Stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Fimmtudaginn 23. mars 2000, kl. 12:50:26 (5706)

2000-03-23 12:50:26# 125. lþ. 86.3 fundur 502. mál: #A stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar# frv. 76/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 125. lþ.

[12:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég skil nú ekki hvers konar útúrsnúningar þetta eru. Að sjálfsögðu vil ég borga niður skuldir, ég vil ekki afsala þjóðinni þeirri gullgerðarvél sem hún á þarna, sem hún m.a. notar til þess að greiða niður skuldir sínar, þar með af flugstöðinni. Og það er sannanlegt og kemur m.a. fram í þessum plöggum að ríkissjóður mun verða fyrir tekjutapi vegna þeirra breytinga sem eru fyrirhugaðar. Varðandi hitt sem lýtur að takmörkun lýðræðisins, þá er það líka óvefengjanlegt. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ég sem aðrir þingmenn get vakið máls á öllu milli himins og jarðar hér í þingsal, en hæstv. ráðherrar eru bundnir af lögum um hverju þeir svara. Hlutafélagalögin eru takmarkandi hvað þetta snertir, borið saman við lög sem gilda um opinberar stofnanir og opinbera stjórnsýslu. Þetta er staðreynd og á þetta hefur margoft verið látið reyna, t.d. varðandi símann, Póst og síma, fyrir og eftir að sú stofnun var gerð að hlutafélagi. Þetta eru því útúrsnúningar hjá hæstv. ráðherra. En hann mun verða spurður nánar út í þessi mál, bæði hvað snertir lýðræði og hvað snertir peningana. Því þar fer ég með rétt en ekki rangt mál. Það er hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, sem fer með rangar staðhæfingar í því efni.