Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:53:22 (5689)

2000-03-23 11:53:22# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Með þessu frv. erum við að stíga jákvætt skref fram á við. Ef eitthvað er þá fækkar tjónum verði þetta frv. að lögum. Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem talaði hér fyrr í dag, teldi málið vera til framfara og meira að segja að Samfylkingin mundi frekar mælast til að ná málinu í gegn á yfirstandandi þingi.

Varðandi brunamálaráð þá hefur það skýrt hlutverk samkvæmt textanum. Það á að vera Brunamálastofnun og brunamálastjóra til faglegrar ráðgjafar. Að mínu mati er ekki eðlilegt að hafa stjórn yfir þessari stofnun frekar en yfir öðrum stofnunum. Maður spyr sig: Af hverju ætti þá ekki að vera stjórn yfir öllum stofnunum? Ég styð ekki þá stefnu og vil draga fram að nokkuð mikil sátt ríkir um frv. hjá öllum hagsmunaaðilum og öðrum sem málið varðar.

Varðandi það sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sagði um að lítil sveitarfélög hefðu ekki efni á að senda menn til langrar dvalar þá áttaði ég mig ekki alveg á þeim skilaboðum. Ég vildi gjarnan að hv. þm. notaði tækifærið í andsvari til að skýra það nánar.