Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:27:30 (5684)

2000-03-23 11:27:30# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:27]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi mannaráðningar til Brunamálaskólans þá er ljóst að skólinn verður deild innan Brunamálastofnunar. Hann er ekki skóli úti í bæ þannig að brunamálastjóri mun bera endanlega ábyrgð á mannaráðningum til skólans sem deildar innan Brunamálastofnunar. Brunamálastjóri verður að bera sömu ábyrgð þar og gagnvart öðrum starfsmönnum sem ráðnir eru til stofnunarinnar.

Hins vegar er sérstaklega tekið fram í texta frv. að:

,,Við ráðningu skólastjóra Brunamálaskólans skal brunamálastjóri leita eftir tillögu skólaráðs.``

Þannig er gert ráð fyrir mjög miklu samráði varðandi ráðningu skólastjóra, þ.e. að leitað sé eftir tillögu frá skólaráðinu. Í textanum er einungis tekið til ráðningar skólastjórans en ekki ráðningar annarra kennara. Nýr brunamálastjóri mun taka við frá og með næstu áramótum þar sem búið er að gera starfslokasamning við núverandi brunamálastjóra. Ég á fastlega von á að leitað verði eftir sem bestu samráði við brunamálastjóra almennt um málefni skólans, að sjálfsögðu. Það er eðlilegt.

Varðandi það hvort almenn stefnumörkun sé að leggja af stjórnir í stofnunum þá man ég nú ekki til þess að ríkisstjórnin hafi sérstaklega tekið á því síðan ég bættist í þann hóp. En ég er almennt þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að beint ábyrgðarsamband sé á milli ráðherra og forstjóra stofnunar. Ég tel að það hafi reynst vel í þeim tilvikum sem við höfum lagt niður stjórnir. Því legg ég til að brunamálstjórn verði lögð niður. Það getur skapast núningur á milli stjórnar og ráðherra, stjórnar og forstjóra og ég tel miklu eðlilegra að hafa þarna beint samband á milli.