Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:44:44 (5703)

2000-03-23 12:44:44# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:44]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að svara deildar- og skúffutali hv. þm. Ég vildi aðeins svara því sem hann sagði um að málið hefði borið að mjög hratt. Það var sagt frá því á sl. sumri að ég hefði skipað tvær ráðgefandi nefndir til þess að undirbúa þetta mál, annars vegar varðandi flugstöðina og hins vegar fríhöfnina.

[12:45]

Nefndin varðandi flugstöðina skilaði af sér mjög góðum tillögum, m.a. í frumvarpsformi. Ég fór með það mál strax inn í ríkisstjórn, í utanrmn., og hafði hugsað mér að kynna þær næst starfsfólki á þriðjudegi. Það kom hins vegar í ljós að fjölmiðlar höfðu einhvern veginn komist í málið sem ég vissi ekki um og ég átti því engan annan kost en að svara þeim seinni partinn á mánudegi og taldi það vera betra en að þeir væru með getgátur, eins og þeir voru með, um málið, m.a. að til stæði að selja flugstöðina. Það kemur alveg skýrt fram í frv. að það stendur ekki til. Ég hef hins vegar sagt að ég vilji ekki útiloka það, en það er hins vegar ákvörðun Alþingis ef það verður gert. Ég teldi það bara óskynsamlegt að útiloka það um aldur og ævi og væri ekki í neinu samræmi við það sem gengur og gerist í kringum okkur. Það liggur ekkert á í þeim efnum og það eru engar forsendur fyrir því að taka þá ákvörðun í dag.