Brunavarnir

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 11:56:58 (5691)

2000-03-23 11:56:58# 125. lþ. 86.2 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[11:56]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að fá þetta fram af mér hefur fundist mál hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar gagnvart þessu frv. frekar flutt á neikvæðum nótum. Það er þá misskilningur af minni hálfu og viðkomandi þingmaður fagnar framlagningu frv. Það er gott að heyra. Kannski er eðlilegt að benda á öll álitamálin og rétt að álitamálin eru að sjálfsögðu mörg þegar ráðist er í svo mikla endurskoðun.

Það er líka rétt að frv. tryggir ekki eitt og sér að við lendum ekki í einhverjum stórsköðum. En frv. á að tryggja að við búum við betra kerfi í málaflokknum en við búum við í dag. Að sjálfsögðu getum við lent í stórslysum eins og aðrar þjóðir en við reynum að minnka þá áhættu með þessu frv., með því að bæta stjórnun þessa málaflokks frá því sem er í dag.

Varðandi það að menn gætu ekki sent slökkviliðsmenn til langdvalar hér á höfuðborgarsvæðinu til að læra, þá hef ég ekki sérstakar áhyggjur af því. En ég hef orðið vör við að sumir hafa áhyggjur af því vegna þess að við erum að breyta Brunamálaskólanum. Það hefur verið starfandi farskóli sem hefur farið með tækjabúnað um landið og boðið upp á þjónustu þar. Það hefur tekist vel og er sniðugt fyrirkomulag að þurfa ekki ávallt að senda slökkviliðsmenn hingað suður til að stunda nám. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af þessu og ég býst við að þetta fyrirkomulag verði áfram við lýði. Það hefur reynst ágætlega.

Hins vegar er óeðlilegt að hafa þetta í tveimur aðskildum einingum eins og það er í dag. Með frv. verður Brunamálaskólinn þannig heildstæður skóli með mjög mikið sjálfstæði innan Brunamálastofnunar. Ég tel að menn þurfi ekki að hafa áhyggjur af sérstaklega miklum fjárútlátum vegna náms í Brunamálaskólanum.