Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:43:04 (5686)

2000-03-23 11:43:04# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:43]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. umhvrh. í andsvari við hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og einnig þeirra orða sem féllu hjá síðasta ræðumanni um stjórnir og forstöðumenn ríkisstofnana þá sagði hæstv. umhvrh. að hún teldi eðlilegt að forstöðumenn heyrðu beint undir ráðherra. Það er svo sem sjónarmið út af fyrir sig, en mér finnst að ekki eigi að útiloka almennt að ráðherra skipi stjórnir til þess að stjórna stofnunum og stjórnirnar ráði síðan framvæmdastjóra eða forstöðumenn sem heyri þá alfarið undir stjórnirnar. Þá er skipuritið í lagi og ábyrgðin á hreinu. Það sem er verst er það sem menn hafa verið að gera undanfarna áratugi á Íslandi, að ráðherra skipi forstöðumenn og jafnframt séu settar stjórnir yfir stofnanirnar. Forstöðumaðurinn telur að sjálfsögðu þar sem hann er ráðherraskipaður að hann hafi allt með reksturinn að gera og stjórnirnar telja í skjóli nafns síns, þ.e. stjórn, að þeim beri að stjórna. Þarna geta orðið árekstrar og hafa orðið árekstrar á undanförnum árum eins og við þekkjum. Ég tel mjög mikilvægt að skipuritið sé hreint, annaðhvort skipi ráðherrann stjórn yfir stofnanir og stjórnin ráði síðan forstöðumenn yfir stofnunina sem ber þá ábyrgð gagnvart stjórninni alfarið eða að ráðherra skipi forstöðumann beint sem ber þá ábyrgð gagnvart ráðherranum. Sú breyting sem hér er lögð til er því til bóta. Hún hefði getað verið á hinn veginn, þ.e. ráðherra skipaði stjórnina alfarið og stjórnin réði síðan forstöðumanninn á sína ábyrgð. En eins og ég gat um er það verst þegar bæði stjórn og forstöðumaður telja sig þurfa að ráða, þannig að þessi breyting er til bóta.

Við þekkjum nokkur dæmi enn í kerfinu þar sem stjórnir eru til hliðar við forstöðumenn og eitt stærsta dæmið er náttúrlega stjórnarnefnd Ríkisspítalanna sem í krafti nafns síns telur náttúrlega að hún eigi að stjórna. En jafnframt er forstöðumaður sem heyrir beint undir ráðherra og ef árekstur verður þarna á milli, þá er spurningin hvor þeirra eigi að ráða. Þetta fyrirkomulag tel ég að hafi kostað hundruð milljóna í óþarfa útgjöldum vegna þess að stjórnunin er ekki nógu markviss.

Ég vildi bara koma þessu að, herra forseti, vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið um stjórnir og forstöðumenn ríkisstofnana.