Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:27:43 (5701)

2000-03-23 12:27:43# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:27]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég set nú ekki jafnaðarmerki á milli vinstri stefnu og þess að vera bara alltaf á móti. Ég set miklu frekar jafnaðarmerki á milli hægri stefnu og þess að vera alltaf á móti. Þeir sem alltaf eru á móti breytingum eru að sjálfsögðu íhaldssömu öflin í þjóðfélaginu. Ég vil í þessu sambandi leiðrétta hv. þm. Það er ekki ætlun stjórnvalda að einkavæða Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það er sérstaklega tekið fram í frv. að með samþykkt þess sé tilgangurinn ekki að gera það heldur þurfi sérstaka samþykkt Alþingis ef það ætti að gera.

Ég vil hins vegar vekja athygli á einni mjög einfaldri staðreynd. Menn hafa í vaxandi mæli tekið upp eða heimilað einkafyrirtækjum að starfa á verslunarsvæði Fríhafnarinnar. Áður fyrr var aðeins leyft að reka þar ríkisverslun sem var Fríhöfnin. Á síðari árum hafa menn í auknum mæli leyft einstaklingum að versla þar, m.a. í samkeppni við Fríhöfnina. Hver hefur árangurinn orðið? Árangurinn hefur m.a. orðið sá að tekjur Fríhafnarinnar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafa vaxið það mikið að nú fyrst eru rekstrartekjurnar nægjanlegar til þess að flugstöðin geti staðið undir greiðslu vaxta og afborgana. (ÖJ: Af því að þeir einkavæddu hana?) Það er í fyrsta skipti sem það verður. Ég segi nú bara alveg eins og er, virðulegi forseti: Er það ekki fagnaðarefni að þessar skuldir skuli ekki halda áfram að hlaðast á herðar skattborgara? Ef skýringin á því að svo sé ekki lengur er að einhverju leyti sú að opnað hafi verið fyrir frjálsari verslun innan Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar en áður var, eru það þá ekki rök fyrir því að menn skoði málið og gefi sér það ekki fyrir fram að þetta megi ekki? Eða telur hv. þm. að það hefði verið affarasælla að halda sér við hina upphaflegu ákvörðun um að þarna mætti enginn koma nema ríkisrekið fyrirtæki þó það kostaði það að skuldir vegna byggingarinnar héldu áfram að hlaðast á herðar íslenskra skattborgara?