Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:20:44 (5696)

2000-03-23 12:20:44# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi hv. þm. ekki þannig að hann væri að leggja það til. Ég skildi alveg nákvæmlega hvað hann var að fara. Hér er farin sú leið að þetta verði allt saman á einni hendi. Það er í samræmi við þá ráðgjöf sem ég hef fengið frá þeim ráðgefandi stjórnum sem þarna hafa starfað undanfarna mánuði, annars vegar ráðgefandi stjórn Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og hins vegar ráðgefandi stjórn Fríhafnarinnar. Þessir aðilar hafa unnið afar gott starf á undanförnum mánuðum og í þessu frv. er í einu og öllu farið eftir þeim niðurstöðum sem þessir menn hafa komist að. Ég tel sjálfsagt að vandlega verði farið yfir málið í hv. utanrmn. og þeir aðilar sem hvað best hafa sett sig inn í þetta á undanförnum mánuðum mæti þar og geri grein fyrir því af hverju þeir telja nauðsynlegt að málinu sé skipað með þessum hætti. Ég hvet til þess að slík umræða fari fram um það á vettvangi nefndarinnar, m.a. með því að kalla þessa aðila fyrir.