í kjölinn hvort ekki sé æskilegt að þau sameinist t.d. um rekstur slökkviliða. Þá gæti t.d. orðið einn slökkviliðsstjóri yfir slökkviliðum sem núna hafa verið rekin í tveimur hlutum og hægt yrði að sameina í slökkvilið á tveimur svæðum í eitt. Þetta væri hugsanlegt og þetta ákvæði snýr að því að aðstoða sveitarfélög og hvetja til að sameina eldvarnaeftirlit eða slökkvilið. Í sérhæfðum málum eins og starf slökkviliða og eldvarnaeftirlit svo sannarlega eru er talið að því stærri sem einingarnar séu þeim mun sterkari geti þær orðið.

Varðandi spurningu frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um styrkinn sjálfan, hvort hann yrði veittur til tækjakaupa eða til reksturs, þá er ekki búið að útfæra það endanlega. Það kemur fram í bráðabirgðaákvæði að umhvrh. mun setja reglur varðandi þessa styrki eftir umsögn Brunamálastofnunar. Þannig getur vel komið til greina að niðurstaðan verði að veita bæði styrki til tækjakaupa og til reksturs. Það er eitthvað sem menn verða að skoða út frá þeim upphæðum sem við munum hafa handa á milli til að hvetja sveitarfélögin til að sameinast um þessi mál. Þetta þarf að skoða sérstaklega hjá Brunamálastofnun og umhvrh. mun taka tillit til þeirrar ráðgjafar sem þar fæst.

Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði að Samfylkingin teldi mjög æskilegt að skoða málið vel í umhvn. og að það væri það miklvægt að æskilegt væri að ná því fram á yfirstandandi þingi. Ef það tekst, sem ég vona sannarlega því að mínu mati er um mjög mikið framfaramál að ræða, þá mundu lögin taka gildi um næstu áramót. Ef það tekst ekki að ná því fram núna verður frv. væntanlega lagt fram aftur í haust. Það má sjá fyrir sér að við náum því í gegn fyrir jól og þá taka lögin gildi á svipuðum tíma. En það væri mjög æskilegt að fá þetta í gegn á yfirstandandi þingi svo að þeir sem búa við þetta lagaumhverfi viti alveg hvað er fram undan. Ég deili þeim skoðunum sem hér hafa komið fram, að æskilegt væri að ná frv. fram á yfirstandandi þingi en ég geri mér líka grein fyrir því að það eru fjölmörg mál í nefndunum sem þarf að afgreiða.

Hv. þm. Pétur Blöndal kom inn á atriði sem eðlilegt er að draga fram en samkvæmt þessu frv. leggjum við niður stjórn Brunamálastofnunar. Hún verður aflögð og í staðinn munum við hafa brunamálaráð sem mundi verða brunamálastjóra til rágjafar en hefði ekki frekari völd en að vera ráðgefandi. Í dag hefur stjórnin miklu sterkara hlutverk og að mínu mati er rétt að hafa beint ábyrgðarsamband milli ráðherra og forstjóra viðkomandi stofnunar. Það hefur verið stefnan í stjórnsýslunni að leggja niður stjórnir. Það er t.d. engin stjórn yfir Náttúruvernd ríkisins, engin stjórn yfir Hollustuvernd ríkisins o.s.frv. Þetta skapar mun betri uppbyggingu eða strúktúr á stofnunum og ábyrgð á milli forstjóra og ráðherra. Því er það lagt til að stjórn Brunamálastofnunar verði lögð niður en í staðinn komi brunamálaráð. Hins vegar er umdeilanlegt hvort yfirleitt eigi að vera brunamálaráð eða ekki. En vegna þess hve málaflokkurinn er sérhæfður og óska ýmissa aðila um að hafa aðgang að þeirri stofnun, þó ekki væri nema í formi faglegrar ráðgjafar, þá ákváðum við að leggja til að hafa brunamálaráð sem á að geta styrkt stofnunina með faglegri ráðgjöf.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir þessar umræður. Ég tel þær hafa verið jákvæðar og uppbyggilegar og vona að málið fái góða umfjöllun í umhvn. og náist í gegn á yfirstandandi þingi.